28.8.2011

Vegna umfjöllunar í Ríkisútvarpinu um ætlaðan seinagang Samkeppniseftirlitsins við meðferð mála er varða INTER, samtök aðila sem veita internetsþjónustu

Í Ríkisútvarpinu hefur í dag og í gær verið sagt frá stjórnsýslukæru Inter, samtaka internetsþjónustuaðila, sem send mun hafa verið áfrýjunarnefnd samkeppnismála, vegna ætlaðs seinagangs við meðferð Samkeppniseftirlitsins á kvörtunum sem samtökin hafi sent á árunum 2004 og 2005. Vegna þessa vill Samkeppniseftirlitið taka eftirfarandi fram.

Meðferð þess máls sem Inter vísar til hófst haustið 2007 á grundvelli ábendinga sem Samkeppniseftirlitinu bárust í júní 2007 og kvörtunar frá fyrirtækinu TSC frá sama ári. Jafnframt er athugunin reist á umkvörtunarefnum sem Samkeppniseftirlitinu höfðu borist með erindum frá IP fjarskiptum og Inter á árunum 2004 og 2005. Erindi Inter lutu að ýmsum atriðum, m.a. atvikum sem ekki voru tekin upp í þessari rannsókn, en Samkeppniseftirlitið hafði á árinu 2007 óskað eftir því að Inter tæki afstöðu til þess hvaða umkvörtunarefni væri brýnast að leysa.

Framangreind athugun varðaði nánar tiltekið hugsanlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu Símans með samkeppnishamlandi verðlagningu, samtvinnun þjónustuþátta, gerð einkakaupasamninga og mismunun í formi afslátta fyrir ADSL-tengingar til fyrirtækja. Eins náði rannsóknin til þess hvort Síminn hefði farið gegn fyrri ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.

Andmælaskjal sem hafði að geyma frummat Samkeppniseftirlitsins var sent Símanum í lok árs 2008 og bárust viðbrögð við því á fyrri hluta árs 2009. Sökum nýrra upplýsinga og sjónarmiða sem komu fram við þessa meðferð reyndist nauðsynlegt að endurskoða frummat Samkeppniseftirlitsins. Vegna anna hefur reynst nauðsynlegt að forgangsraða málum og í því ljósi ákvað Samkeppniseftirlitið að ljúka hluta málsins í sérstöku máli, sbr. ákvörðun nr. 41/2009, Brot Símans á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005. Í ákvörðuninni var tekin afstaða til kvörtunar fyrirtækisins TSC, sem fyrr er getið. Var Síminn sektaður um 150 m.kr. vegna málsins. Það mál fór fyrir áfrýjunarnefnd sem staðfesti niðurstöðu um brot Símans en lækkaði sektir í 50 m.kr. Málið er nú fyrir dómstólum.

Inter hafa reglulega verið upplýst um stöðu framangreinds máls og tafir sem orðið hafa á meðferð þess. Fyrir liggur að Samkeppniseftirlitið hefur neyðst til að forgangsraða verkefnum, enda hefur verkefnaálag vaxið verulega á liðnum árum og verkefnum fjölgað. Er það meginástæða þeirra tafa sem orðið hafa á meðferð málsins.

Varðandi ummæli forsvarsmanns Inter um að Samkeppniseftirlitið hafi ekki sinnt skyldum sínum til þess að gæta samkeppnishagsmuna á fjarskiptamarkaði er rétt að taka fram að samkeppnisyfirvöld hafa á liðnum árum eytt miklum tíma í rannsóknir á fjarskiptamarkaði. Á síðasta ári varði eftirlitið tæpum 20% af ráðstöfunartíma sínum í verkefni  á fjarskiptamarkaði. Allmargar athuganir eru nú til meðferðar sem varða fjarskiptamarkað.

Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið lokið við allmörg mál á liðnum árum, sem varða mikilvæga samkeppnishagsmuni á fjarskiptamarkaði. Nokkur helstu mál er eftirfarandi:

  1. Ákvörðun nr. 6/2007, Ólögmætt samráð Landsvirkjunar, Fjarska ehf. og Símans hf. vegna viðskipta tengdum Fjarska ehf.
    Síminn, Landsvirkjun og Fjarski, sem er dótturfélag Landsvirkjunar, gengust undir sátt þar sem þau viðurkenndu að hafa haft með sér samráð í tengslum við kaup Símans á eignarhlut í Fjarska og við kaup Símans á sex ljósleiðarastrengjum á milli Hrauneyjarfossstöðvar og Akureyrar. Félögin féllust á að greiða samtals 80 m.kr. í stjórnvaldssekt.

  2. Ákvörðun nr. 17/2007, Erindi Og fjarskipta hf. vegna meintrar misnotkunar Landssíma Íslands hf. á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði.
    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að niðurgreiða GSM farsíma sem voru læstir í eigið farsímakerfi. Aðgerðir þessar voru til þess fallnar að viðhalda eða styrkja markaðsráðandi stöðu Símans með óeðlilegum hætti og brotið þannig gegn 11. gr. samkeppnislaga. Ákvörðuninni var ekki áfrýjað.

  3. Ákvörðun nr. 36/2008, Samruni Teymis hf. og IP-fjarskipta ehf.
    Samkeppniseftirlitið setti skilyrði til þess að tryggja samkeppni milli Vodafone og og IP-fjarskipta (Tal).

  4. Skýrsla nr. 2/2008, Öflug uppbygging, opnun markaða og efling atvinnustarfsemi, Ýmis tilmæli sett fram til að efla samkeppni á m.a. mörkuðum fyrir fjarskipti og auðvelda nýjum aðilum að komast inn á markaðinn.

  5. Bráðabirgðaákvörðun nr. 1/2009, Meint brot Teymis hf. og og fjarskipta ehf. og IP-fjarskipta ehf. á ákvörðun samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og ákvæðum samkeppnislaga.
    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að sennilega hefðu Teymi, Vodafone og Tal brotið gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og 10. gr. samkeppnislaga með því að samkomulagi um að Tal ætti ekki í samkeppni við Vodafone. Var einnig talið sennilegt að fulltrúar Teymis hafi beitt sér gegn samkeppnislegu sjálfstæði Tals og var því talið nauðsynlegt að gera breytingar á stjórn Tals og fengnir óháðir aðilar til setu í stjórninni.

  6. Ákvörðun nr. 4/2009, Dagsektir vegna brota Teymis hf. á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til bráðabirgða nr. 1/2009.
    Taldi Samkeppniseftirlitið sennilegt að Teymi hefði brotið gegn fyrrnefndri bráðabirgðaákvörðun nr. 1/2009 og tók ákvörðun um álagningu dagsekta. Skyldi Teymi greiða 3. m.kr. á dag þar til bráðabirgðaákvörðuninni hefði verið
    framfylgt.

  7. Ákvörðun nr. 8/2009, Aðgerðir til þess að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði IP-fjarskipta ehf.
    Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun um að fulltrúar Teymis vikju úr stjórn Tals og að Samkeppniseftirlitið skyldi skipa óháða fulltrúa í stað þeirra í stjórn Tals.

  8. Ákvörðun nr. 27/2009, Brot á ákvörðun samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 Samruni Teymis hf. og IP-fjarskipta ehf. og 10. gr. samkeppnislaga.
    Samkeppniseftirlitið komast að þeirri niðurstöðu að Teymi og Vodafone hefðu brotið gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og gegn 10. gr. samkeppnislaga með samstilltum aðgerðum. Var Teymi gert að selja frá sér eignarhlutinn í Tali og að greiða 70 m.kr. í stjórnvaldssekt.

  9. Bráðabirgðaákvörðun nr. 2/2009, Meint brot Símans hf. með tilboði í 3G netlykil og áskrift.
    Samkeppniseftirlitið lagði bann við tilboði Símans hf.

  10. Ákvörðun nr. 41/2009, Brot Símans hf. á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 10/2005 Samruni Landssíma Íslands hf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf.
    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. hefði brotið gegn skilyrðum í fyrri ákvörðun og þannig raskað með alvarlegum hætti samkeppni frá minni keppinaut. Samkeppniseftirlitið lagði 150 m.kr. stjórnvaldssekt á Símann. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti niðurstöðu um brot en lækkaði sekt í 50 m.kr. Málið er nú rekið fyrir héraðsdómi.

  11. Ákvörðun nr. 43/2009, Kvörtun vegna sölumeðferðar á IP-fjarskiptum ehf.
    Í málinu var kvartað yfir því að Teymi hefði hafnað tilboði í Tal og hafi með því brotið gegn ákvörðun samkeppniseftirlitsins nr. 27/2009. Samkeppniseftirlitið véfengdi ekki staðhæfingu Teymis að félagið hefði ekki haft upplýsingar um verðmæti Tals og því ekki hægt að taka tilboðinu sem barst. Var því ekki talin ástæða til að aðhafast frekar í málinu.

  12. Bráðabirgðaákvörðun nr. 2/2010, Meint brot Símans hf. á markaði fyrir farsímaþjónustu.
    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. hefði gripið til umfangsmikilla ólögmætra aðgerða sem miðuðu að því að ná til sín verðmætum viðskiptavinum Nova. Þessi bráðabirgðaákvörðun var tekin í kjölfar húsleitar í apríl 2010.

  13. Ákvörðun nr. 7/2010, Samruni Eignarhaldsfélagsins Vestia ehf. og Teymis hf.
    Skilyrði sett fyrir samrunanum, m.a. í því skyni að vernda samkeppni á fjarskiptamarkaði.

  14. Sátt við Skipti, Símann og Tæknivörur.
    Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Skiptasamstæðunni í apríl 2010. Á grundvelli gagna sem fundust í þeirri leit var framkvæmd leit hjá Hátækni ehf. og móðurfélagi þess, Olíuverslun Íslands hf., þann 7. maí sl. Var þetta gert sökum gruns um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum. Þessi fyrirtæki eru helstu keppinautarnir í innflutningi og heildsölu á farsímum og tengdum búnaði. Þetta leiddi til þess að Skiptasamstæðan játaði í júlí 2010 að Tæknivörur hefði haft ólögmætt samráð við Hátækni og féllst á greiða 400 m.kr. í sekt. Einnig féllust Skipti á að selja Tæknivörur frá sér.

  15. Ákvörðun nr. 1/2011, Kaup Framtakssjóðs Íslands slhf. á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf.
    Með þessum samruna öðlaðist Framtakssjóðurinn, sem er eignarhaldsfélag lífeyrirssjóða, yfirráð yfir m.a. Vodafone. Skilyrði voru sett fyrir samrunanum, m.a. í því skyni að vernda samkeppni á fjarskiptamarkaði.