Leit í úrlausnum: sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér fyrir neðan.

Ákvarðanir

Yfirtaka Arion banka, NBI, Íslandsbanka, Haf funding og Glitnis á Reitum

  • Sækja skjal
  • Málsnúmer: 15/2010
  • Dagsetning: 30/4/2010
  • Fyrirtæki:
    • Arion banki
    • Glitnir
    • Haf funding
    • Reitir
  • Atvinnuvegir:
    • Sérfræðiþjónusta og önnur þjónusta
    • Fasteignasala
  • Málefni:
    • Samrunamál
  • Reifun

    Arion banki, NBI, Íslandsbanki, Haf Funding, Glitnir og Byr tilkynntu Samkeppniseftirlitinu að félögin hefðu öðlast sameiginleg yfirráð yfir Reitum fasteignafélagi. Reitir eru stærsta fasteignafélag landsins. Hefur félagið veruleg umsvif víða um land. Viðskiptabankarnir þrír sem að yfirtökunni standa hafa háa markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði hver fyrir sig. Með samrunanum færist stór hluti markaðarins fyrir útleigu á verslunar- og atvinnuhúsnæði undir yfirráð viðskiptabankanna og fleiri félaga. Þar sem fasteignafélög reiða sig gjarnan verulega á lánsfé við fjármögnun, þ.e. eiginfjárhlutfall þeirra er jafnan lágt, skapa þessi tengsl verulega hættu á því að samkeppni sé raskað.

    Strax í kjölfar bankahrunsins, eða í nóvember 2008, beindi Samkeppniseftirlitið tíu meginreglum um samkeppni til banka í eigu ríkisins, sem eftirlitið taldi að hafa þyrfti hliðsjón af við endurskipulagningu fyrirtækja (sjá álit nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum).

    Í desember sl. birti Samkeppniseftirlitið umræðuskjal nr. 2/2009, Bankar og endurskipulagning fyrirtækja, en þar er fjallað um skuldavanda íslenskra fyrirtækja og samkeppnisleg álitaefni tengd honum. Kallaði Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum ýmissa hagsmunaaðila um umræðuskjalið, sem nýst hafa við þá íhlutun í starfsemi banka sem hér er kynnt.

    Úrskurður áfrýjunarnefndar nr. 18/2009, Síminn gegn Samkeppniseftirlitinu, sem féll í lok janúar á þessu ári, hafði einnig mikla þýðingu við úrlausn málsins. Samkvæmt úrskurðinum hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að setja yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum skilyrði, enda þótt yfirtakan feli ekki í sér skörun á mörkuðum eða markaðsráðandi stöðu. Taldi áfrýjunarnefndin að óvenjulegar aðstæður í atvinnulífinu kölluðu á þessa heimild.

    Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirtakan raski samkeppni og að nauðsynlegt sé að setja samrunanum skilyrði. Féllust samrunaaðilar á að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðuninni.

    Á meðal skilyrða má nefna að lögð er sú skylda á hluthafana að selja Reiti innan tilskilins tíma. Jafnframt er mælt fyrir um ýmis skilyrði sem ætlað er að koma í veg fyrir mögulega samhæfingu í viðskiptastefnu atvinnufyrirtækja undir yfirráðum hluthafanna og tryggja að þau starfi áfram sem sjálfstæðir keppinautar á markaði.

    Samkeppniseftirlitið hefur áður fjallað um mál þar sem sambærileg skilyrði eru sett. Er m.a. fjallað nánar um þau í fréttatilkynningu., dags. 31. mars sl.