14.1.2011

Samkeppniseftirlitið setur kaupum Framtakssjóðs Íslands á Eignarhaldsfélaginu Vestia skilyrði

Framtakssjodur_og_VestiaSamkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun nr. 1/2011 sem birt er í dag sett ítarleg skilyrði fyrir kaupum Framtakssjóðs Íslands slhf. (FSÍ) á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. (Vestia). Eru skilyrðin sett í því skyni að draga úr röskun á samkeppni sem getur stafað af eignarhaldi FSÍ á þeim atvinnufyrirtækjum sem sjóðurinn öðlaðist yfirráð yfir með kaupunum.

Með kaupum FSÍ á Vestia öðlaðist FSÍ yfirráð yfir Teymi hf., Húsasmiðjunni hf., Plastprenti hf. og Icelandic Group hf. Í viðskiptunum felst jafnframt að seljandi Vestia, NBI hf. (Landsbankinn), öðlast fjórðungshlut í FSÍ.

Samkeppniseftirlitið hafði á fyrri hluta árs 2010 komist að þeirri niðurstöðu með ákvörðun nr. 7/2010 að yfirtökur NBI á Teymi, Húsasmiðjunni og Plastprenti röskuðu samkeppni og setti yfirtökunum skilyrði í því skyni að koma í veg fyrir þá röskun. Með sama hætti var yfirtaka NBI/Vestia á Icelandic Group til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu, en þeirri skoðun var ekki lokið þegar kaup FSÍ á Vestía voru tilkynnt.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirráð FSÍ á framangreindum fyrirtækjum geti að óbreyttu raskað samkeppni og að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir það með því að setja skilyrði fyrir yfirtökunni. Þannig telur Samkeppniseftirlitið að yfirráðin kunni að takmarka samkeppni á þeim mörkuðum sem viðkomandi atvinnufyrirtæki starfa. Þá geti eignarhald NBI á hlut í FSÍ raskað samkeppni á viðkomandi mörkuðum og valdið misvægi í samkeppni á fjármálamarkaði.

Sérstaklega er horft til þess að eigendur FSÍ, þ.e. lífeyrissjóðir og NBI, og þar með sjóðurinn sjálfur, hafa mjög sterka stöðu í íslensku atvinnulífi við núverandi aðstæður. Þetta skapar m.a. hættu á óæskilegri valdasamþjöppun og blokkamyndun sem takmarkað getur samkeppni til lengri tíma litið. Þá getur þessi skipan mála haft óeðlileg áhrif á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sjálfra.

Við mat á samrunanum var m.a. horft til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 18/2009 vegna yfirtöku NBI á Teymi, sem liggur til grundvallar þeim ákvörðunum sem fyrr er getið. Í málinu taldi áfrýjunarnefndin að Samkeppniseftirlitinu væri heimilt að setja þeirri yfirtöku skilyrði, enda þótt yfirtakan leiddi ekki til skörunar á mörkuðum eða myndunar á markaðsráðandi stöðu og að ekki væru forsendur til að ógilda samrunann. Taldi áfrýjunarnefndin að óvenjulegar aðstæður í atvinnulífinu kölluðu á þessa heimild.

Ljóst er þó að úrskurðurinn tekur ekki á nákvæmlega sömu álitaefnum enda fjallaði hann eingöngu um eignarhald banka á fyrirtækjum og þá óheppilegu stöðu að banki sé eigandi tiltekinna atvinnufyrirtækja jafnframt því að sinna fjármálaþjónustu á viðkomandi samkeppnismörkuðum. Að því leyti hafa kaup FSÍ á Vestia jákvæð áhrif þótt þeim fylgi önnur samkeppnisleg vandamál.

Viðræður við samrunaaðila hafa leitt til þess að þeir hafa undirgengist sátt í málinu. Hafa þannig FSÍ og eigendur hans fallist á að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi:

  • Tryggja skal að yfirtekin atvinnufyrirtæki starfi sem sjálfstæðir keppinautar á markaði. Í því augnamiði er m.a. mælt fyrir um hvernig stjórn félaganna er skipuð og lagt bann við því að fyrirtæki undir yfirráðum FSÍ beini viðskiptum sínum hvert til annars nema á grundvelli eðlilegra viðskiptalegra sjónarmiða. Er með þessu móti unnið gegn óæskilegri blokkamyndun í viðskiptum. FSÍ skal móta hverju rekstrarfélagi sjálfstæða eigendastefnu og setja þeim eðlilega arðsemiskröfu, m.a. í því skyni að draga úr þeim freistnivanda sem stjórnendur þessara fyrirtækja standa frammi fyrir, en stjórnendur geta freistast til þess að slaka á í rekstrinum þar sem bakhjarlar félaganna eru svo öflugir.
  • Tryggja skal að eignarhald NBI á hlut í FSÍ raski ekki samkeppni. Með þetta að markmiði er kveðið á um skipan NBI í stjórnir af sinni hálfu, upplýsingamiðlun milli NBI og FSÍ settar strangar skorður og mælt fyrir um að FSÍ sinni viðskiptum sínum á viðskiptalegum forsendum, þ. á. m. að keppinautar NBI njóti fulls jafnræðis í tengslum við ákvarðanir um fjárfestingar FSÍ og kaup sjóðsins á fjármálaþjónustu.
  • Tryggt skal að þátttaka lífeyrisjóðanna í eignarhaldi á FSÍ raski ekki samkeppni. Þannig er m.a. kveðið á um skipan lífeyrissjóðanna í stjórnir FSÍ og fyrirtækja sem sjóðurinn á, auk þess sem mælt er fyrir um starfsemi og verksvið ráðgjafaráðs sem starfar í tengslum við sjóðinn. Þannig er m.a. leitast við að tryggja að eignarhald lífeyrissjóðanna á FSÍ hafi ekki áhrif á fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða.
  • Leitast er við að hraða sölu á fyrirtækjum í eigu FSÍ. Með það að markmiði er mælt fyrir um að FSÍ geri sérstaka söluáætlun vegna félaga sem eru undir yfirráðum FSÍ, sem uppfæra skuli ár hvert. Söluáætlunin er hluti af reglulegri upplýsingagjöf FSÍ til Samkeppniseftirlitsins en sjóðnum er einnig gert að birta opinberlega almenn markmið um sölu félaga sem hann hefur yfirráð yfir. Hins vegar eru ekki forsendur til þess að setja sölu einstakra fyrirtækja sérstök tímamörk, með líkum hætti og Samkeppniseftirlitið hefur gert vegna yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum. Jákvæð áhrif samrunans felast einmitt í því að yfirráð yfir viðkomandi fyrirtækjum færast úr höndum banka.
  • FSÍ skal leitast við að selja fyrirtæki í opnu og gagnsæju ferli. Að þessu leyti er unnið gegn óæskilegri valdsamþjöppun. Jafnframt ber að hafa í huga að sala FSÍ á fyrirtækjum kemur til rannsóknar Samkeppniseftirlitsins ef hún felur í sér samruna í skilningi samkeppnislaga. Ákvæði sáttarinnar útiloka þó ekki annað fyrirkomulag við sölu, t.d. beina sölu til erlendra aðila sem efla kunni samkeppni á viðkomandi markaði. Velji FSÍ annað sölufyrirkomulag þarf sjóðurinn að vera reiðubúinn að gefa skýringar á því.
  • Birta skal ársuppgjör og hálfsársuppgjör yfirtekinna félaga opinberlega. Birting uppgjöra stuðlar að auknu aðhaldi og gagnsæi sem tryggir betri eftirfylgni við skilyrðin. Til álita kann þó að koma að draga úr upplýsingagjöf ef sýnt þykir að hún geti valdið óhæfilegri röskun á samkeppni á viðkomandi markaði.
  • Tryggja skal viðvarandi og ítarlegt eftirlit FSÍ og NBI með skilyrðunum, ásamt reglubundinni skýrslugjöf til Samkeppniseftirlitsins og eftirliti af þess hálfu.

Nánar er fjallað um framangreind skilyrði og forsendur þeirra í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011.