6.12.2001

Samkeppnisráð leggur sekt á Landssíma Íslands hf. vegna misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu þess

Samkeppnisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að í samningi Landssíma Íslands við Hafnarfjarðarbæ um síma- og gagnaflutningsþjónustu felist alvarlegt brot Landssímans á samkeppnislögum. Með samningnum hafi fyrirtækið misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Samkeppnisráð hefur gert Landssímanum að greiða 40 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna þessa brots. Eftir breytingar á samkeppnislögum sem tóku gildi fyrir réttu ári er það meginregla að leggja skuli stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga.

Síðastliðið haust áttu sér stað samningaviðræður Landssímans og Hafnarfjarðarbæjar um síma- og gagnaflutningsþjónustu fyrir bæinn. Fjarskiptafélagið Títan hf. hafði áhuga á þessu verkefni og óskaði eftir því að fá að gera tilboð í verkið. Þann 12.desember sendi Títan tilboð en bærinn ákvað að taka tilboði Landssímans og var samningur þar að lútandi undirritaður þann 28. desember 2000. Títan sendi samkeppnisyfirvöldum erindi og taldi að Landssíminn hefði brotið samkeppnislög með þessum samningi.

Samkeppnisráð telur í ákvörðun sinni að gögn málsins gefi skýrt til kynna að Landssíminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með gerð samningsins við Hafnarfjarðarbæ. Fyrirtækið hafi með óeðlilegum aðgerðum náð þessum viðskiptum og skaðað stöðu keppinauta fyrirtækisins. Samningurinn fól m.a. í sér að Hafnarfjarðarbæ væri óheimilt á samningstímanum að eiga viðskipti við aðra en Landssímann um síma- og gagnaflutningsþjónustu. Slík einkaréttarákvæði í samningi markaðsráðandi fyrirtækis fela í sér skýrt brot á samkeppnislögum. Það hefur skaðleg áhrif ef fyrirtæki eins og Landssíminn reyna með þessum hætti að halda keppinautum sínum frá markaðnum. Samkeppni á fjarskiptamarkaðnum er takmörkuð vegna yfirburðastöðu Landssímans og allar frekar hömlur á samkeppni vegna háttsemi Landssímans eru óásættanlegar og andstæðar hagsmunum neytenda.

Fréttatilkynning á PDF formi (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga).