Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir brot Fiskmarkaðar Íslands hf. á samkeppnislögum
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 27/2008 frá 23. apríl 2008 var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að Fiskmarkaður Íslands hf. (FÍ) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með þeirri háttsemi sinni að tvinna saman kaup á fiski og slægingu á fiski og þannig raskað samkeppni á uppboðsmarkaði fyrir fiskafurðir. Kaupendur fisks á fiskmarkaðnum voru neyddir til þess að kaupa slægingu sem þeir höfðu ekki óskað eftir á óslægðum fiski sem þeir höfðu keypt á markaðnum. Með því var eðlilegri samkeppni á uppboðsmarkaði fyrir fiskafurðir raskað. Þá hafði háttsemi Fiskmarkaðs Íslands einnig samkeppnishamlandi áhrif á markaði fyrir slægingu þar sem sá fiskur sem fiskkaupendur höfðu keypt sem óslægðan var slægður í slægingarþjónustu Fiskmarkaðs Íslands. Áttu því keppinautar fyrirtækisins á slægingarmarkaði ekki kost á því að gera tilboð í slægingu á þeim fiski. Þá gátu kaupendur að fiski sem einnig reka slægingarþjónustu ekki slægt sjálfir fiskinn sem þeir keyptu. Var Fiskmarkaður Íslands sektaður um tíu milljónir króna vegna brotsins.
Fiskmarkaður Íslands hf. skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í úrskurði sínum staðfestir áfrýjunarnefnd samkeppnismála skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins á markaði málsins. Einnig staðfestir hún niðurstöðu stofnunarinnar um að Fiskmarkaður Íslands hf. hafi verið markaðsráðandi á honum. Enn fremur staðfesti áfrýjunarnefnd að samtvinnun félagsins á kaupum og slægingu á fiski hefði falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu þess. Taldi áfrýjunarnefnd að sektir væru hæfilegar ákvarðaðar sjö milljónir króna. Hægt er að nálgast úrskurðinn hér.
Úrskurður nr. 8/2008.