Fréttatilkynning: Samkeppniseftirlitið leitar eftir sjónarmiðum vegna athugunar á samkeppnisaðstæðum tengdum greiðslumiðlun á Íslandi
Samkeppniseftirlitið hefur birt á heimasíðu sinni umræðuskjal um greiðslumiðlun á Íslandi og verkefni Fjölgreiðslumiðlunar (FGM). Skjalið er liður í athugun Samkeppniseftirlitsins á beiðni FGM um undanþágu frá banni við samráði. Í ljósi þess hve samofinn rekstur og starfsemi FGM er rekstri og starfsemi Reiknistofu bankanna (RB) fjallar skjalið einnig um starfsemi hennar. Leitar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum og athugasemdum við umræðuskjalið.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að standa vörð um virka samkeppni á fjármálamarkaði en þar er greiðslumiðlun ein af grunnstoðunum. Við ríkjandi aðstæður er sérstaklega mikilvægt að efla samkeppni á mikilvægum samkeppnismörkuðum til þess að flýta uppbyggingu atvinnulífs. [Sjá nánar skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2009, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi]
Í umræðuskjalinu er fjallað ítarlega um framangreinda starfsemi og leitað svara við fjöldamörgum spurningum sem varða samkeppnisaðstæður á fjármálamarkaði. Á meðal þeirra er spurt um eftirfarandi atriði:
- Er núverandi eignarhald og skipulag FGM eðlilegt, er æskilegt að það sé með öðrum hætti og þá hvernig?
- Hvað mælir með því og hvað mælir gegn því að FGM þrói og reki færsluvísunarkerfi, XPS kerfið, fyrir færsluhirðana Valitor og Borgun?
- Er mögulegt að núverandi fyrirkomulag og framkvæmd öryggisstaðla á vegum FGM geti verið eða sé samkeppnishamlandi í færsluhirðingu hér á landi eða í einstaka þáttum þeirrar starfsemi?
- Er líklegt/hugsanlegt að núverandi fyrirkomulag og framkvæmd við örgjörvavæðingu hjá söluaðilum geti verið eða sé samkeppnishamlandi í færsluhirðingu eða í einstaka þáttum þeirrar starfsemi?
- Að hvaða marki eru til staðar hindranir í aðgengi að greiðslujöfnuninni sem mögulega felast í lagalegum hindrunum, tæknilegum hindrunum, verðlagningu eða öðrum þáttum?
- Er núverandi rekstrarform RB, sem félagasamtök, heppilegt? Hvað mælir með því og hvað gegn því?
- Hindrar núverandi fyrirkomulag í rekstri RB innkomu nýrra aðila á íslenskan fjármálamarkað? Ef svo er með hvað hætti er hægt að koma í veg fyrir slíkt?
Samkeppniseftirlitið hefur þegar sent umræðuskjalið til margra hagsmunaaðila og aðila sem hafa þekkingu á greiðslumiðlun. Eftirlitið gefur nú öllum tækifæri til að koma sjónarmiðum að vegna málsins. Það má gera með því að senda eftirlitinu erindi, eða senda tölvupóst á póstfangið samkeppni@samkeppni.is, merkt „Samkeppnisaðstæður í greiðslumiðlun“.
Sjá umræðuskjalið.
Bakgrunnsupplýsingar:
Á árinu 2008 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun sem varðar alvarlegar samkeppnishömlur á greiðslukortamarkaðnum og í tengdri starfsemi (ákvörðun nr. 4/2008 Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga). Fjölgreiðslumiðlun hf. (FGM) sem að hluta til var aðili að umræddum hömlum hefur óskað eftir því við Samkeppniseftirlitið að fá undanþágu fyrir starfsemi félagsins að því marki sem starfsemin kunni að fara gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði. Óskað er undanþágu frá bannákvæðinu m.a. á þeirri forsendu að samstarf það sem FGM vill eiga og kann að trufla samkeppni sé til hagsbóta fyrir neytendur.
Fjölgreiðslumiðlun hf. (FGM) annast rekstur og þróun greiðslumiðlunarkerfis (JK kerfi) fyrir íslenska banka og sparisjóði og sameiginlegrar rafrænnar greiðslurásar (RÁS-þjónusta) fyrir greiðslukortaviðskipti á Íslandi. Einnig hefur félagið umsjón með stöðlum og öryggismálum tengt útgáfu og notkun greiðslukorta og umsjón með ýmsum samningum og reglum sem þróaðir hafa verið í samvinnu fyrirtækja á íslenskum fjármálamarkaði. FGM er í eigu allra viðskiptabanka á Íslandi, nema MP banka, sparisjóða, kortafélaganna Valitors hf. og Borgunar hf., og Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið veitt undanþágu frá umræddu banni ef kostir tiltekinnar samvinnu eru taldir vega meira en ókostirnir. Vinnur eftirlitið að því að meta hvort veita eigi FGM umbeðna undanþágu. Brýnt er að eftirlitið komist að niðurstöðu sem heppileg er almannahagsmunum enda snertir starfsemi FGM mikilvæga markaði bankastarfsemi og greiðslumiðlunar.
Í því skyni að rannsaka beiðni FGM um undanþágu frá bannákvæði samkeppnislaga og með það fyrir augum að kanna sem best sjónarmið þeirra sem málið varðar hefur Samkeppniseftirlitið tekið saman umræðuskjal um helstu þætti þeirrar starfsemi sem um er að ræða. Hefur Samkeppniseftirlitið óskað eftir sjónarmiðum frá hagsmunaaðilum á þeim mörkuðum sem tengjast almennri viðskiptabankastarfsemi, útgáfu greiðslukorta, færsluhirðingu, ráðgjöf og staðlagerð og til aðila sem taka við greiðslum í formi greiðslukorta s.s. verslunum og öðrum seljendum vöru og þjónustu. Er óskað eftir sjónarmiðum um einstaka þætti í starfsemi FGM sem undanþágubeiðni félagsins tekur til eins og þeim er lýst í skjalinu. Er skjal þetta liður í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins vegna umræddrar undanþágubeiðni. Umræðuskjalinu er ætlað að stuðla að því að niðurstaða eftirlitsins í málinu hafi jákvæð áhrif á samkeppni.