Ákvarðanir
Samruni Stjörnugríss hf. við Rekstrarfélagið Braut ehf. og LS2 ehf.
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 3/2011
- Dagsetning: 3/2/2011
-
Fyrirtæki:
Engin fyrirtæki finnast
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Landbúnaður
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar samruna sem felst í kaupum Stjörnugríss hf. á eignum dótturfélaga Arion banka, þ.e. Rekstrarfélagsins Brautar ehf. og LS2 ehf. Þau fyrirtæki hafa haft með höndum rekstur svínabúa og rak Braut svínabú á Brautarholti á Kjalarnesi, en LS2 fór með rekstur svínabúa á Hýrumel og á Stafholtsveggjum í Borgarfirði sem áður tilheyrðu fyrirtækinu Grísagarði. Þessi svínabú höfðu komist í eigu Arion banka eftir að fyrirtækin sem ráku þau urðu gjaldþrota. Þessar eignir voru seldar Stjörnugríss eftir að bankinn hafði leitað tilboða í þær.
Samkeppniseftirlitið hefur nú lokið umfjöllun sinni um samrunann eftir ítarlega rannsókn. Í ákvörðun eftirlitsins, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að kaup Stjörnugríss á svínabúunum myndi markaðsráðandi stöðu félagsins í svínarækt og styrki markaðsráðandi stöðu félagsins á markaðnum fyrir slátrun á svínum. Þetta, ásamt styrkri stöðu samstæðunnar á eggjamarkaði, styrkir einnig stöðu hennar gagnvart fóðurseljendum, kjötvinnslum og dagvöruverslunum.
Undir rekstri málsins var því haldið fram af samrunaaðilum að heimila yrði samrunann vegna reglna samkeppnisréttarins um fyrirtæki á fallandi fæti (e. failing firm defence). Viðurkennt er að slík aðstaða fyrirtækis geti leitt til þess að heimila beri samruna. Ástæðan er sú að í slíkum tilvikum stafa samkeppnis-hömlurnar ekki af samrunanum sem slíkum heldur af erfiðri stöðu hins yfirtekna fyrirtækis.
Samkeppniseftirlitið hefur metið stöðu umræddra svínabúa og aðstæður í svínarækt en verulegir erfiðleikar hafa verið í þeirri grein. Jafnframt var söluferli Arion banka rannsakað og metið hvort raunhæfur möguleiki væri á sölu svínabúanna til annarra aðila en Stjörnugríss. Auk þess sem leitast var við að meta hver samkeppnisleg áhrif málsins yrðu, annars vegar ef samruninn gengi eftir og hins vegar ef hann gengi ekki eftir. Að mati Samkeppniseftirlitsins er ljóst að kaup Stjörnugríss á svínabúunum skapar umtalsverðar samkeppnishömlur. Með vísan til framkominna gagna og upplýsinga er það hins vegar mat Samkeppniseftirlitsins að sú breyting á markaðnum sem felst í samrunanum sé óhjákvæmileg miðað við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Því er ekki unnt samkvæmt samkeppnislögum að ógilda samrunann.
Framangreind rannsókn Samkeppniseftirlitsins sýnir að markaðurinn fyrir svínarækt og aðrir tengdir markaðir eru mjög viðkvæmir í samkeppnislegu tilliti og með samrunanum hefur Stjörnugrís náð mjög sterkri stöðu. Eftirlitið hyggst sökum þessa nýta sér ákvæði samkeppnislaga sem leyfir reglubundna vöktun á tilteknum mörkuðum. Samkvæmt því er unnt að skylda markaðsráðandi fyrirtæki til að tilkynna fyrirfram um allar mikilvægar breytingar á háttsemi þess á markaði, t.d. breytingar á viðskiptaskilmálum eða afsláttum. Er tilgangur þessa úrræðis m.a. að vinna gegn því að markaðsráðandi fyrirtæki valdi keppinautum eða viðskiptavinum samkeppnislegu tjóni.