Samkeppniseftirlitið heimilar yfirtöku Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.) með skilyrðum
Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag nr. 2/2011 heimilað yfirtöku Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.) Eru yfirtökunni þó sett ýmis skilyrði. Fjölgreiðslumiðlun var áður í eigu flestra viðskiptabanka og sparisjóða landsins auk Valitors hf., Borgunar hf. og Seðlabanka Íslands. Kaup Seðlabanka Íslands á öllu hlutafé fyrri meðeigenda fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. Eftir breytingar heitir félagið Greiðsluveitan hf.
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirtakan muni í aðalatriðum hafa jákvæð samkeppnisleg áhrif á markaði fyrir greiðslumiðlun og greiðslujöfnun á Íslandi, en Greiðsluveitan mun m.a. reka kerfi sem annast jöfnun greiðslufyrirmæla og rafræna greiðslurás fyrir notkun greiðslukorta á Íslandi (RÁS-kerfið). Jafnframt mun Greiðsluveitan reka ýmsa mikilvæga starfsemi á þessu sviði.
Fyrir liggur að þessi starfsemi er mjög mikilvæg og nauðsynleg fyrir almenna fjármálastarfsemi og verður því að tryggja að allir rekstraraðilar, bæði núverandi og nýir, geti tengst þessum kerfum og notið þjónustu þeirra. Verður sá aðgangur að vera gagnsær og að öllu leyti á grundvelli jafnræðis og málefnalegra forsendna og skilyrða.
Með hliðsjón af stöðu Greiðsluveitunnar á skilgreindum mörkuðum þessa máls og allra aðstæðna þeim tengdum hér á landi telur Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt að setja samrunanum ýmis skilyrði sem varða starfsemi og rekstur félagsins og grípa til íhlutunar á grundvelli samkeppnislaga. Viðræður við samrunaaðila hafa leitt til sáttar um skilyrði í málinu. Telur Samkeppniseftirlitið að skilyrðin leysi hin samkeppnislegu vandamál sem stafa af samrunanum. Hafa samrunaaðilar fallist á að hlíta þeim.
Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi:
- Greiðsluveitan skal rekin á sjálfstæðum viðskiptalegum forsendum að því er varðar þá þætti starfseminnar sem eru á samkeppnismarkaði og skal Seðlabanki Íslands gæta þess að samkeppnisrekstur hennar sé ótengdur öðrum lögbundnum verkefnum bankans. Samkeppnisrekstur Greiðslu-veitunnar er sú starfsemi sem felst í rekstri á RÁS-kerfi félagsins. Seðlabanki Íslands skal birta opinberlega stefnu sína sem eigandi Greiðsluveitunnar. Stjórnarmenn í Greiðsluveitunni skulu vera óháðir viðskiptavinum fyrirtækisins.
- Greiðsluveitunni er skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim aðilum sem óska eftir tengingu við kerfi Greiðsluveitunnar og þjónustu félagsins og má ekki mismuna aðilum í þeim viðskiptum nema málefnalegar ástæður liggi því til grundvallar.
- Greiðsluveitan skal fyrir 1. apríl nk. birta opinberlega viðskiptaskilmála sína. Greiðsluveitan skal tilkynna Samkeppniseftirlitinu um allar breytingar á viðskiptaskilmálunum eigi síðar en tveimur vikum áður en þeim er ætlað að taka gildi.
- Greiðsluveitunni er óheimilt að skuldbinda Borgun eða Valitor í viðskipti við RÁS-kerfi félagsins á árunum 2012 og 2013 sem eru umfram tiltekið hlutfall af færslumagni hvors félags á árinu 2010.
- Greiðsluveitan skal hafa forgöngu um að nauðsynleg staðlagerð sem tengist RÁS-kerfinu og notkun greiðslukorta fari fram á opnum vettvangi þar sem tryggt er að allir hagsmunaaðilar sem tengjast notkun greiðslukorta hér á landi hafi óhindraðan aðgang að því starfi á málefnalegum forsendum.
- Greiðsluveitan skal fyrir 1. júní 2011 gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir með hvaða hætti staðið verður að varðveislu og umsjón með marghliða samningum, reglum og fyrirmælum um einstaka greiðslumiðla banka og sparisjóða.
Brot á þessum skilyrðum varða stjórnvaldssektum skv. IX. kafla samkeppnislaga.
Nánar er fjallað um framangreind skilyrði og forsendur þeirra í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2011.
Bakgrunnsupplýsingar:
Til þessa hefur Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitan) verið í eigu nánast allra viðskiptabanka og sparisjóða landsins sem eru keppinautar um fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Einnig eru tvö greiðslukortafyrirtæki eigendur að félaginu en þau eru í innbyrðis samkeppni í útgáfu greiðslukorta og í færsluhirðingu vegna notkunar þeirra hjá söluaðilum. Auk þess eru eigendurnir nánast einu viðskiptavinir félagsins.
Það er óumdeilt að þetta fyrirkomulag á eignarhaldi Fjölgreiðslumiðlunar hefur ekki gefist vel. Má í því sambandi vísa til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008, Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga. Í því máli var viðurkennt að Fjölgreiðslumiðlun, ásamt greiðslukortafélögunum tveimur sem eru eigendur að félaginu, hafði um árabil unnið með alvarlegum hætti gegn innkomu nýs aðila á færsluhirðingarmarkað hér á landi. Einnig var Fjölgreiðslumiðlun aðili að viðamiklu samráði, með þessum sömu eigendum, um margvíslega starfsemi sem tengist notkun greiðslukorta hér á landi yfir langt árabil. Þá var upplýst að félagið var vettvangur umræðna, ákvarðana og miðlunar upplýsinga um innri málefni eigenda þess. Innan stjórnar félagsins, sem lengstum var skipuð fulltrúum allra eigenda, voru umræður og ákvarðanir teknar sem vörðuðu innri málefni banka- og greiðslukortastarfsemi á Íslandi.
Auk þess að greiða sekt fyrir þátttöku í umræddum brotum samþykkti Greiðsluveitan hf. að undirgangast tiltekin skilyrði í starfsemi sinni. Eitt af þeim skilyrðum var að félaginu bæri að sækja um undanþágu frá banni 10. gr. samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta vegna samstarfs sem aðildarfyrirtæki þess teldu nauðsynlegt að fram fari á vegum félagsins. Hefur umrædd undanþágubeiðni verið til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Um meðferð þess máls var m.a. fjallað í umræðuskjali nr. 3/2009, Greiðslumiðlun á Íslandi og verkefni Fjölgreiðslumiðlunar, sbr. einnig fréttatilkynningu á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins frá 22. júní 2009.
Í framhaldinu ákvað Samkeppniseftirlitið að óska eftir mati frá hlutlausum sérfræðingum, á röksemdum og sjónarmiðum Fjölgreiðslumiðlunar og umsögnum aðila með hliðsjón af tæknilegum og kerfislegum þáttum, sem tengjast ákveðnum þáttum í starfsemi félagsins.
Samkeppniseftirlitinu barst síðan samrunatilkynning, dags. 18. nóvember 2010, sem fellst í yfirtöku Seðlabanka Íslands á Greiðsluveitunni hf. Framangreind rannsókn á undanþágubeiðninni og gögn sem aflað var í henni liggja til grundvallar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í dag. Í yfirtöku Seðlabankans felst hins vegar að Greiðsluveitan hf. er ekki lengur í eigu keppinauta. Af þeim sökum er ekki lengur ástæða til að taka afstöðu til framangreindrar undanþágubeiðni.