29.9.2011

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að Forlagið hafi brotið gegn samkeppnislögum og skuli greiða 25. m.kr. sekt

Brýnt að treysta megi því að fyrirtæki virði skilyrði sem sett eru fyrir samrunum og að sáttir í slíkum málum séu meira en orðin tóm

Bok_opinSamkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun nr. 24/2011 frá því í júlí sl. að Forlagið ehf. hefði brotið gegn skilyrðum í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2008. Forlagið varð til árið 2008 með samruna tveggja fyrirtækja, þ.e. JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. Við meðferð samrunamálsins hjá Samkeppniseftirlitinu hafði Forlagið frumkvæði að því að setja fram hugmyndir að skilyrðum sem ryðja myndu úr vegi samkeppnishindrunum sem eftirlitið hafði komið auga á. Sátt náðist í málinu þar sem Forlagið skuldbatt sig til að hlíta tilteknum skilyrðum til að vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans.

Í júlímánuði sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Forlagið hefði brotið gegn þessum skilyrðum. Fólust brotin í því að Forlagið braut gegn banni við því að birta smásöluverð bóka og banni við því að veita bóksölum  afslætti sem fælu í sér óeðlilega mismunun Forlagsins á milli þeirra. Skilyrðum þessum var m.a. ætlað að tryggja að starfsemi hins öfluga nýja útgefanda myndi ekki raska samkeppni í endursölu á bókum. Samkeppniseftirlitið lagði 25 m.kr. stjórnvaldssekt á Forlagið vegna þessara brota.

Forlagið skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Byggði Forlagið m.a. á því að Samkeppniseftilitið hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með málsmeðferð sinni og m.a. farið  gegn stjórnarskrá. Forlagið taldi einnig að forsendur fyrir umræddri sátt væru breyttar þar sem staða þess væri veikari nú en hún var í upphafi. Þá hefðu álagðar sektir verið óhóflegar þar sem meint brot hefðu verið framin af gáleysi.

Áfrýjunarnefnd hefur nú komist að niðurstöðu í málinu og staðfest að Forlagið hafi framið umrædd brot og álögð sekt hafi verið hæfileg. Bendir nefndin á að brýnt sé að Forlagið virði skilyrði sem sett voru fyrir samrunanum og að treysta megi því að sáttir í slíkum málum séu meira en orðin tóm. Þetta eigi ekki síst við í þessu máli þar sem Forlagið hafi sjálft tekið þátt í mótun skilyrðanna. Orð og athafnir Forlagsins bendi til þess að fyrirtækið hafi ekki tekið umrædd skilyrði alvarlega. Segir nefndin að í málum af þessum toga verði álagðar sektir að hafa varnaðaráhrif og tryggja að fyrirtæki fari eftir skilyrðum sem þau hafi heitið að virða.

Sjá nánar úrskurð áfrýjunarnefndar.