Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Samkeppnishömlur í tengslum við forverðmerkingar á kjötvörum

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 33/2010
  • Dagsetning: 14/12/2010
  • Fyrirtæki:
    • Hagar
    • Reykjagarður hf.
    • Sláturfélag Suðurlands
    • kjötafurðarstöð Kaupfélags Skagfirðinga
    • Norðlenska
    • Kjarnafæði hf.
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Matvörur
  • Málefni:
    • Ólögmætt samráð
    • Markaðsyfirráð
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið birtir í dag ákvörðun (nr. 33/2010), þar sem greint er frá brotum, annars vegar verslana Bónuss í eigu Haga, og hins vegar sex kjötvinnslufyrirtækja, gegn 10. gr. samkeppnislaga með samkeppnishamlandi samvinnu um verð. Þetta gerðu fyrirtækin með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar hafa verðmerkt fyrir Haga (svokölluð forverðmerking).

    Lyktir málsins – sektir:
    Eftir að fyrirtækjunum var kynnt frumniðurstaða Samkeppniseftirlitsins í málinu sneru þau sér hvert í sínu lagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við eftirfarandi fyrirtæki. Í þeim felst m.a. að fyrirtækin viðurkenna brot á 10. gr. samkeppnislaga og greiða sekt vegna þeirra:

    • 27. september sl. var gerð sátt við Haga. Greiða Hagar 270 m.kr. í stjórnvaldssekt.
    • 1. október var gerð sátt við Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarð en þessi fyrirtæki eru hluti af sömu fyrirtækjasamstæðu. Greiða þau 45 m.kr. samtals í stjórnvaldssekt.
    • 1. október var gerð sátt við Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Greiðir félagið 40 m.kr. í stjórnvaldssekt.
    • 6. október var gerð sátt við Norðlenska og greiðir fyrirtækið 30 m.kr. í stjórnvaldssekt.
    • 8. október var gerð sátt við Kjarnafæði og greiðir fyrirtækið 20 m.kr. í stjórnvaldssekt.
    • 12. nóvember sl. var gerð sátt vegna Kjötbankans. Í henni voru viðurkennd brot fyrirtækisins. Forsendur voru hins vegar ekki til álagningar sekta m.a. vegna gjaldþrots Kjötbankans.

    • Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þáttur þessara fyrirtækja er því enn til rannsóknar. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, tekur aðeins til þeirra fyrirtækja sem gert hafa sátt við eftirlitið.