Ákvarðanir
Framsal Glitnis hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf. til Ríkissjóðs Íslands
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 8/2016
- Dagsetning: 7/3/2016
-
Fyrirtæki:
- Lyfja hf
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Lyf, stoðtæki (t.d. gleraugu) og tengdar vörur
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samkeppniseftirlitið hefur haft til umfjöllunar framsal Glitnis hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf. til Ríkissjóðs Íslands. Framsalið er liður í svokölluðu stöðugleikaframlagi framseljanda sem er hluti af áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Lyfja er stærsta fyrirtæki landsins í smásölu lyfja, fyrirtækið rekur 30 apótek víðsvegar um landið ýmist undir vörumerkjunum Lyfja eða Apótekið. Innan samstæðunnar eru jafnframt Heilsuhúsið og Heilsa ehf., starfsemi þeirra félaga er m.a. innflutningur og sala á fæðubótarefnum.
Umrætt framsal mun ekki auka samþjöppun á markaðnum. Skorður eru á mögulegri samkeppnishegðun fyrirtækja í eigu ríkisins, t.a.m. setja ríkisstyrkjareglur EES-samningsins því skorður varðandi fjármögnun fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Í þessu máli eru ekki forsendur fyrir því að setja eignarhaldi ríkisins skilyrði umfram almennar reglur sem um eignarhald þess gilda auk þess sem fyrirhugað er að eignarhald ríkisins verði skammvinnt.
Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til myndunar markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005.