Samkeppni og hið opinbera


Algengar spurningar

Mega sveitarfélög eða aðrir opinberir aðilar starfa á samkeppnismarkaði?

Frá sjónarmiði samkeppnislaga er meginreglan sú að sveitarfélög eða aðrir opinberir aðilar geta starfað á samkeppnismarkaði, eða með öðrum orðum stundað rekstur í samkeppni við einkafyrirtæki á markaðnum. Þegar opinberir aðilar stunda slíkan samkeppnisrekstur á markaði eru hins vegar gerðar strangari kröfur til þeirra en almennt til einkafyrirtækja. Það helgast einkum af því að opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög og ríkisstofnanir, eru að jafnaði reknir af opinberu fé. Hinir opinberu aðilar fá t.d. tekjur samkvæmt fjárlögum eða eru með öðrum lögum markaðir sérstakir tekjustofnar. Af þeirri ástæðu og vegna annarra aðstæðna geta opinberir aðilar haft forskot í samkeppni á aðra keppinauta sem treysta þurfa á eigin fjármögnun og tekjuöflun til að standa straum af öllum rekstrarkostnaði.

Segja má að kröfurnar sem gerðar eru til opinberra aðila sem stunda rekstur sem er eða gæti verið í samkeppni við einkaaðila, samhliða því að inna af hendi opinbera þjónustu, séu áþekkar kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem hafa svonefnda markaðsráðandi stöðu.

Á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli samkeppnisrekstrar opinbers aðila og þess rekstrar sama aðila sem nýtur einkaleyfis eða verndar, t.d. í því formi að þiggja opinbert fé til starfseminnar. Þegar kveðið er á um fjárhagslegan aðskilnað í þessu samhengi er það gert í þeim tilgangi að opinbert fé sé ekki nýtt til að greiða niður samkeppnisrekstur.

Þá getur Samkeppniseftirlitið, á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga, gripið til annars konar íhlutunar en að framan greinir gegn háttsemi opinbers aðila sem hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Unnt er að banna slíka háttsemi ef hún á sér ekki stoð í sérstökum lögum sem um hana gilda. Samkeppniseftirlitið hefur í tímans rás gert athugasemdir við óheppilegan og samkeppnishamlandi samkeppnisrekstur opinberra aðila. Sem nýleg dæmi má nefna útleigu á húsnæði í eigu ríkisins fyrir hótelrekstur, rekstur líkamsræktarstöðva í tengslum við sundlaugarekstur og aðgang að malarnámi.

Einn vandi sem kemur upp þegar t.d. sveitarfélag hefur hafið rekstur á sviði sem enginn annar hefur gert á viðkomandi svæði felst í því að erfiðara verður en áður fyrir einkaaðila að hefja rekstur á sama sviði. Hinn opinberi rekstur getur þannig hindrað aðgang einkaaðila inn á markaðinn.



Tengdar ákvarðanir

Tengdar ákvarðanir

Byggingaþjónusta

Fjarskipti, upplýsingatækni og fjölmiðlun

  •  

Fjármálaþjónusta

Neysluvörur, rekstrarvörur og fleira

Orkumál

  •  

Samgöngu- og ferðamál

  •  

Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta

  •  

Umhverfismál

Mennta og menningarmál

  •