Ákvarðanir
Samruni JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf
- Sækja skjal
- Málsnúmer: 8/2008
- Dagsetning: 5/2/2008
-
Fyrirtæki:
- JPV útgáfa ehf.
- Vegamót ehf
-
Atvinnuvegir:
- Neysluvörur, rekstrarvörur o.fl.
- Bókaútgáfa og sala
-
Málefni:
- Samrunamál
-
Reifun
Samkeppniseftirlitinu var tilkynnt um samruna JPV útgáfu ehf., Máls og menningar – Heimskringlu ehf. og Vegamóta ehf. í lok septembermánaðar 2007. JPV er bókaútgáfa og Mál og menning – Heimskringla og Vegamót voru bæði í eigu Máls og menningar bókmenntafélags, sjálfseignarstofnunar sem hefur haft bókaútgáfu með höndum frá árinu 1937 og var á síðustu árum minnihlutaeigandi í Eddu útgáfu. Undanfari samrunans var sá að Vegamót höfðu keypt bókaútgáfuhluta Eddu útgáfu. Eftir að samrunatilkynningu var skilað gerðu samrunaaðilar þá breytingu Vegamót og JPV töldust vera einu aðilar samrunans. Sú breyting hafði engin efnisleg áhrif í málinu. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hér um að ræða samruna í skilningi 4. og 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og telur stofnunin að samruninn geti verið skaðlegur samkeppni.
Viðræður við samrunaaðila hafa leitt til þess að Forlagið hefur gengist undir sátt í málinu á grundvelli 17. gr. a samkeppnislaga og 22. gr. reglna um málsmeðferð samkeppnisyfirvalda nr. 880/2005. Sáttin felur í sér tuttugu og eitt tölusett skilyrði sem m.a. fjalla um að Forlagið láti frá sér tiltekin útgáfuréttindi, þ.e. réttindi til að gefa út tilteknar bækur og ritsöfn, ásamt birgðum af þessum bókum og ritsöfnum, í því skyni að draga úr markaðsstyrk samrunaaðila gagnvart keppinautum. Þá hefur Forlagið undirgengist ýmis önnur skilyrði sem ætlað er að efla samkeppni og vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans, sbr. nánari sundurliðun í ákvörðunarorði. Þessi skilyrði eru að mati Samkeppniseftirlitsins nægjanleg til þess að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem ella hefðu skapast með samrunanum. Var samruninn samþykktur með skilyrðum þessum.