Markaðsyfirráð


Undirverðlagning

Undirverðlagning er það þegar fyrirtæki selur vöru eða þjónustu undir tilteknu kostnaðarviðmiði. Almennt er miðað við verð undir meðaltali breytilegs kostnaðar. Undirverðlagning getur farið gegn samkeppnislögum ef um er að ræða markaðsráðandi fyrirtæki. Getur slík háttsemi mögulega skapað eða viðhaldið hindrunum inn á markaði og þannig haft skaðlegar afleiðingar fyrir samkeppni.

Við mat á því hvort undirverðlagning feli í sér brot á samkeppnislögum þarf því fyrst að komast að niðurstöðu um hvort hlutaðeigandi fyrirtæki hafi verið í markaðsráðandi stöðu á þeim tíma sem undirverðlagningin átti sér stað. Ef svo er þarf að taka til skoðunar umfang undirverðlagningarinnar og í hve langan tíma hún hefur staðið. Undirverðlagning getur falið í sér brot á samkeppnislögum þegar markaðsráðandi fyrirtæki selur vöru eða þjónustu á undir kostnaðarverði samfellt í ákveðinn tíma í þeim tilgangi að styrkja markaðsráðandi stöðu sína og jafnvel ýta keppinaut(um) sínum út af markaðinum eða til að hindra innkomu nýs eða nýrra keppinauta.

Reglum sem ætlað er að vinna gegn undirverðlagningu byggja á þeirri hugmyndarfræði að það sé óæskilegt að markaðsráðandi fyrirtæki geti í skjóli fjárhagslegs styrks selt vöru á óeðlilega lágu verði til þess að að eyða samkeppni. Jafnvel þó neytendur njóti þess til skamms tíma að fá viðkomandi vöru á mjög lágu verði vegna undirverðlagningar er talið að sú röskun á samkeppninni sem stafar af undirverðlagningu leiði þegar til lengri tíma er litið til hærra verðs, minni gæða og fækkunar á valkostum neytenda. Þannig geta afleiðingarnar undirverðlagningar markaðsráðandi fyrirtækis t.a.m. verið þær að veikari keppinautar sjá ekki ástæðu til að taka þátt í samkeppni. Þar fyrir utan er ljóst að hvati að því að leggja til atlögu við markaðsráðandi fyrirtæki verður minni ef þeim er frjálst að bregðast við samkeppni með því að verðleggja vöru sína undir kostnaðarverði. Loks getur afleiðing undirverðlagningar orðið sú að keppinautar neyðist til hætta starfsemi.

Fræðilega séð eru ákveðin tilvik þar sem undirverðlagning markaðsráðandi aðila felur ekki í sér brot á samkeppnislögum. Fellur það almennt í hlut hlutaðeigandi fyrirtækisins að færa sannfærandi málefnaleg rök fyrir því. Sala á birgðum sem eru að nálgast eða komnar rétt yfir síðasta söludag eða kynningartilboð á nýjum vörum geta t.a.m. verið hugsanlegar réttlætingar á undirverðlagningu.

Samkeppnisyfirvöld hafa í nokkrum tilvikum þurft að grípa til aðgerða vegna skaðlegrar undirverðlagningar markaðsráðandi fyrirtækja:

Ákv. nr. 64/2008 komst Samkeppniseftirlitið að því að Hagar (sem reka m.a. verslunina Bónus) höfðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust að keppinautum félagsins á matvörumarkaði. Með því brutu þeir samkeppnislög. Brot Haga fólust í undirverðlagningu sem félagið greip til á árunum 2005 og 2006. Seldi Hagar mjólk á undir kostnaðarverði í verslunum Bónuss í langan tíma. Voru mjólkurvörurnar seldar með stórfelldu tapi og leiddi til þess að verslanir Bónuss voru í heild reknar með tapi. Taldi Samkeppniseftirlitið að brotið hafi verið til þess fallið að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samkeppnislegu tjóni. Áfrýjunarnefnd komst að sömu niðurstöðu með úrs. nr. 2/2009. Héraðsdómur staðfesti úrskurðinn með dómi nr. E-7649/2009 sem síðar var staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 188/2010.

Með dómi Hæstaréttar nr. 205/2011 staðfesti Hæstiréttur að Icelandair hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar. Var Icelandair gert að greiða 80 milljón kr. í sektir. Dómur er fordæmisgefandi þar sem hann staðfestir að markaðsráðandi aðili í farþegaflugi verður að gæta sín vel á að hindra ekki aðgang að markaðinum með kynningu og verðlagningu á flugfjargjöldum.

Með ákv. nr. 30/2012 komst Samkeppniseftilritið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með tilboði sem fyrirtæki gerði notendum sínum sumarið 2009. Hljóðaði tilboðið upp á 3G netlykil og áskrift fyrir 0 kr. í allt sumar. Var Símanum gert að greiða 60 milljón kr. í stjórnvaldssekt. Taldi Samkeppniseftirlitið að í tilboðinu hafi falist ólögmæt undirverðlagning. Síminn kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til úrskurðarnefndar samkeppnismála sem komst að þeirri niðurstöðu, með úrsk. nr. 10/2011, að Síminn nyti mikilla yfirburða þegar horft er á fjarskiptamarkaðinn í heild sinni. Þessir yfirburðir gerðu það sérstaklega brýnt að komið sé í veg fyrir að Síminn nýtti sér yfirburði sína á hefðbundnum fjarskiptamörkuðum til þess að skapa sér sömu yfirburði á nýjum fjarskiptamörkuðum sem eru í þróun.


Tengt efni