10.7.2014 Páll Gunnar Pálsson

Lífeyrissjóðir í íslensku atvinnulífi og staðan á matvörumarkaði

Pistill nr. 2/2014.

Samanbrotið Morgunblað, mynd MorgunblaðiðStyrmir Gunnarsson beinir til Samkeppniseftirlitsins fyrirspurnum í grein sinni í Morgunblaðinu þann 5. júlí sl., sem ber yfirskriftina „Er „Hin nýja stétt“ að verða til á Íslandi?“.  Í greininni er vikið að því að lífeyrissjóðirnir séu orðnir ráðandi eigendur stærstu fyrirtækja í landinu. M.a. er varpað fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt skilið að lífeyrissjóðir séu stærstu eigendur í Högum og líka stærstu eigendur í Kaupási, keppinaut Haga.

 

Af þessu tilefni spyr Styrmir hvert sé viðhorf Samkeppniseftirlitsins til þess að lífeyrissjóðir séu orðnir ráðandi á matvörumarkaðnum. Einnig spyr hann hvað verði gert til þess að koma í veg fyrir samráð þeirra í milli.

 

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp að Samkeppniseftirlitið tók afstöðu til breytts eignarhalds á Kaupási í ákvörðun nr. 7/2014, sem aðgengileg er á heimasíðu eftirlitsins. Um eignarhald lífeyrissjóða segir m.a. þetta í ákvörðuninni (bls. 29 og áfram):

 

„Í tilvikum þar sem um er að ræða eign sama fjárfestis í tveimur eða fleiri keppinautum á sama fákeppnismarkaði mega fjárfestar, þ. á m. lífeyrissjóðir, búast við því að Samkeppniseftirlitið taki eignarhaldið til sérstakrar skoðunar og eftir atvikum að gripið verði til aðgerða. Eftirlitið hefur áður beitt sér fyrir því að aðili selji eignarhlut sinn í keppinaut. Árið 2008 var Orkuveitu Reykjavíkur gert að selja eignarhlut í keppinaut sínum Hitaveitu Suðurnesja niður í 3%. Ákvörðuninni (ákvörðun nr. 23/2008) var áfrýjað og staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála hana með úrskurði sínum í máli nr. 7/2008, en miðaði þó við að Orkuveita Reykjavíkur mætti halda eftir 10% eignarhlut. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu áfrýjunarnefndar verður að taka fram að mál sem varða minnihlutaeign í keppinautum eru mismunandi eftir atvikum í hverju máli. Þannig verður að skoða atvik í hverju máli sérstaklega, t.d. uppbyggingu viðkomandi markaðar og það hvernig atkvæðarétti hefur verið beitt á hluthafafundum. Þannig kann eignarhald í fleiri en einum keppinaut sem er undir 10% að leiða til takmörkunar á samkeppni.

 

Framangreind umfjöllun gefur til kynna að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar ættu að varast að eiga samkeppnislega mikilvæga eignarhluti í keppinautum sem starfa á sama eða tengdum mörkuðum. Á þetta sérstaklega við þegar um er að ræða fákeppnismarkaði.

 

Áður hefur verið vikið að takmörkuðum fjárfestingarkostum og stærð lífeyrissjóða sem fjárfesta hér á landi. Af þeim sökum kann að reynast óhjákvæmilegt að sömu fjárfestarnir, lífeyrissjóðir, eigi einhvern eignarhlut í fleiri en einu fyrirtæki sem starfa á sama markaði. Samkeppniseftirlitið er meðvitað um það vandamál sem leiðir af takmörkuðum fjárfestingarkostum lífeyrissjóða og annarra, m.a. vegna gjaldeyrishafta. Þá er Samkeppniseftirlitið jafnframt meðvitað um mikilvægi þess að minnka skuldsetningu fyrirtækja og hleypa nýju eigin fé til þeirra. Þrátt fyrir mikilvægi framangreinds verður að gjalda varhug við því að sömu aðilar fari með samkeppnislega mikilvægan eignarhlut í fleiri en einum keppinaut, ekki síst þegar um er ræða öflug fyrirtæki sem starfa á fákeppnismarkaði.

 

Í kjölfar samruna þessa máls mun Bekei verða móðurfélag dótturfélaganna. Meðal dótturfélaganna er Kaupás næst stærsti aðilinn sem starfar á dagvörumarkaðnum hér á landi. Helsti keppinautur Kaupáss eru Hagar hf. sem reka m.a. verslanakeðjurnar Bónus og Hagkaup. Samkaup hf. er jafnframt stór keppinautur á markaðnum og rekur m.a. verslanir undir vörumerkjunum Samkaup-úrval, Samkaup-strax og Nettó. Þá eru ýmsir smærri aðilar starfandi á markaðnum, t.d. Fjarðarkaup, Víðir og sjálfstæðar kjörbúðir. Dagvörumarkaðurinn er afar mikilvægur markaður fyrir allan almenning en á markaðnum er töluverð samþjöppun og fákeppni. Af þeim sökum er mikilvægt að tryggja eftir fremsta megni að virk samkeppni ríki á markaðnum almenningi til hagsbóta. Taldi Samkeppniseftirlitið mikilvægt að kanna hvort salan á Kaupási fæli í sér samkeppnisleg vandamál vegna minnihlutaeignar í keppinautum.

 

Rannsókn eftirlitsins á samrunanum leiddi í ljós að einn af stærstu hluthöfum SF V og SÍA II, Gildi lífeyrissjóður, myndi í kjölfar samrunans eiga samkeppnislega mikilvægan eignarhlut í tveimur af helstu keppinautunum á dagvörumarkaðnum. Í tengslum við rannsókn málsins urðu hins vegar breytingar á eignarhlutum í SF V, þannig að eignarhlutur Gildis minnkaði. Í ljósi þeirra breytinga sem urðu á hluthafahópnum var það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki væri um það að ræða að sami hluthafi færi með samkeppnislega veigamikinn eignarhlut í tveimur keppinautum á matvörumarkaði. Þrátt fyrir það verða nokkrir fjárfestar sem munu eiga veigaminni hluti bæði í Kaupási og Högum í kjölfar samrunans.

 

Við skilgreiningu á því hvað felst í samkeppnislega veigamiklum eignarhlut í þessu sambandi er m.a. vísað til þess að viðkomandi eignarhlutur gefi viðkomandi fjárfesti möguleika á því að krefjast tilnefningar á stjórnarmanni í viðkomandi fyrirtæki. Er þá m.a. horft til líklegrar mætingar á hluthafafundi.

 

Í skilyrðum sem sett eru vegna málsins er að finna ákvæði sem ætlað er að takmarka m.a. hættuna af því að upplýsingar berist á milli keppinauta vegna þessara eignatengsla, sbr. einkum gr. 1.2 í ákvörðunarorðum um stjórnarsetu og gr. 1.7 um upplýsingagjöf til hluthafa.“

 

Samkeppniseftirlitinu gafst einnig tækifæri til að fjalla um þessi mál á morgunverðarfundi sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Landssamtök lífeyrissjóða og Alþýðusamband Íslands stóðu fyrir þann 15. nóvember 2013, um stöðu lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi. Í ræðu minni á fundinum kom eftirfarandi m.a. fram:

 

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins„Samhliða því að bankar hafa heldur dregið úr beinum eignarhlut sínum hafa lífeyrissjóðir bætt við sig. Það hafa þeir gert bæði milliliðalaust, í gegnum sjóði sem þeir eiga með öðrum lífeyrissjóðum og e.a. bönkum, eða með því að koma að fjárfestingarverkefnum þar sem bankarnir leiða saman hagsmuni sína og viðskiptaaðila sinna. Á miðju þessu ári áttu lífeyrissjóðir um 14% í fyrirtækjunum 120 sem við höfum verið að vakta. Miðað við þá samninga sem síðan hafa verið gerðir hefur eignarhluturinn aukist til muna, a.m.k. í 20%, og mun að öllum líkindum halda áfram að vaxa. Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða í skráðum félögum í Kauphöllinni er á milli 40 og 50%

 

Þessi mikla hlutdeild skapast m.a. af því að fjárfestingarkostir eru nú um stundir fáir á þessum litla markaði sem lokaður er með gjaldeyrishöftum. Lífeyrissjóðirnir eru því stórir fiskar í allt of lítilli tjörn, eða kannski ættum frekar að segja fiskabúri.

 

Það er auðvitað ekkert athugavert við það að lífeyrissjóðir fjárfesti í fyrirtækjum á samkeppnismörkuðum. Fjárfesting í hlutabréfum er hluti af eðlilegu og nauðsynlegu starfi þeirra, enda ber lífeyrissjóðum að finna leiðir til ávöxtunar iðgjalda. Stofnanafjárfestar eru líka áberandi í kauphöllum í kringum okkur. Og það getur bæði samræmst langtímahagsmunum lífeyrissjóðanna og hagsmunum samkeppninnar að þeir taki þátt í að styrkja rekstrarumhverfi fyrirtækja með því að leggja þeim til eigið fé.

 

Vandinn liggur hins vegar í gríðarlegu vægi lífeyrissjóðanna í núverandi og fyrirsjáanlegu eignarhaldi atvinnufyrirtækja. Niðurstaðan hefur í sumum tilvikum, og mun í fleiri tilvikum verða sú að fleiri lífeyrissjóðir fari samanlagt með meirihluta hlutafjár í mikilvægum samkeppnisfyrirtækjum. Þar sem það liggur ekki í eðli lífeyrissjóða að reka fyrirtæki er eignarhald þeirra, að óbreyttu, almennt áhrifalítið og eigendaaðhald þeirra því óskýrt.

 

Staðan verður enn óskýrari þegar horft er til þess að hluti fjárfestinga lífeyrisjóðanna er í gegnum framtakssjóði, oft með aðkomu banka sem oft á tíðum eiga einnig sjálfir hlut í viðkomandi fyrirtækjum og hafa þar að auki margs konar hagsmuni af rekstri þeirra, bæði sem fjárfestingarbankar og viðskiptabankar.

 

Afleiðingin af öllu framangreindu getur orðið sú að eignarhald mikilvægra atvinnufyrirtækja verði ógagnsætt, m.a. að því leyti að það verður ekki ljóst hvort og þá hver fer með ferðina eða hvernig eigendaaðhaldi er beitt. Þetta skapar hættu á því að atvinnufyrirtæki njóti ekki eigenda sem drífa áfram heilbrigðan rekstur og gera viðkomandi fyrirtæki að virkum keppinaut á markaði. Það, ásamt bágri stöðu margra fyrirtækja og efnahagsaðstæðum hér, kann að leiða til þess að við náum ekki að auka hér framleiðni á grundvelli virkrar samkeppni og stöndum að lokum frammi fyrir týndum áratug, líkum þeim sem Japanir upplifðu í kjölfar kreppunnar þar í byrjun tíunda áratugarins.

 

Það er með þetta í huga sem Samkeppniseftirlitið telur fulla þörf á því að staldra við og gaumgæfa í hvaða átt eignarhald á mikilvægum atvinnufyrirtækjum er að þróast í samkeppnislegu tilliti. Sem innlegg í þá umræðu ætla ég hér á eftir að setja fram og rökstyðja nokkrar fullyrðingar sem tengjast eignarhaldi lífeyrissjóða á atvinnufyrirtækjum. Þær eru settar hér fram í umræðuskyni, en Samkeppniseftirlitið hefur ekki tekið endanlega afstöðu til þeirra allra. Þær eru heldur ekki tæmandi um afstöðu eftirlitsins til þessara mála.“

 

Í ræðunni voru síðan raktar og útskýrðar nánar 6 fullyrðingar eða meginreglur sem huga þyrfti að og taka afstöðu til, m.a. á vettvangi lífeyrissjóða. Þær eru þessar:

  1. Lífeyrissjóðir eiga að keppa sín á milli um ávöxtunartækifæri og þeir mega ekki hafa samkeppnishamlandi samstarf um fjárfestingar.
  2. Lífeyrisjóður á ekki að eiga samkeppnislega mikilvægan eignarhlut í fleiri en einum keppinauti á sama markaði.
  3. Lífeyrissjóðum ber að vinna gegn hvers konar blokkamyndun sem stafað getur af myndun fyrirtækjahópa undir sameiginlegu eignarhaldi þeirra.
  4. Lífeyrissjóðum ber að skapa aga gagnvart bönkum og sporna þannig gegn mögulegum skaðlegum afleiðingum hagsmunatengsla innan þeirra.
  5. Eignarhald lífeyrissjóða má ekki verða svo langvinnt að það hamli fjölbreyttara eignarhaldi atvinnufyrirtækja.
  6. Lífeyrissjóðum bera að móta sér sjálfstæða stjórnarhætti og um leið eigendastefnu sem styður við samkeppni og framþróun atvinnulífs.

Vísast nánar um þetta til ræðunnar, sem aðgengileg er hér á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins