17.7.2017 Páll Gunnar Pálsson

Lífeyrissjóðir sem eigendur fyrirtækja – Í tilefni af grein Óla Björns

Pistill nr. 1/2017

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, gerir eignarhald lífeyrissjóða á fyrirtækjum að umtalsefni í grein sinni í Morgunblaðinu þann 5. júlí síðastliðinn. Bendir Óli Björn m.a. á að sömu lífeyrissjóðir eigi eignarhluti í fleiri en einum keppinauti á sama markaði, þ. á m. á matvöru- og eldsneytismörkuðum. Segir hann það umhugsunarvert að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gert athugasemd við samtvinnað eignarhald lífeyrissjóðanna á mikilvægum neytendamörkuðum eða vakið athygli á þeim hættum sem því eru samfara.

Af þessu tilefni er rétt að gera stutta grein fyrir umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um þetta á undanförnum misserum:

  1. Í kjölfar bankahrunsins fylgdist Samkeppniseftirlitið með þróun eignarhalds á atvinnufyrirtækjum og áhrifum þess á samkeppni. Safnaði eftirlitið reglulega upplýsingum frá um 120 fyrirtækjum og birti þrjár skýrslur um þetta efni, nr. 2/2011, 3/2012og 3/2013. Í þeirri síðastnefndu er vakin athygli á sívaxandi hlut lífeyrissjóða í eignarhaldi fyrirtækja og lýst áhyggjum af ógagnsæju eignarhaldi lífeyrissjóða, banka og einstaklinga í gegnum sjóði, sér í lagi sameiginlegu eignarhaldi fagfjárfesta í tveimur eða fleiri keppinautum á sama markaði.
  2. Á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands o.fl. um lífeyrissjóði og íslenskt atvinnulíf, þann 15. nóvember 2013, lýstiSamkeppniseftirlitið sömu áhyggjum. Þar var vakin athygli á nokkrum lykilatriðum sem lífeyrissjóðir þyrftu að huga að. Meðal annars ættu lífeyrissjóðir að forðast að eiga samkeppnislega mikilvægan eignarhlut í fleiri en einum keppinauti á sama markaði og vinna gegn hvers konar blokkamyndun sem stafað gæti af myndun fyrirtækjahópa undir eignarhaldi þeirra.
  3. Með ákvörðun nr. 1/2011 setti Samkeppniseftirlitið skilyrði fyrir kaupum Framtakssjóðs Íslands á Eignarhaldsfélaginu Vestia. Var skilyrðunum m.a. ætlað að sporna gegn óeðlilegri valdasamþjöppun og blokkamyndun sem takmarkað gæti samkeppni til lengri tíma litið. Þá var bent á að samstarf lífeyrissjóðanna í gegnum Framtakssjóðinn gæti haft óæskileg áhrif á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sjálfra.
  4. Fjallað var ítarlega um eignarhald lífeyrissjóðanna í ákvörðun nr. 7/2014, sem varðaði breytingar á yfirráðum yfir Festi (Norvik), sem m.a. rekur Krónuna. Voru samrunanum sett skilyrði sem miðuðu m.a. að því að draga úr samkeppnishindrunum sem stafað gætu af samkynja eignarhaldi á mikilvægum keppinautum á matvörumarkaði, þ.e. Högum og Kaupási. Í ákvörðuninni er fjallað sérstaklega um minnihlutaeign í keppinautum, þ.e. þegar sami fjárfestir á í fleiri en einum keppinauti á sama markaði (sjá kafla 4.2.1).

    Samkeppniseftirlitið hefur gripið til hliðstæðrar íhlutunar í allmörgum málum, vegna eignarhalds lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. Nefna má hér sem dæmi ákvarðanir er varða breytingar á eignarhaldi Skeljungs hf. (nr. 2/2014), Kynnisferða hf. (22/2015) og verslanakeðjunnar 10-11 og Iceland (nr. 26/2016).
  5. Í nóvember 2015 gaf Samkeppniseftirlitið út viðamikla skýrslu um eldsneytismarkaðinn (nr. 2/2015), en skýrslan er liður í markaðsrannsókn eftirlitsins. Þar er m.a. fjallað um eignatengsl milli N1 og Skeljungs sem felast í því að lífeyrissjóðir og fleiri aðilar eiga eignarhluti í báðum fyrirtækjunum. Er komist að þeirri niðurstöðu að eignatengslin geti skaðað samkeppni, sem felist m.a. í því að eigendur félaganna tveggja hafi beinan hag af því að þau keppi ekki jafn mikið innbyrðis og við aðra ótengda keppinauta (kafli 5.6.4).
  6. Þann 25. maí 2016 stóð Samkeppniseftirlitið fyrir fjölmennum umræðufundium eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni. Á fundinum var gerð grein fyrir nýlegum rannsóknum fræðimanna í Bandaríkjunum, en þær benda til þess að aukin eignatengsl milli keppinauta þar í landi, á flugmarkaði annars vegar og bankamarkaði hins vegar, hafi leitt til hærra verðs til viðskiptavina. Einn hinna bandarísku fræðimanna, Martin C. Schmalz, dósent við University of Michigan, kynnti þessar niðurstöður á fundinum (upptaka í gegnum fjarfundarbúnað).

    Á fundinum var efnt til pallborðsumræðna með þátttöku hagsmunaaðila og stjórnvalda. Þáverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, tók þátt í pallborði, en hann hefur lýst svipuðum sjónarmiðum og tekið undir áhyggjur Samkeppniseftirlitsins.
  7. Til viðbótar við þetta hefur Samkeppniseftirlitið átt í talsverðum samskiptum við lífeyrissjóði um framangreint. Nefna má sem dæmi að í janúar síðastliðnum bauð Samkeppniseftirlitið stjórnendum lífeyrissjóða á sérstaka kynningu á kjarnareglum samkeppnislaga og þeim sjónarmiðum sem huga þyrfti að á vettvangi sjóðanna.

Brýnt umræðuefni

Samkeppniseftirlitið fagnar því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi hvatt sér hljóðs um þetta mikilvæga málefni. Einnig ber að fagna því að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, skipaði í júní síðastliðnum starfshóp um hlutverk lífeyrissjóða og uppbyggingu atvinnulífs. Á meðal viðfangsefna hópsins er að skoða hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur felast í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum.

Þá er ástæða til þess að vekja athygli á nýlegri rannsókn íslenskra fræðimanna um þetta efni, en fræðigrein þeirra birtist í Stjórnmálum og stjórnsýslu (útg. 13, 1/2017) undir yfirskriftinni „Að þjóna sömu herrum en keppa þó: Sameiginlegt eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði“.

Að mati Samkeppniseftirlitsins er umræða um eignarhald á atvinnufyrirtækum brýn, ekki síst umræða um hlutverk lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. Í því efni verður að hafa í huga þær hættur sem hér hefur verið bent á, en samhliða verður að gæta að hagsmunum okkar allra af því að lífeyrissjóðir geti axlað frumskyldur sínar gagnvart lífeyrisþegum. Jafnframt verður að hafa í huga skyldur þeirra til að gæta hagsmuna sinna og almennings sem hluthafar í fyrirtækjum.

Ákvarðanir og skýrslur sem hér er vísað til eru aðgengilegar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, www.samkeppni.is

 
Páll Gunnar Pálsson
forstjóri Samkeppniseftirlitsins

[Pistill þessi var birtur sem grein í Morgunblaðinu þann 10. júlí 2017]