Leiðbeiningarsíður
Hagnýtar upplýsingar og leiðbeiningar
Samkeppniseftirlitið leggur mikið upp úr skýrum og góðum leiðbeiningum enda allra hagur að sem flestir þekki vel til samkeppnismála. Leiðbeiningar- og fræðsluhlutverk Samkeppniseftirlitsins tekur til fjölbreytts hóps hagaðila, allt frá neytendum, skólafólki, eða starfsmönnum fyrirtækja, til fyrirtækjanna sjálfra, stjórnenda þeirra, ráðgjafa og ennfremur stjórnvalda. Leiðbeiningin beinist að því að styðja upplýsta umræðu um samkeppnismál, skapa aðstæður fyrir aðhald neytenda og viðskiptavina, tala fyrir samkeppni á vettvangi stjórnvalda og leiðbeina fyrirtækjum og ráðgjöfum þeirra. Samkeppniseftirlitið gerir reglulegar kannanir á meðal almennings og fyrirtækja, sem nýttar eru í mótun á leiðbeiningarhlutverki eftirlitsins. Síðustu kannanirnar má nálgast hér og hér.
Eðli málsins samkvæmt eru leiðbeiningar og annað fræðslu- og upplýsingarefni í stöðugri þróun innan Samkeppniseftirlitsins. Við erum alltaf til í góðar hugmyndir og ef þú lumar á einni slíkri eða hefur spurningar má alltaf senda póst á samkeppni@samkeppni.is .
Hér að neðan er tekið saman yfirlit yfir fjölbreytta leiðbeiningu og fræðslu sem finna má á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Þess má geta að eftirlitið vinnur að breytingu á heimasíðunni sem miðar að því að gera þetta efni enn aðgengilegra.
Kjarnareglur samkeppnislaga
Á heimasíðunni eru teknar saman aðgengilegar leiðbeiningar um nokkrar kjarnareglur samkeppnislaga. Fjallað er um helstu tegundir brota og aðgangshindrana, leiðbeint um helstu atriði sem snúa að fyrirtækjum, stjórnvöldum eða einstaklingum og svarað algengum spurningum undir hverjum lið.
Nefna má sem dæmi að undir samrunamálum er leiðbeint um samrunatilkynningar, samrunagjald og rannsókn samrunamála, undir markaðsyfirráðum er fjallað um markaðsráðandi stöðu og misnotkun hennar og undir ólögmætu samráði er leiðbeint um ábyrgð einstaklinga, hvernig brotleg fyrirtæki eða einstaklingar geta gefið sig fram og komist hjá kæru eða sektum, og birtar ítarlegar leiðbeiningar fyrir hagsmunasamtök og um undantekningar frá samráðsbanni.
Ólögmætt samráð
- Í hnotskurn
- Helstu tegundir samráðsbrota
- Ábyrgð einstaklinga
- Hagsmunasamtök fyrirtækja og samkeppnisreglur
- Lækkun eða niðurfelling sekta
- Algengar spurningar
- Undantekning frá banni við samráði fyrirtækja
Markaðsyfirráð
Samrunamál
Markaðsrannsóknir
- Í hnotskurn
- Til hvers gerir Samkeppniseftirlitið markaðsrannsóknir?
- Til hvaða ráðstafana getur stofnunin gripið í kjölfar markaðsrannsókna?
- Dæmi - Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði
Samkeppni og hið opinbera
- Í hnotskurn
- Samkeppnisrekstur opinberra aðila
- Íþrótta- og sundstaðir, heilbrigðisþjónusta og sorphirða
- Algengar spurningar
Á heimasíðunni er einnig að finna upplýsingar um skilgreiningu markaða og hvernig samþjöppun er mæld.
Verklags- og leiðbeiningarreglur
Samkeppniseftirlitið leggur mikla áherslu á að allar úrlausnir þess séu vandaðar, vel rökstuddar og í samræmi við lög og reglur. Á heimasíðunni eru tekin saman helstu lög og reglur er varða starfsemi Samkeppniseftirlitsins sem og verklags- og leiðbeiningarreglur sem gagnlegt er fyrir hagaðila að hafa hliðsjón af. Nálgast má yfirlit yfir reglur og leiðbeiningar hér. Einnig má nálgast allar reglugerðir er varða samkeppnismál í reglugerðarsafni Íslands.
Starfsemi Samkeppniseftirlitsins
Samkeppniseftirlitið starfar samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005.
Einnig er eftirlitinu falin ýmis hlutverk samkvæmt öðrum lögum. Í því samhengi má nefna:
- Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002
- Raforkulög nr. 65/2003
- Lög um fjarskipti nr. 81/2003
- Lög um opinber innkaup nr. 84/2007
- Lög um sérstakan saksóknara nr. 135/2008
- Lög um fjölmiðla nr. 38/2011
Sem stjórnvald þarf Samkeppniseftirlitið jafnframt að huga að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og upplýsingalögum nr. 140/2012 við starfsemi sína.
Verklags- og leiðbeiningarreglur
Samkeppniseftirlitið hefur mótað sér ítarlegar málsmeðferðarreglur í því skyni að tryggja gagnsæi og vönduð vinnubrögð. Nálgast má málsmeðferðarreglur Samkeppniseftirlitsins hér. Sjá einnig reglur um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins nr. 490/2013.
Til viðbótar hafa verið gefnar út margs konar leiðbeiningarreglur. Eru þær til þess fallnar að auðvelda fyrirtækjum og opinberum aðilum að meta samkeppnisstöðu sína, m.a. hvort háttsemi þeirra sé líkleg til að skaða samkeppni. Er t.a.m. um að ræða reglur og leiðbeiningar um tilkynningu samruna, hvenær hægt er að fara fram á niðurfellingu/ lækkun sekta í samráðsmáli og hvenær samráð fyrirtækja er undanþegið banni samkeppnislaga. Nálgast má þessar reglur og leiðbeiningar hér, sbr. einnig lista hér fyrir neðan.
- Reglur nr. 1390/2020 um tilkynningu samruna
- Reglur nr. 890/2005 um niðurfellingu eða lækkun sekta í samráðsmálum
- Leiðbeiningar um beitingu 15. gr. samkeppnislaga, undantekning frá banni við samráði fyrirtækja
Reglur um hópundanþágur
Samningar og ákvarðanir sem brjóta í bága við 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins eru sjálfkrafa ógildir. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. samkeppnislaga getur eftirlitið hins vegar sett reglur þar sem tilteknum tegundum samninga, sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. laganna, er veitt undanþága frá ákvæðum 10. og 12. gr. laganna. Kallast það hópundanþága. Byggir þetta á sams konar heimild í 3. mgr. 53. gr. EES samningsins.
Kemur það í hlut fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort að samningar þeirra uppfylli skilyrði til að njóta slíkrar hópundanþágu. Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins má nálgast yfirlit yfir helstu hópundanþágur sem í gildi eru.
Evrópskar reglur og leiðbeiningar
Íslenskur samkeppnisréttur á rætur sínar að rekja til evrópsks samkeppnisréttar. Til að mynda sækja ákvæði 10. og 11. gr. samkeppnislaga, um ólögmætt samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, fyrirmyndir sínar til ákvæða 53. og 54. gr. EES-samningsins, sem hefur verið lögfestur hér með lögum nr. 2/1993.
Samstarf samkeppnisyfirvalda í Evrópu er breitt. Hafa bæði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og Framkvæmdastjórn ESB lagt sitt að mörkum við setningu leiðbeiningarreglna um beitingu ákvæða er varða samkeppnisrétt, sem innlendum samkeppnisyfirvöldum, þ.á.m. íslenskum, ber að taka mið af. Er það m.a. liður í því stuðla að einsleitni í beitingu samkeppnisreglna á öllu EES-svæðinu.
Nálgast má allar leiðbeiningar útgefnar af ESA á íslensku hér.
Vert er vekja athygli á nokkrum mikilvægum leiðbeiningum ESA, sem hafa verið gefnar út á íslensku, en þær eru efnislega sambærilegar þeim réttarheimildum sem Framkvæmdastjórn EB hefur gefið út:
- Leiðbeinandi reglur um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum
- Leiðbeinandi reglur um lóðréttar hömlur
- Tilkynningar um skilgreiningu á hugtakinu viðkomandi markaður við framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins og um minniháttar samninga sem falla utan gildissviðs 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins,
- Leiðbeiningar um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins
- Leiðbeiningar um hugtakið áhrif á viðskipti skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins
Eins og fyrr greinir hefur Samkeppniseftirlitið einnig gefið út leiðbeiningarreglur. Margar hverjar taka mið af sambærilegum leiðbeiningum ESA, t.d. um sjálfsmat fyrirtækja hvað varðar 15. gr. samkeppnislaga og um beitingu samkeppnisreglna gagnvart láréttu og lóðréttu samstarfi fyrirtækja. Þær leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins eru leiðbeiningum ESA til fyllingar.
Leiðbeiningar frá Framkvæmdastjórninni
Nálgast má allar leiðbeiningar útgefnar af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hér.
Leiðbeiningar til þeirra sem vilja kvarta yfir samkeppnishindrunum
Á heimasíðunni er að finna ítarlegar leiðbeiningar til þeirra sem vilja beina kvörtun til eftirlitsins vegna samkeppnisaðstæðna eða háttsemi fyrirtækja eða stjórnvalda. Þar er leiðbeint um efni slíkra erinda, hvernig eftirlitið leggur mat á tilefni til rannsókna, fjallað um heimildir eftirlitsins til að forgangsraða málum og gerð grein fyrir reglum um nafnleynd og málsmeðferð.
Nálgast má leiðbeiningar um þetta hér.
Einnig er hægt að beina nafnlausum ábendingum til eftirlitsins í gegnum heimasíðunna og gefnar leiðbeiningar um það.
Yfirlit yfir úrlausnir
Samkeppnislög byggja á meginreglum sem sækja skýra tengingu
í markmið 1. gr. samkeppnislaga, en mótast síðan í framkvæmd í úrlausnum
samkeppnisyfirvalda og fyrir dómstólum. Fyrir stjórnendur fyrirtækja, lögmenn
og aðra ráðgjafa er mikilvægasta leiðbeiningin fólgin í rökstuddum úrlausnum
samkeppnisyfirvalda og dómstóla. Því hefur eftirlitið kappkostað að gefa
greiðan aðgang að ákvörðunum,
úrskurðum
áfrýjunarnefndar samkeppnismála, álitum og umsögnum til
stjórnvalda, sem og skýrslum
um fjölbreytt málefni.
Þá hefur Samkeppniseftirlitið einnig birt yfirlit yfir úrlausnir dómstóla frá upphafi sem um leið veita beinan aðgang inn í viðkomandi dóma. Einnig má nálgast hér að neðan yfirlit yfir úrlausnir umboðsmanns Alþingis og yfirlit yfir sektarákvarðanir frá upphafi. Yfirlit ættu að skapa þeim sem fást við samkeppnismál mikilvægan aðgang að fordæmum sem eru þýðingarmikil í framkvæmd samkeppnislaga.
- Úrlausnir héraðsdóms
- Úrlausnir Landsrétts
- Úrlausnir Hæstarétts
- Úrlausnir umboðsmanns Alþingis
- Yfirlit yfir sektarákvarðanir
Upplýsinga- og leiðbeiningarsíður
Þegar sérstakt tilefni er til birtir Samkeppniseftirlitið
sérstakar upplýsinga- og leiðbeiningarsíður um nánar tiltekin málefni sem eru í
brennidepli. Hér er yfirlit yfir upplýsingasíður af þessum toga:
- Hagsmunasamtök fyrirtækja og samkeppnisreglur
- Undantekning frá banni við samráði fyrirtækja - leiðbeiningarsíða um beitingu 15. gr. samkeppnislaga
- Upplýsingasíða um breytingar á samkeppnislögum
- Beiting samkeppnisreglna og samkeppniseftirlits í efnahagserfiðleikum vegna COVID-19
- Samkeppni á leigubifreiðamarkaði
- Upplýsingasíða um ólögmætt samráð á byggingavörumarkaði
- Upplýsingasíða um breytingar á greiðslukortamarkaði
- Breytingar á verðmerkingum í kjötvörum
- Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum
Kynningar- og fræðslumyndbönd
Útgáfa fræðslumyndbanda er í takti við þann vilja löggjafans að efla hlutverk Samkeppniseftirlitsins sem málsvara fyrir samkeppnislögin og öfluga samkeppni. Eru þessar áherslur einnig í samræmi við markmið sem sett hafa verið fram í fjármálaáætlun á málefnasviði eftirlitsins. Á heimasíðunni fjallað nánar um umræðu- og fræðsluhlutverk Samkeppniseftirlitsins í þessu sambandi.
Nálgast má kynningarmyndbönd Samkeppniseftirlitsins hér. Þau tvö nýjustu eru kynningarmyndbönd um samkeppnislög og samkeppniseftirlit og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Innan tíðar verður þriðja myndbandið birt sem fjallar um ólögmætt samráð.
Þessi myndbönd hafa fengið mikla dreifingu á samfélagsmiðlum og eru orðin hluti af kynningarefni fyrirtækja, ætlað starfsfólki og stjórnendum. Einnig er eftirlitið að koma myndböndunum á framfæri við skóla, því þau geta einnig nýst almenningi.
Samtal um samkeppni
Samkeppniseftirlitið kappkostar að vera þátttakandi í umræðu um samkeppnismál. Þannig tekur eftirlitið þátt í fundum og ráðstefnum og birtir ræður og kynningar af því tilefni. Einnig birtir eftirlitið pistla, kynnir afstöðu eftirlitsins með fréttum á heimasíðu og svarar algengum spurningum sem upp koma.
Þá heldur eftirlitið úti fundarröð undir samheitinu „Samtal um samkeppni“, þar sem eftirlitið kemur á framfæri leiðbeiningum og sjónarmiðum til hagsmunaaðila, stjórnvalda og almennings, en hlustar um leið eftir sjónarmiðum sem að gagni geta komið. Nefna má eftirfarandi fundi og ráðstefnur:
1. 13. júní 2022: Morgunráðstefna um samkeppni, verðbólgu og kaupmátt.
2. 1. júní 2021: Umræðufundur um meðferð samrunamála.
3. 9. júní 2020: Fjölþjóðleg vefráðstefna um samkeppnismál og verndarstefnu á tímum COVID-19.
4. 11. desember 2019: Opinn umræðufundur um nýjar samrunareglur.
5. 30. nóvember 2019: Opinn umræðufundur um drög að leiðbeiningum um undanþágur frá banni við samráði.
6. 16. október 2019: Fundur um verklag við rannsóknir á samrunum.
7. 22.-24 febrúar 2017: Tólf kynningarfundir um samkeppnismat og endurbætur í regluverki atvinnulífs, með opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum í atvinnulífinu.
8. 25. maí 2016: Umræðurfundur um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni.
9. 18. febrúar 2016: Ráðstefna um beitingu samkeppnisreglna á Íslandi og Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem frummælandi var Gjermund Mathisen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA.
10. 12. febrúar 2016: Umræðufundur um samkeppni í landbúnaði.
11. 3. desember 2015: Kynningarfundur um áhrif stjórnvalda á samkeppni og samkeppnismat, þar sem frummælandi var Ania Thiemann, hagfræðingur hjá OECD.
Leiðbeiningum samkeppnisyfirvalda settar skorður í EES-rétti
Samkeppnisreglur á evrópska efnahagssvæðinu setja samkeppniseftirlitum skorður við því að gefa leiðbeiningar um tilteknar samkeppnisaðstæður fyrirfram, s.s. að því er varðar heimildir til samstarfs fyrirtækja eða markaðsskilgreiningar. Byggir evrópskur samkeppnisréttur almennt á sjálfsmati fyrirtækja, en dýnamísk þátttaka fyrirtækja í atvinnulífinu og skilvirkni atvinnulífs kallar á að fyrirtæki beri fulla ábyrgð á eigin starfsemi.
Skorðum við efnislegum leiðbeiningum einstakra samkeppniseftirlita er ekki síst ætlað að stuðla að einsleitni í framkvæmd ESB-/EES-reglna. Ítarleg efnisleg og fyrirfram leiðbeining eftirlita í mismunandi aðildarríkjum myndi fljótt stofna einsleitri framkvæmd í voða, enda hefði framkvæmdastjórn ESB eða ESA takmarkaða möguleika til að grípa inn í slíka þróun.
Þá er skorðunum ætlað að tryggja að samkeppnisreglum sé ávallt beitt í samhengi við aðstæður hverju sinni. Með því t.d. að leiðbeina efnislega um markaðsskilgreiningar fyrirfram, án þess að unnt sé að ganga úr skugga um hverjar aðstæður á markaðnum verða í framtíðinni, kynnu samkeppnisyfirvöld að vera að vinna gegn heilbrigðri þróun markaða og skilvirkni atvinnulífs. Í samkeppnisrétti ber samkeppniseftirlitum því skylda til að taka afstöðu til markaðsskilgreininga í hverju máli fyrir sig.
Þessar meginreglur evrópsks samkeppnisréttar komu skýrt fram í breytingum á 15. gr. samkeppnislaga samkvæmt breytingarlögum nr. 103/2020. Með þeim lögum var horfið frá því að Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu frá ólögmætu samráði fyrirtækja og tekin upp sú regla sem tíðkast hafði í ESB-rétti frá árinu 2003, að fyrirtæki mætu sjálf og bæru ábyrgð á því hvort undantekningarskilyrði 15. gr. væru uppfyllt. Eftir breytinguna er Samkeppniseftirlitinu einungis ætlað að gefa almennar leiðbeiningar og fylgja síðan framkvæmd 15. gr. eftir með rannsóknum á hugsanlegum brotum ex-post.
Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 103/2020 sagði m.a. um þetta:
„Til þess að markmið um einföldun og skilvirkni náist verða fyrirtækin sjálf að bera fulla ábyrgð á umræddu mati. Þannig munu breytingarnar ekki skila sér í aukinni skilvirkni fyrir atvinnulífið ef leitað er eftir leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins í miklu mæli. Mikilvægt er að árétta að leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins skulu vera með almennum hætti og eftir breytinguna mun eftirlitið ekki geta veitt fyrirtækjum bindandi álit á því fyrir fram hvort tiltekin háttsemi uppfylli lögbundin skilyrði heldur mun Samkeppniseftirlitið hafa eftirlit með því þegar slíkt samstarf er komið til framkvæmda.“