Fundur um áhrif stjórnvalda á samkeppni: Beiting samkeppnismats á lög og reglur skilar um 20% verðlækkun á viðkomandi markaði
Samkeppniseftirlitið hélt í dag kynningarfund um áhrif stjórnvalda á samkeppni. Til fundarins var boðið stjórnendum ráðuneyta og stofnana, hagsmunasamtökum atvinnulífs o.fl. Frummælandi var Ania Thiemann, hagfræðingur hjá samkeppnisdeild OECD.
Á fundinum var fjallað um mikilvægi þess að meta kerfisbundið áhrif laga og reglna á samkeppni á mörkuðum. Slík mat getur átt sér stað fyrir fram, þ.e. við undirbúning nýrra laga eða reglna, eða eftir á, en þá eru áhrif gildandi laga og reglna á samkeppni metin.
OECD hefur mótað aðferðafræði við samkeppnismat (e. OECD Competition Assessment Toolkit). Hefur Samkeppniseftirlitið beint því til stjórnvalda að taka upp samkeppnismat af þessu tagi við undirbúning laga og reglna, sbr. álit nr. 2/2009, Samkeppnismat stjórnvalda. Ekki hefur enn verið orðið við þeim tilmælum.
Skilvirk leið til þess að einfalda regluverk
Hér er á ferðinni skilvirkasta leiðin til að einfalda lög og reglur og þar með draga úr reglubyrði. Á fundinum var sýnt fram á að þessi aðferðafræði hefur skilað umtalsverðum árangri. Nefna má sem dæmi að breytingar í framhaldi af samkeppnismati á lögum og reglum á fjórum mikilvægum sviðum atvinnulífsins í Grikklandi eru taldar skila ávinningi sem svarar til 2,5% af vergri landsframleiðslu þar í landi (2011).
Þá sýna rannsóknir sem OECD hefur tekið saman að endurskoðun laga og reglna á tilteknum markaði er líkleg til þess að skila um 20% lægra verði á vöru eða þjónustu en ella væri. Einnig hefur verið sýnt fram á að umfangsmikið átaksverkefni í Ástralíu í því skyni að draga úr reglubyrði og auka samkeppni leiddi til verulegrar framleiðniaukningar í áströlsku atvinnulífi. Á fundinum kom fram að í kjölfar þess átaks hafi framleiðni í Ástralíu verið viðvarandi vel yfir meðaltali aðildarríkja OECD. Ljóst er að slíkt átak hér á landi væri til þess fallið að auka hagsæld verulega.
Fundaröðin – Samtal um samkeppni
Fundurinn markar upphaf fundaraðar Samkeppniseftirlitsins með atvinnulífi, talsmönnum neytenda/launþega og stjórnvöldum um samkeppnismál. Fundunum er ætlað að vera umræðuvettvangur, þar sem fjallað er um hvað áunnist hafi og hver séu brýnustu viðfangsefnin framundan. Með þessu er Samkeppniseftirlitið að leggja við hlustir, þ.e. draga saman sjónarmið og upplýsingar sem að gagni geta komið við forgangsröðun verkefna og mótun áherslna. Um leið er eftirlitið að búa til vettvang til að koma sjónarmiðum og leiðbeiningum á framfæri með það að markmiði að koma í veg fyrir brot og draga úr samkeppnishindrunum.
Hér má nálgast glærur frá fundinum.