25.2.2021

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna dótturfélags Síldarvinnslunnar hf. og Bergs ehf

Stjórnunar- og eignatengsl og möguleg yfirráð 

Með ákvörðun nr. 2/2021 hefur Samkeppniseftirlitið tekið afstöðu til samruna Bergs-Hugins ehf., dótturfélags Síldarvinnslunnar hf., og Bergs ehf. Um er að ræða sjávarútvegsfyrirtæki sem bæði starfa við botnfiskveiðar og hafa gert út frá Vestmannaeyjum með samanlagt þremur togurum.

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að kaup Síldarvinnslunnar á Bergi leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Er þar m.a. horft til þess að hlutdeild Bergs í heildarúthlutun kvóta er óveruleg og ekki hafa komið fram upplýsingar í málinu sem benda til þess að hið keypta félag hafi að öðru leyti umtalsvert samkeppnislegt vægi eins og þetta mál er vaxið. 

Í tilefni af rannsókninni aflaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga og sjónarmiða um stjórnunar-, eignar- og viðskiptatengsl samstæðu Síldarvinnslunnar við Samherja hf. og Gjögur hf., en stjórnunar- og eignatengsl af þessu tagi hafa þýðingu fyrir úrlausn samrunamála.

Af hálfu samrunaaðila er byggt á því að Síldarvinnslan muni við kaupin fara ein með yfirráð fyrir Bergi, en í þeirri afstöðu felst að samrunaaðilar telja að ekki hafi stofnast til yfirráða stórra eigenda Síldarvinnslunnar yfir fyrirtækinu, sem tilkynna beri Samkeppniseftirlitinu. Er þessi afstaða í samræmi við afstöðu samrunaaðila við fyrri rannsókn á samruna Síldarvinnslunnar og Bergs-Hugins, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 10/2013.

Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að framangreind fyrirtæki eiga umtalsverðan eignarhlut í Síldarvinnslunni en Samherji og tengdir aðilar eiga rúmlega 48% og eigendur Gjögurs rúmlega 34% hlut. Eru þrír af fimm stjórnarmönnum Síldarvinnslunnar skipaðir af eða tengdir þessum aðilum. Ennfremur hafa samrunaaðilar gert grein fyrir áframhaldandi og viðvarandi viðskiptasambandi við Síldarvinnsluna, Samherja og Gjögur. Til viðbótar framangreindu eru vísbendingar um þétt stjórnunar- og eignatengsl milli Samherja, Gjögurs og Síldarvinnslunnar sem nánar eru rakin í ákvörðuninni. Þetta ásamt fleiru gefur til kynna veruleg tengsl á milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni.

Virt saman fela framangreindar upplýsingar í sér vísbendingar um að stofnast hafi til yfirráða í Síldarvinnslunni umfram það sem samrunaaðilar hafa gert grein fyrir í samrunatilkynningu.

Í máli þessu er hins vegar ekki tekin endanleg afstaða til mögulegra yfirráða samkvæmt framangreindu. Kemur þar tvennt til: Í fyrsta lagi leiðir rannsókn á kaupum Síldarvinnslunnar og Bergs í ljós að ekki eru forsendur til íhlutunar í samrunann, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, þótt komist væri að niðurstöðu um hin mögulegu víðtækari yfirráð. Í öðru lagi myndi endanleg úrlausn framangreindra yfirráða kalla á víðtækari gagnaöflun og rannsókn sem taka myndi til fleiri aðila. Ekki eru tök á því í þessu samrunamáli.

Samkeppniseftirlitið mun á síðari stigum taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti beri að rannsaka nánar möguleg yfirráð og eftir atvikum samstarf hlutaðeigandi fyrirtækja. Í slíkri rannsókn fælist eftir atvikum athugun á því hvort tilkynna hefði átt, mögulega á fyrri stigum, um víðtækari samruna hlutaðeigandi fyrirtækja og hvort samrunatilkynning þessa máls hafi haft að geyma réttar upplýsingar.

Áður en ákvörðun verður tekin um þetta mun Samkeppniseftirlitið óska frekari upplýsinga og sjónarmiða, m.a. frá viðkomandi aðilum og öðrum stjórnvöldum á þessu sviði.