Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Yfirtaka Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.)

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 2/2011
  • Dagsetning: 16/3/2011
  • Fyrirtæki:
    • Fjölgreiðslumiðlun hf.
  • Atvinnuvegir:
    • Fjármálaþjónusta
    • Greiðslukortastarfsemi
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag heimilað yfirtöku Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.) Eru yfirtökunni þó sett ýmis skilyrði. Fjölgreiðslumiðlun var áður í eigu flestra viðskiptabanka og sparisjóða landsins auk Valitors hf., Borgunar hf. og Seðlabanka Íslands. Kaup Seðlabanka Íslands á öllu hlutafé fyrri meðeigenda fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. Eftir breytingar heitir félagið Greiðsluveitan hf.

    Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirtakan muni í aðalatriðum hafa jákvæð samkeppnisleg áhrif á markaði fyrir greiðslumiðlun og greiðslujöfnun á Íslandi, en Greiðsluveitan mun m.a. reka kerfi sem annast jöfnun greiðslufyrirmæla og rafræna greiðslurás fyrir notkun greiðslukorta á Íslandi (RÁS-kerfið). Jafnframt mun Greiðsluveitan reka ýmsa mikilvæga starfsemi á þessu sviði.

    Fyrir liggur að þessi starfsemi er mjög mikilvæg og nauðsynleg fyrir almenna fjármálastarfsemi og verður því að tryggja að allir rekstraraðilar, bæði núverandi og nýir, geti tengst þessum kerfum og notið þjónustu þeirra. Verður sá aðgangur að vera gagnsær og að öllu leyti á grundvelli jafnræðis og málefnalegra forsendna og skilyrða.

    Með hliðsjón af stöðu Greiðsluveitunnar á skilgreindum mörkuðum þessa máls og allra aðstæðna þeim tengdum hér á landi telur Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að setja samrunanum ýmis skilyrði sem varða starfsemi og rekstur félagsins og grípa til íhlutunar á grundvelli samkeppnislaga. Viðræður við samrunaaðila hafa leitt til sáttar um skilyrði í málinu. Telur Samkeppniseftirlitið að skilyrðin leysi hin samkeppnislegu vandamál sem stafa af samrunanum. Hafa samrunaaðilar fallist á að hlíta þeim.