9.10.2014

Dómur Hæstaréttar í Vífilfellsmálinu

Ekki nægilega rannsakað hvort kolsýrðir vatnsdrykkir séu á sama markaði og gosdrykkir

Mynd af gosglasiMeð ákvörðun nr. 11/2011 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðuað Vífilfell hf. hefði brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á gosdrykkjamarkaði. Um var að ræða tæplega 900 samninga Vífilfells við viðskiptavini (veitingahús og verslanir) er innihéldu ákvæði um einkakaup, skilyrta afslætti og önnur tryggðarákvæði. Taldi Samkeppniseftirlitið að fyrirtækið væri með þessum hætti að útiloka samkeppni. Vífilfell skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði sínum frá október 2011 staðfestiáfrýjunarnefnd þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Vífilfell hefði framið brot á samkeppnislögum en lækkaði álagaða sekt á fyrirtækið. Vífilfell skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla.

Við mat á því hvort fyrirtæki telst vera markaðsráðandi skv. samkeppnislögum ber að skilgreina viðkomandi markað. Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd töldu markað málsins taka til sölu á gosdrykkjum. Vífilfell hélt því hins vegar fram að markaðurinn sé víðtækari og taki til allra óáfengra drykkja eins og t.d. mjólkurdrykkja, kaffis, ávaxtasafa, orkudrykkja, gosdrykkja o.fl.

Í dómi frá nóvember 2013 féllst héraðsdómur Reykjavíkur ekki á það með Vífilfelli að markaðurinn væri að þessu leyti svo víður. Hins vegar taldi dómurinn að ekki hefði verið rannsakað nægjanlega vel hvort kolsýrðir vatnsdrykkir væru á sama markaði og gosdrykkir. Því lægi að mati dómsins ekki ljóst fyrir að Vífilfell væri markaðsráðandi. Sökum þessa felldi dómurinn úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála úr gildi.

Samkeppniseftirlitið hefur byggt á því að fullnægjandi rannsókn hafi legið til grundvallar fyrrgreindri skilgreiningu á markaðnum, enda hafi eftirlitið aflað gagna hjá helstu markaðsaðilum, lagt mat á þau gögn og tekið afstöðu til sjónarmiða. M.a. hefur Samkeppniseftirlitið stutt niðurstöðu sína innlendum og erlendum fordæmum og vísað til gagna frá markaðsaðilunum sjálfum, niðurstöðu sinni til stuðnings.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem í dag kvað upp sinn dóm. Tekur Hæstiréttur undir það mat að möguleg staðganga gos- og vatnsdrykkja hafi ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti og staðfesti dóm héraðsdóms.

Samkeppniseftirlitið mun yfirfara forsendur dóms Hæstaréttar Íslands. Mikilvægt er fyrir þróun samkeppni á drykkjarvörumörkuðum að úr því fáist skorið hvort þeir starfshættir sem um er deilt í málinu standist samkeppnislög. Þar sem efnisdómur fékkst ekki í málinu liggur fyrir Samkeppniseftirlitinu að taka ákvörðun um hvernig við því verði brugðist. Getur komið til álita að fram fari ný rannsókn á aðgerðum Vífilfells.