Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samruni Brims hf., Fiskvinnslunnar Kambs hf. og Grábrókar ehf.

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 19/2020
  • Dagsetning: 6/5/2020
  • Fyrirtæki:
    • Fiskvinnslan Kambur hf
    • Brim hf.
    • Grábrók ehf
  • Atvinnuvegir:
    • Sjávarútvegur og fiskvinnsla
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Með ákvörðun þessari er tekin afstaða til samruna Brims hf. (áður HB Granda hf.), Fiskvinnslunnar Kambs hf. og Grábrókar ehf. en félögin starfa á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.

    Við meðferð málsins kom í ljós að tiltekin viðskipti Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila höfðu átt sér stað á árinu 2019 með eignarhluti í Brimi, sem að mati Samkeppniseftirlitsins voru til þess fallin að hafa áhrif á mat á yfirráðum í félaginu í skilningi samkeppnislaga. Enga umfjöllun um þessi viðskipti var að finna í samrunaskrá vegna kaupa Brims á Kambi og Grábrók og taldi eftirlitið því vafa um það hvort tilkynning vegna samrunans gæti talist fullnægjandi í skilningi 17. gr. samkeppnislaga og reglna nr. 684/2008. Þar sem mat á yfirráðum í Brim var talin forsenda þess að unnt væri að taka efnislega afstöðu til samrunans var þessi þáttur málsins tekinn til nánari skoðunar.

    Við meðferð málsins taldi Samkeppniseftirlitið þannig óhjákvæmilegt að taka til skoðunar hvort stofnast hefði til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi, en niðurstaða þess gat haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Við meðferð málsins lýsti eftirlitið því frummati gagnvart samrunaaðilum að slík yfirráð væru til staðar. Mótmæltu samrunaaðilar því frummati.

    Að undangenginni framangreindri rannsókn, taldi Samkeppniseftirlitið forsendur til þess að taka efnislega afstöðu til hins tilkynnta samruna án þess að endanleg niðurstaða um yfirráð Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi lægju fyrir. Þannig tók Samkeppniseftirlitið til skoðunar hvort hin mögulegu yfirráð yfir Brimi eða önnur atriði samrunans, leiddu af sér samkeppnishindranir í þessu tiltekna samrunamáli. Með ákvörðun þessari er komist að þeirri niðurstöðu að samruninn hindri ekki virka samkeppni, jafnvel þótt möguleg yfirráð Útgerðarfélags Reykjavíkur og tengdra aðila í Brimi séu lögð til grundvallar.

    Í ákvörðuninni er jafnframt boðað að tekin verði nánari ákvörðun um tilvist fyrrgreindra yfirráða í sjálfstæðu stjórnsýslumáli, þar sem frekari gagna og sjónarmiða verður aflað frá aðilum málsins. Í því máli verður tekin afstaða til þess hvort að við mögulega myndun yfirráða í Brimi hafi verið framkvæmdur samruni af hálfu aðila í andstöðu við 3. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga.