Samkeppniseftirlitið setur bönkum skilyrði vegna yfirtöku á fyrirtækjum
Með þremur ákvörðunum sem birtar eru í dag, setur Samkeppniseftirlitið bönkum ítarleg skilyrði vegna yfirtöku þeirra á fyrirtækjum sem starfa á mikilvægum samkeppnismörkuðum. Eru skilyrðin sett til að draga úr samkeppnisröskun sem stafað getur af eignarhaldi banka á viðkomandi fyrirtækjum.
- Þær ákvarðanir sem birtar eru í dag varða yfirtöku Landsbankans (Eignarhaldsfélagsins Vestia ehf.) á Teymi, sbr. ákvörðun nr. 7/2010
- Íslandsbanka á Ingvari Helgasyni og Bifreiðum og landbúnaðarvélum, sbr. ákvörðun nr. 8/2010
- og Arion banka á Högum, sbr. ákvörðun nr. 6/2010
Strax í kjölfar bankahrunsins, eða í nóvember 2008, beindi Samkeppniseftirlitið tíu meginreglum um samkeppni til banka í eigu ríkisins, sem eftirlitið taldi að hafa þyrfti hliðsjón af við endurskipulagningu fyrirtækja (sjá álit nr. 3/2008, Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum).
Í desember sl. birti Samkeppniseftirlitið umræðuskjal nr. 2/2009, Bankar og endurskipulagning fyrirtækja, en þar er fjallað um skuldavanda íslenskra fyrirtækja og samkeppnisleg álitaefni tengd honum. Kallaði Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum ýmissa hagsmunaaðila um umræðuskjalið, sem nýst hafa við þá íhlutun í starfsemi banka sem hér er kynnt.
Úrskurður áfrýjunarnefndar nr. 18/2009, Síminn gegn Samkeppniseftirlitinu, sem féll í lok janúar á þessu ári, hafði einnig mikla þýðingu við úrlausn framangreindra mála. Samkvæmt úrskurðinum hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að setja yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum skilyrði, enda þótt yfirtakan feli ekki í sér skörun á mörkuðum eða markaðsráðandi stöðu. Taldi áfrýjunarnefndin að óvenjulegar aðstæður í atvinnulífinu kölluðu á þessa heimild.
Við vinnslu framangreindra ákvarðana hefur einnig verið höfð hliðsjón af ýmsum kvörtunum og ábendingum sem Samkeppniseftirlitinu hafa borist.
Skilyrði banka vegna yfirtöku fyrirtækja
Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að framangreindar yfirtökur raski samkeppni og að nauðsynlegt sé því að setja þeim skilyrði sem ætlað er að vinna gegn þeirri röskun. Hafa bankarnir fallist á að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fram í viðkomandi ákvörðunum.
Helstu skilyrði eru eftirfarandi:
- Selja skal viðkomandi atvinnufyrirtæki innan tiltekins tíma. Setja verður eignarhaldi banka á atvinnufyrirtækjum þröngar tímaskorður í því skyni að takmarka samkeppnisröskun, að teknu tilliti til hagsmuna bankans af því að hafa eðlilegt svigrúm til þess að auka eða viðhalda verðmæti þeirra eigna sem um ræðir. Sölufrestir eru mismunandi eftir aðstæðum í hverju máli. Um þá ríkir trúnaður, enda geta slíkir tímafrestir, ef opinberir væru, haft óeðlileg áhrif á söluferli og söluverð.
- Tryggja skal að yfirtekin fyrirtæki starfi sem sjálfstæðir keppinautar á markaði. Þetta skal m.a. gert með því að fela sjálfstæðu eignarhaldsfélagi hvers banka rekstur viðkomandi fyrirtækja. Skal eignarhaldsfélag staðsett utan viðkomandi banka og rekið sem sjálfstætt félag. Ennfremur eru sett skilyrði um stjórnarsetu í viðkomandi eignarhaldsfélögum og atvinnufyrirtækjunum sjálfum. M.a. skal meirihluti stjórnarmanna í eignarhaldsfélögum eða atvinnufyrirtækjum vera óháður bönkunum.
- Setja skal viðkomandi atvinnufyrirtækjum eðlilegar arðsemiskröfur. Þetta er mikilvægt til þess að vinna gegn því að bankar sjái sér hag í því að auka virði yfirtekinna fyrirtækja með því að fjármagna undirboð eða auka markaðssókn og stækka þar með markaðshlutdeild viðkomandi fyrirtækja. Þessum skilyrðum er einnig ætlað að takmarka hættu á að stjórnendur og starfsmenn hinna yfirteknu fyrirtækja líti á eignarhald banka sem vernd gegn hvers konar áföllum (e. moral hazard).
- Bönkunum er óheimilt að hlutast til um viðskipti milli hinna yfirteknu fyrirtækja og annarra fyrirtækja sem bankarnir eiga hluti í. Þannig er spornað gegn því að yfirtekið fyrirtæki og önnur fyrirtæki tengd viðkomandi banka beini viðskiptum sínum hvert til annars, án þess að eðlilegar forsendur um viðskiptakjör liggi til grundvallar.
- Bönkunum er óheimilt að hlutast til um viðskipti milli hinna yfirteknu fyrirtækja og viðskiptavina bankanna. Jafnframt skal tryggja að sömu aðilar innan hvers banka séu ekki viðskiptastjórar annars vegar yfirtekinna fyrirtækja og hins vegar viðskiptavina eða keppinauta hinna yfirteknu fyrirtækja. Þá skal tryggja að viðkvæmar upplýsingar berist ekki á milli þessara fyrirtækja.
- Birta skal ársuppgjör og hálfsársuppgjör yfirtekinna fyrirtækja opinberlega. Jafnframt skal birta margvíslegar upplýsingar um starfsemi eignarhaldsfélaga og hinna yfirteknu fyrirtækja, auk upplýsinga um framkvæmd skilyrðanna. Þetta er gert til að tryggja gegnsæi í rekstri fyrirtækjanna.
- Tryggja skal ítarlegt og viðvarandi eftirlit innan bankanna með framkvæmd skilyrðanna, ásamt reglulegri skýrslugjöf til Samkeppniseftirlitsins. Ber bönkunum að tryggja að óháður aðili innan hvers banka geti með trúverðugum hætti fylgst með því að farið sé eftir skilyrðunum. Skal t.d. tryggt að eftirlitsaðilinn geti aflað sér utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar telji hann þörf á. Þetta eftirlit er til viðbótar við almennt eftirlit sem Samkeppniseftirlitið hefur með því að fyrirtæki fari eftir samkeppnislögum og settum skilyrðum.
Nánar er fjallað um framangreind skilyrði og forsendur þeirra í ákvörðunum nr. 6-8/2010, sem birtar eru á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, Jafnframt því sem að framan er rakið fjalla ákvarðanirnar um aðstæður á viðkomandi mörkuðum og útfærslu skilyrða miðað við samkeppnisleg áhrif í hverju máli.