10.9.2015

Hæstiréttur staðfestir brot Forlagsins en lækkar sekt

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun í júlí 2011 að Forlagið ehf. hefði brotið gegn skilyrðum í ákvörðun eftirlitsins nr. 8/2008. Forlagið varð til árið 2008 með samruna tveggja fyrirtækja, þ.e. JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. Við meðferð samrunamálsins hjá Samkeppniseftirlitinu hafði Forlagið frumkvæði að því að setja fram hugmyndir að skilyrðum sem ryðja myndu úr vegi samkeppnishindrunum sem eftirlitið hafði komið auga á. Sátt náðist í málinu þar sem Forlagið skuldbatt sig til að hlíta tilteknum skilyrðum til að vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans.

Með ákvörðun nr. 24/2011 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Forlagið hefði brotið gegn þessum skilyrðum. Fólust brotin í því að Forlagið braut gegn banni við birtingu leiðbeinandi endursöluverðs til smásala (14. gr.) og banni við því að veita bóksölum  afslætti sem fælu í sér óeðlilega mismunun Forlagsins á milli þeirra (15. gr.) Skilyrðum þessum var m.a. ætlað að tryggja að Forlagið myndi ekki raska samkeppni í endursölu á bókum. Samkeppniseftirlitið lagði 25.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Forlagið vegna þessara brota.

Forlagið skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.  Í september 2011 staðfesti áfrýjunarnefndin Forlagið hafi framið umrædd brot og álögð sekt hafi verið hæfileg. Forlagið skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og í október 2014 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð áfrýjunarnefndar.

Forlagið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstarréttar sem í dag kvað upp sinn dóm. Hæstiréttur staðfesti að Forlagið hefði brotið gegn banninu við birtingu leiðbeinandi endursöluverðs til smásala (14. gr.). Meirihluti Hæstaréttar (3 dómarar) taldi hins vegar að Forlagið hefði ekki brotið gegn banninu sem tengdist afslætti Forlagsins (15. gr.).

Með hliðsjón af framangreindu voru sektir lækkaðar úr 25.000.000 í 20.000.000 kr. Um þetta segir í dómnum: „Við mat á  sektarfjárhæð verður litið til þess að áfrýjandi braut af ásetningi gegn skilyrði sem hann hafði sjálfur haft frumkvæði að því að yrði sett. Með því ákvæði var honum bannað að hafa nokkur afskipti af söluverði endurseljenda eða birta með neinu móti smásöluverð þeirra á bókum sem hann gæfi út en með því var ætlunin að koma í veg fyrir að samkeppni um smásöluverð bókanna væri hamlað. Ákvæði 15. greinar laut á hinn bóginn að banni við að veita afslátt til endurseljenda nema unnt væri að færa fyrir því óyggjandi kostnaðarleg rök. Eðli máls samkvæmt verður brot á 14. grein ákvörðunarinnar talið alvarlegra en brot gegn 15. grein hennar. Samkvæmt því verður sekt áfrýjanda ákveðin 20.000.000 krónur.“

Tveir dómarar skiluðu sératkvæði. Töldu þeir að einnig ætti að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um brot Forlagsins á 15. gr. ákvörðunar nr. 8/2008 og 25.000.000 kr. sekt.