21.3.2013

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir 45 milljón króna sekt á SORPU bs. vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu

Merki SORPU BSÍ desember sl. sektaði Samkeppniseftirlitið SORPU bs. um 45 milljónir kr. fyrir brot á samkeppnislögum. Samkvæmt ákvörðuninni nr. 34/2012 braut SORPA bs. (sem er byggðasamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs. Þetta gerði SORPA með því að veita eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, og Sorpstöð Suðurlands bs. hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum, jafnvel þó fyrirtækin kæmu með meira magn af sorpi en sveitarfélögin í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Með heimild í samkeppnislögum beindi Samkeppniseftirlitið þeim fyrirmælum til SORPU að byggðasamlagið endurskoðaði gjaldskrá fyrir þjónustu sína og viðskiptasamninga sína í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

SORPA kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist aðallega ógildingar ákvörðunarinnar en til vara að sekt vegna brotsins yrði felld niður eða lækkuð verulega.  Byggði fyrirtækið m.a. á því að starfsemi opinberra fyrirtækja eins og SORPU félli ekki undir samkeppnislög.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú með úrskurði í máli nr. 1/2013 staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins bæði hvað varðar misnotkun SORPU á markaðsráðandi stöðu og stjórnvaldssekt vegna brotsins. Í úrskurðinum kemst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að enginn vafi leiki á því að SORPA er fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga og að ákvæði sérlaga takmarki ekki heimildir samkeppnisyfirvalda til að beita bannákvæðum samkeppnislaga gagnvart SORPU.

Áfrýjunarnefnd staðfesti jafnramt með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar að SORPA hafi með háttsemi sinni misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að mismuna viðskiptavinum sínum með ólíkum afsláttarkjörum í sams konar viðskiptum, í formi aukinna afslátta til eigenda sinna og Sorpstöðvar Suðurlands bs. Afslátturinn hafi verið til þess fallin að raska samkeppni á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs og aukinn afsláttur til Sorpstöðvar Suðurlands bs. hafi sömuleiðis verið ólögmætur. Varðandi málsástæðu SORPU um lækkun sekta tekur áfrýjunarnefndin fram að brot SORPU séu „skýr og leikur enginn vafi á því að háttsemi af þessum toga sé andstæð 11. gr. samkeppnislaga, sbr. c-lið 2. mgr. greinarinnar. Eru því engin efni til að fallast á með áfrýjanda að brotin hafi verið framin af gáleysi sem leiði til lækkunar sekta.