Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Misnotkun Vífilfells hf. á markaðsráðandi stöðu sinni

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 11/2011
  • Dagsetning: 30/3/2011
  • Fyrirtæki:
    • Vífilfell hf
  • Atvinnuvegir:
    • Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
    • Matvörur
  • Málefni:
    • Ólögmætt samráð
    • Markaðsyfirráð
  • Reifun

    Samkeppniseftirlitið leggur 260 m.kr. stjórnvaldssekt á Vífilfell vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum

    Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu í nýrri ákvörðun sinni að Vífilfell hf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á gosdrykkjamarkaði og brotið þannig gegn bannákvæðum samkeppnislaga. Þetta gerði fyrirtækið með því að gera fjölmarga einkakaupasamninga við viðskiptavini sína. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við samninga þar sem Vífilfell skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa gosdrykki einungis af félaginu. Einkakaupasamningar eru ólögmætir þegar markaðsráðandi fyrirtæki á í hlut. Leggur Samkeppniseftirlitið 260 m.kr. stjórnvaldssekt á Vífilfell.

    Vífilfell í markaðsráðandi stöðu
    Í 11. gr. samkeppnislaga er lagt bann við hverskonar misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Til þess að þetta ákvæði eigi við verður að skilgreina samkeppnismarkað í viðkomandi máli og meta stöðu fyrirtækja á honum. Þar sem Vífilfell hélt því fram að fyrirtækið væri ekki markaðsráðandi þurfti í málinu að taka þetta atriði til ítarlegrar skoðunar. Samkeppniseftirlitið féllst ekki á þau rök Vífilfells að gosdrykkir teljist tilheyra sama markaði og t.d. mjólkurdrykkir, safar eða aðrir óáfengir drykkir. Í málinu var skoðuð markaðshlutdeild Vífilfells og eina keppinautarins (Ölgerð Egils Skallagrímssonar) á gosdrykkjamarkaði á fjögurra ára tímabili. Reyndist Vífilfell hafa yfirburði í markaðshlutdeild (um 70-75% hlutdeild). Í ljósi þessarrar hlutdeildar og með vísan til annarra yfirburða félagsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að Vífilfell hafi verið í markaðsráðandi stöðu.

    Brot Vífilfells
    Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Vífilfell hafi gert hundruð ólögmætra samninga við viðskiptavini sína sem fólu í sér einkakaup. Samningar þessir voru við matvöruverslanir, veitingastaði, söluturna og aðra endurseljendur á gosdrykkjum. Með einkakaupum í þessu samhengi er átt við viðskiptasamninga þar sem Vífilfell skuldbatt viðskiptavini sína til þess að kaupa gosdrykki einungis af félaginu. Vífilfell beitti einnig samkeppnishamlandi afsláttarákvæðum til að tryggja enn frekar að viðskiptavinir ættu ekki viðskipti við núverandi eða mögulega keppinauta félagsins á gosdrykkjamarkaðnum.

    Samningar af þessum toga eru til þess fallnir að hindra að keppinautar markaðsráðandi fyrirtækis nái að vaxa og dafna. Jafnframt vinna slíkir samningar gegn því að nýir keppinautar nái fótfestu á markaðnum og efli þar með samkeppni. Slíkir samningar styrkja því eða viðhalda markaðsráðandi stöðu og raska þar með samkeppni. Er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gerð grein fyrir fjölmörgum samningum Vífilfells sem Samkeppniseftirlitið telur að hafi farið að þessu leyti gegn 11. gr. samkeppnislaga.

    Viðurlög
    Með vísan til m.a. umfangs og eðlis brotanna telur Samkeppniseftirlitið í ákvörðun sinni að sekt að fjárhæð 260 m.kr. sé hæfileg.

    Bakgrunnsupplýsingar
    Á árinu 2007 hóf Samkeppniseftirlitið almenna athugun á samningum birgja og viðskiptavina þeirra á matvörumarkaði. Beindist sú gagnaöflun að um 70 birgjum, þ.m.t. Vífilfelli. Þessi athugun leiddi til þess að í maí 2008 gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu nr. 1/2008, Viðskiptasamningar birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði. Í skýrslunni voru m.a. áréttuð þau sjónarmið samkeppnisréttarins að markaðsráðandi fyrirtæki, þ.m.t. birgjar, geti brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með gerð samninga sem innihalda tryggðarákvæði og ákvæði um einkakaup. Var þeim tilmælum beint til m.a. birgja að tryggja að í samningum þeirra fælust ekki samkeppnishamlandi ákvæði. Einnig var tekið fram í skýrslunni að Samkeppniseftirlitið myndi í sérstökum stjórnsýslumálum taka afstöðu til þess hvort tiltekin fyrirtæki hefðu brotið gegn samkeppnislögum. Það hefur nú verið gert varðandi samninga Vífilfells.