Vegna umfjöllunar forstjóra Brims um athuganir Samkeppniseftirlitsins vegna samruna og yfirráða
Í fjölmiðum hefur verið greint frá gagnrýni forstjóra Brims í garð Samkeppniseftirlitsins sem fram kom í ávarpi hans sem birt er í ársskýrslu félagsins. Þar er gagnrýnt að Samkeppniseftirlitið hafi haft afskipti af sameiningum fyrirtækja í sjávarútvegi síðastliðin 15 ár þrátt fyrir að lög um stjórn fiskveiða, sem takmarka hámarkseign hvers fyrirtækis á aflaheimildum, gangi mun lengra en samkeppnislög varðandi sameiningu eða samruna fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá segir í ávarpinu að miklar tafir hafi verið á samþykki eftirlitsins vegna kaupa Brims á sjávarútvegsfyrirtækjunum Kambi og Grábrók „og afleiðing þessara tafa varð tjón fyrir öll félögin og starfsfólk þess“. Hafi þessar tafir verið ástæðulausar.
Af þessu tilefni og í þágu upplýstrar umræðu um samkeppnismál er rétt að upplýsa um athuganir Samkeppniseftirlitsins á samrunum eða mögulegum yfirráðum í fyrirtækjum sem varða Brim eða tengd fyrirtæki. Ljóst er að athuganirnar hafa flestar verið frumkvæði Brims og tengdra félaga (samrunamál). Þá hafa ekki orðið óeðlilegar tafir við meðferð þeirra.
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að tilgangur samrunareglna samkeppnislaga er m.a. að vinna gegn skaðlegri samþjöppun á mörkuðum, sem skaðað getur hagsmuni viðskiptavina, keppinauta og almennings. Þannig getur samkeppni t.d. skaðast með því að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist. Sjávarútvegsfyrirtæki starfa á fjölþættum mörkuðum, þ.m.t. mörkuðum fyrir viðskipti með aflaheimildir, tilteknar tegundir veiða, vinnslu sjávarafla, fiskmarkaði, útflutningi afurða o.s.frv. Samþjöppun á ýmsum þessara markaða getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning og efnahagslífið.
Þá ber Samkeppniseftirlitinu einnig lögum samkvæmt að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja, sbr. nánar d-lið 8. gr. samkeppnislaga.
Eftirfarandi eru mál sem varðað hafa samruna eða yfirráð tengt Brimi á síðustu fjórum árum:
1. Athugun á hvort tilkynningarskyldur samruna hafi átt sér stað þegar Brim (nú ÚR) keypti hlut í HB Granda (nú Brim)
Upphaf athugunar á mögulegum yfirráðum var 6. júlí 2018 og lok hennar 12. desember 2018.
Samkvæmt 17. gr. a samkeppnislaga ber að tilkynna um samruna sem á sér stað vegna breytinga á yfirráðum. Sjávarútvegsfyrirtæki eru ekki undanskilin samkeppnislögum, hvorki að þessu leyti né öðru. Til skoðunar var hvort til slíkrar tilkynningaskyldu hefði stofnast.
Niðurstaða Samkeppnieftirlitsins var sú að ekki væri hægt að slá því föstu, gegn eindreginni neitun félaganna, að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði öðlast yfirráð í Brimi. Tekið var fram að málið yrði hugsanlega tekið upp að nýju ef frekari vísbendingar kæmu fram sem bentu til yfirráða.
2. Athugun á kaupum HB Granda hf. á Ögurvík
Samrunaaðilar tilkynntu um kaupin þann 6. nóvember 2018. Ákvörðun nr. 30/2018 lá fyrir þann 22. nóvember 2018. Samruninn var samþykktur án athugasemda á I. fasa (innan 25 virkra daga).
3. Athugun á kaupum Brims hf. á Seafood Services
Þann 20. ágúst 2019 upplýstu samrunaaðilar Samkeppniseftirlitið um kaup á Seafood Services sem voru þó að þeirra mati ekki tilkynningarskyld. Samkeppniseftirlitið ákvað að nýta ekki heimild sína til þess að kalla eftir samrunatilkynningu vegna málsins. Málinu lauk innan við 15 virkum dögum.
4. Athugun á kaupum Brims hf. á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf.
Samrunaaðilar tilkynntu um kaupin þann 16. desember 2018. Ákvörðun nr. 19/2020 lá fyrir þann 6. maí 2019, innan lögbundinna tímafresta (II. fasi) og var samruninn samþykktur án athugasemda. Þess ber að geta að samrunatilkynning samrunaaðila var í upphafi metin ófullnægjandi. Engin haldbær rök eru því fyrir fullyrðingum forstjórans um óeðlilegar tafir við meðferð málsins af hálfu Samkeppniseftirlitsins.
Í málinu var tekið til skoðunar og færð rök fyrir því að Útgerðarfélag Reykjavíkur og tengdir aðilar færu með yfirráð í Brimi Þannig hafði Samkeppniseftirlitið tekið til athugunar hvort að til grundvallar samrunanum lægju víðtækari yfirráð en tilkynnt hefðu verið. Samrunaaðilar mótmæltu því frummati eftirlitsins.
Við rannsóknina tók Samkeppniseftirlitið til skoðunar hvort kaup Brims á Kambi og Grábrók hefðu skaðleg áhrif á samkeppni ef hin víðtækari yfirráð yfir Brimi væru lögð til grundvallar. Niðurstaðan var að svo væri ekki og var samruninn samþykktur án athugasemda.
Hins vegar var boðað að tekið yrði til frekari athugunar, í öðru máli, í ljósi breyttra aðstæðna og nýrra upplýsinga hvort stofnast hafi til yfirráða í Brimi, sem tilkynna hefði átt lögum samkvæmt (sjá næsta lið).
5. Athugun á stofnun yfirráða í Brimi hf.
Þann 10. júlí 2020 var hafin athugun á því hvort stofnast hafi til sameiginlegra yfirráða í Brimi og hvort brotið hafi verið gegn tilkynningaskyldu og banni við að samruni komi til framkvæmda. Til rannsóknar er m.a. hvort við mat á yfirráðum í Brimi beri að horfa til eignarhlutar KG Fiskverkunar í Brimi, en félagið er í eigu bróður forstjóra Brims sem jafnframt er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Rannsókninni er ekki lokið. Á þessu stigi er ekki hægt að upplýsa um hvenær henni líkur, en álag vegna annarra verkefna getur haft áhrif á það.
Niðurlag
Fjallað var nánar um þýðingu samrunaeftirlits í sjávarútvegi og yfirráð í Brimi í frétt á heimasíðu eftirlitsins þann 8. maí 2020, sjá nánar hér.
Þá hefur Samkeppniseftirlitið nýlega fjallað um yfirráð í sjávarútvegi, sbr. nánar hér.