Ákvarðanir
Kvörtun Frostfisks ehf. yfir viðskiptaháttum fiskmarkaða
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 27/2008
- Dagsetning: 23/4/2008
-
Fyrirtæki:
- Frostfiskur ehf.
- Fiskmarkaður Íslands hf.
- Fiskmarkaður Suðurnesja hf.
- Fiskamarkaður Vestmannaeyja hf
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
-
Málefni:
- Markaðsyfirráð
-
Reifun
Fiskmarkaður Íslands hf. og Reiknistofa fiskmarkaða hf. , áður Íslandsmarkaður hf., misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína og brutu þannig gegn 11. gr. samkeppnislaga – Fiskmarkaði Íslands hf. er gert að greiða 10 milljóna króna stjórnvaldssekt.
Í ákvörðun sinni í dag kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Fiskmarkaður Íslands hf. (FÍ) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með þeirri háttsemi sinni að tvinna saman kaup á fiski og slægingu á fiski og þannig raskað samkeppni á uppboðsmarkaði fyrir fiskafurðir. Kaupendur að fiski á fiskmarkaðnum, eins og kvartandi málsins Frostfiskur ehf., voru neyddir til þess að kaupa slægingu sem þeir höfðu ekki óskað eftir á óslægðum fiski sem þeir höfðu keypt á markaðnum. Með því var eðlilegri samkeppni á uppboðsmarkaði fyrir fiskafurðir raskað. Þá hafði háttsemi FÍ einnig samkeppnishamlandi áhrif á markaði fyrir slægingu þar sem sá fiskur sem fiskkaupendur höfðu keypt sem óslægðan var slægður í slægingarþjónustu FÍ. Áttu því keppinautar FÍ á slægingarmarkaði ekki kost á því að gera tilboð í slægingu á þeim fiski. Þá gátu kaupendur að fiski sem einnig reka slægingarþjónustu ekki slægt sjálfir fiskinn sem þeir keyptu.
FÍ er gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 10.000.000 (tíu milljónir króna) vegna brotsins.
Þá er það einnig niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Reiknistofa fiskmarkaða hf. (RFS) hafi farið gegn 11. gr. samkeppnislaga með þeirri háttsemi sinni að láta kvartanda málsins, Frostfisk ehf., á válista vegna ógreiddrar slægingarskuldar, en félag sem lenti á válista var útilokað frá viðskiptum á Fiskaneti RSF þar til skuldin hafði verið greidd. Því er það mat eftirlitsins að um ólögmæta aðgerð af hálfu RSF hafi verið að ræða sem raskað gat samkeppni á viðkomandi markaði. Hins vegar verður að athuga að lagaumhverfi starfsemi RSF er nokkuð óskýrt og því er það mat eftirlitsins að ekki sé tilefni til þess að sekta RSF vegna brota félagsins.
Forsendur ákvörðunarinnar eru ítarlega raktar í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 27/2008, sem er aðgengileg á heimasíðu eftirlitsins.