26.4.2018

Vegna umfjöllunar um niðurstöður og starfshætti Samkeppniseftirlitsins

Þann 25. apríl sl. var á mbl.is birtur útdráttur úr viðtali útvarpsstöðvarinnar K100 við Ara Edwald, ásamt aðgangi að viðtalinu sjálfu. Um var að ræða sömu sjónarmið og Ari setti fram á fundi Viðskiptaráðs Íslands þann 24. apríl þar sem kynntar voru leiðbeiningar um samkeppnisreglur fyrir fyrirtæki.

Í viðtalinu er fjallað um niðurstöður og starfshætti Samkeppniseftirlitsins. Í þágu upplýstrar umræðu um samkeppnismál telur Samkeppniseftirlitið rétt að leiðrétta nokkur atriði sem fram komu í þessari umfjöllun og vekja athygli á úrlausnum eftirlitsins um þau.

 

1)    Eru RÚV og 365 keppinautar?

Í viðtalinu er því haldið fram að Samkeppniseftirlitið hafi litið svo á að RÚV starfaði ekki á sama markaði og Stöð 2 (365) og ætti ekki í samkeppni við það fyrirtæki. Þetta er ekki rétt. Benda má á eftirfarandi úrlausnir í því sambandi:

Í nýlegri ákvörðun nr. 42/2017, Samruni Fjarskipta hf. og 365 miðla hf., voru fjarskipta- og fjölmiðlamarkaðir málsins skilgreindir með ítarlegum hætti (bls. 17 – 80). Fjallað var m.a. um sjónvarpsþjónustu, markað fyrir vöndla fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu, efniskaup, sjónvarps- og útvarpsdreifingu og auglýsingar í fjölmiðlum. Byggði rannsóknin á sjónarmiðum samrunaaðila, sjónarmiðum sem aflað var frá keppinautum og hagsmunaaðilum, gögnum sem aflað var frá aðilum á markaði, fordæmum hérlendis og erlendis, o.fl. Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins voru m.a. þessar:

-      Að undir markaðinn fyrir auglýsingar í sjónvarpi falli bæði auglýsingar í opnu sjónvarpi og áskriftarsjónvarpi, þ.e. að fyrrgreindar tegundir sjónvarpsstöðva starfi að þessu leytinu á sama markaði. (Sjá nánar bls. 76-79). Er þetta í samræmi við fyrri úrlausnir eftirlitsins um að RÚV og Stöð2 séu keppinautar að þessu leyti.

-      Að RÚV og Stöð2 séu meðal keppinauta á efniskaupamarkaði fyrir sjónvarp (sjá bls. 110-112).

-      Að áskriftarsjónvarp sé sérstakur markaður sem tilheyri ekki sama markaði og opið sjónvarp. Er sú niðurstaða í samræmi við fordæmi frá Evrópu, sbr. nú síðast ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá febrúar sl. sem m.a. varðaði sjónvarpsmarkaði í Noregi og Svíþjóð. Jafnframt er undirstrikað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að RÚV og aðrar opnar stöðvar veiti 365 töluvert samkeppnislegt aðhald. (Sjá einkum bls. 50 – 61).

Þá hefur Samkeppniseftirlitið vakið athygli á þeirri samkeppnislegu mismunun sem felst í þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða tekjum þess af skattfé. Árið 2008 beindi Samkeppniseftirlitið sérstöku áliti til menntamálaráðherra, nr. 4/2008, þar sem lagt er til að þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði verði endurskoðuð. Síðan hefur eftirlitið ítrekað fjallað um þetta, sbr. t.d. umsögn um frumvarp (þskj. 1186 – 748. mál) til nefndasviðs Alþingis, dags. 10. maí 2012. Tekið er undir sjónarmið eftirlitsins að þessu leyti í nýlegri skýrslu nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, frá janúar 2018.

Samkvæmt framangreindu er ekki rétt með farið þegar því er haldið fram að Samkeppniseftirlitið telji að RÚV og 365 starfi ekki á sama markaði og eigi ekki í samkeppni.

 

2)    Er Netflix hluti af sjónvarpsmarkaðnum?

Í viðtalinu er því haldið fram að Samkeppniseftirlitið telji að Netflix sé ekki á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp. Þetta er ekki rétt.

Fjallað var um þetta atriði í fyrrgreindri ákvörðun nr. 42/2017, Samruni Fjarskipta hf. og 365 miðla hf. Þar er tekið til sérstakrar skoðunar hvort ólínulegt ákriftarsjónvarp sé á sama markaði og línulegt sjónvarp og þar með hvort streymisþjónustur eins og Netflix teljist starfa á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp.

Í ákvörðuninni benti Samkeppniseftirlitið á rök með og móti því að Netflix teldist á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp, en taldi hins vegar ekki nauðsynlegt fyrir niðurstöðu málsins að skera endanlega úr um það. Þess í stað tók Samkeppniseftirlitið veltu streymisveitna með í útreikningi á markaðshlutdeild í málinu og lét samrunaaðila þannig njóta vafans. (Sjá einkum bls. 61 – 66 og 103 –107 í ákvörðuninni).

Í ákvörðuninni var bent á ýmis atriði til stuðnings því að streymisþjónustur starfi ekki á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp, s.s. innanhússgögn frá samrunaaðilum og ákvörðun danska samkeppniseftirlitsins frá september 2017, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að streymisþjónusta væri ekki hluti af hefðbundnum sjónvarpsmarkaði.

Á hinn bóginn benti Samkeppniseftirlitið á að ákveðin teikn séu á lofti um að munurinn á línulegu og ólínulegu áskriftarsjónvarpi hafi minnkað og að samruni þessara markaða muni aukast í framtíðinni.

 

3)    Átti að telja veltu Fríhafnarinnar á snyrtivörum með við rannsókn á samruna Haga og Lyfju?

Í viðtalinu er því haldið fram að við ógildingu á samruna Haga hf. og Lyfju hf. hafi Samkeppniseftirlitið tekið Fríhöfnina „út fyrir sviga sem stærsta snyrtivörusalann“. Vegna þessa er nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi 

Með ákvörðun nr. 28/2017, Samruni Haga hf. og Lyfju hf., komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að með kaupunum hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Samruninn hefði leitt til þess að á þeim markaði hefði horfið samkeppni sem nú er á milli Haga og Lyfju. Breytingarnar hefðu verið til þess fallnar að skaða samkeppni, almenningi og atvinnulífi til tjóns. Var samruninn því ógiltur.

Í málinu tók Samkeppniseftirlitið m.a. til rannsóknar hvort verslun í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli og á netinu teldist hluti af mörkuðum málsins. Vegna þessa aflaði eftirlitið gagna um sölu á þessum vettvangi, veltu, tíðni viðskipta og dreifingu sölunnar, auk þess sem úrlausnir erlendra samkeppnisyfirvalda voru teknar til skoðunar. Þá lét Samkeppniseftirlitið framkvæma sérstaka neytendakönnun til að varpa ljósi á kauphegðun og sjónarmið neytenda.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gáfu eindregið til kynna að verslun í Fríhöfninni væri ekki hluti af markaði málsins, þótt hún veitti innlendri verslun ákveðið samkeppnislegt aðhald. Helgast sú niðurstaða fyrst og fremst af því að sala í fríhafnarversluninni er háð því skilyrði að neytendur séu á leið inn eða út úr landinu. (Sjá einkum bls. 37 - 51 í ákvörðuninni).

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu aflaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga um tekjur Fríhafnarinnar af sölu á hreinlætis- og snyrtivörum og skoðaði hvort efnisleg niðurstaða málsins hefði verið önnur ef sala Fríhafnarinnar hefði verið talin með. Sú skoðun leiddi í ljós að jafnvel þó sala Fríhafnarinnar væri meðtalin myndi það ekki breyta stöðu sameinaðs fyrirtækis á mörgum landfræðilegum mörkuðum fyrir hreinlætis- og snyrtivörur. (Sjá nánar bls. 114 – 116 í ákvörðuninni).

Þessi ákvörðun var, ásamt öðru, tilefni til opinberrar umræðu um nálgun Samkeppniseftirlitsins við mat á breytingum á samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja. Eftirlitið hefur tekið þátt í þeirri umræðu, sbr. t.d. pistil nr. 2/2017, Samkeppni í breyttum heimi.

 

4)    Önnur atriði

Í viðtalinu er jafnframt gagnrýnt að Samkeppniseftirlitið taki afstöðu til líklegra áhrifa samruna, eins og þó er lagt fyrir eftirlitið að gera samkvæmt samkeppnislögum. Einnig er því ranglega haldið fram að Samkeppniseftirlitið, eða forstjóri þess, hafi gert kröfu um að tilkynnt sé um þau atvik þegar samkeppnisaðilar hittast á förnum vegi.

Þá er látið að því liggja að stjórnendur fyrirtækja óttist samskipti við Samkeppniseftirlitið, þar á meðal hefndaraðgerðir af þess hálfu. Er sú lýsing ekki í samræmi við reynslu Samkeppniseftirlitsins sjálfs af samskiptum við fyrirtæki í landinu. Samkeppniseftirlitið hefur átt góð samskipti við fyrirtæki og kappkostar að svo verði áfram.