Helstu tegundir samráðsbrota
Ólöglegt samráð getur bæði falið í sér brot sem eru annars vegar lóðrétt, þ.e. samráð milli fyrirtækja á sitthvoru sölustiginu, t.d. á milli heildsölu eða smásala, og hins vegar lárétt en þá felst ólögmæta samráðið í samstarfi tveggja fyrirtækja á sama sölustigi, t.d. milli tveggja smásala.
Samráðsbrot geta m.a. komið fram í samningum, samþykktum og samstilltum aðgerðum. Ekki er gerð krafa um ákveðið form samninga milli aðila, þ.e. að þeir séu skriflegir eða undirritaðir, til þess að þeir uppfylli samningshugtakið í samkeppnislögunum. Er því túlkunin víðtæk og nær í flestum tilvikum til þess samstarfs sem vafi leikur á að falli undir samningshugtakið.
Með samstilltum aðgerðum er átt við að tvö eða fleiri fyrirtæki samræmi aðgerðir sínar án þess að eiginlegur samningur hafi verið gerður. Þó verður að telja skilyrði að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti.
Bannið um samráð nær til þeirra sem hafa þann tilgang að takmarka samkeppni. Er það því óháð því hvort það markmið náist eða ekki. Því er ekki gerð sú krafa að hið ólögmæta samstarf hafi í raun haft áhrif á samkeppnina.
Helstu tegundir samráðsbrota eru:
Verðsamráð: Varla er hægt að finna alvarlegri samkeppnishindranir en þegar fyrirtæki koma sér saman um aðgerðir sem hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör. Þess konar aðgerðir hafa þann tilgang að hafa hamlandi áhrif á samkeppni og verð.
Markaðsskipting: Hér falla undir aðgerðir fyrirtæka á sama sölustigi og um skiptingu markaða eftir svæðum, viðskiptavinum eða eftir sölu og magni. Sömuleiðis eiga hér undir lóðréttir samningar um markaðsskipti, t.d. milli framleiðenda og dreifingaraðila.
Takmörkun á framleiðslu/framboði: Þetta tekur til samstarfs sem takmarkar eða stýrir framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu. Það gæti falist í því að keppinautar koma sér saman um að takmarka framboð á vöru með það að markmiði að hækka verð hennar.
Samráð um gerð tilboða: Hér er átt við að keppinautar koma sé saman um að taka ekki þátt í tilteknu útboði, þeir ákveða að skila útboði með sömu verðum eða þeir ákveða sín á milli hver eigi að fá viðskiptin samkvæmt útboðinu. Þess háttar aðgerðir leiða alla jafna til verðhækkana sem að lokum bitna á neytendum.
Upplýsingaskipti milli keppinauta: Hegðun keppinauta er ein af meginforsendum þess að óheft samkeppni geti átt sér stað. Upplýsingar á milli keppinauta um hvernig þeir hyggjast hegða sér á markaði dregur úr óvissu fyrirtækjanna sem í hlut eiga.
Aðgerðir sem hindra aðgengi nýrra keppinauta inn á markað: Með þessu móti þurfa aðilar sem þegar eru á markaði ekki að bregðast við nýjum keppinautum. Það dregur úr samkeppni og kemur niður á neytendum.
Aðgerðir sem mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í samskonar viðskiptum: Mismunun getur leitt til þess að veikja samkeppnisstöðu. Dæmigert atvik af þessu tagi væri lóðréttir samkeppnishamlandi samningar um verð eða afslætti, sem mismuna kaupendum eða hópum þeirra. Meginregla er að afslættir sem byggjast á kostnaðarlegum forsendum hafa samkeppnishvetjandi áhrif. Hins vegar geta afslættir sem byggjast á huglægum og ómálefnalegum sjónarmiðum haft neikvæð áhrif á samkeppni milli fyrirtækja.
Skilyrði um viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninga: Þetta á fyrst og fremst við þegar fyrirtæki býr yfir eftirsóknarverðri vöru eða þjónustu sem það hyggst aðeins selja ef kaupandi kaupir jafnframt aðra vöru eða þjónustu af fyrirtækinu. Með þessu er hægt að neyða kaupanda til viðbótar viðskipta sem þeir ef til vill gætu fengið með hagkvæmari kjörum annars staðar.
Þær tegundir sem hér hafa verið taldar upp eiga það sameiginlegt að hafa það að meginmarkmiði að hækka verð á vöru og þjónustu neytendum til tjóns.