360 milljarða króna sekt Google staðfest í Lúxemborg
Almenni dómstóll Evrópusambandsins (e. General Court) staðfesti í dag 2,4 milljarða evra sekt sem framkvæmdastjórn ESB lagði á bandaríska tæknifyrirtækið Google árið 2017 fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á EES-svæðinu. Upphæðin nemur ríflega 360 milljörðum króna en Google getur áfrýjað málinu til Evrópudómstólsins, sem er æðsta dómstigið innan Evrópusambandsins. Málið var til rannsóknar í um sjö ár en að auki eru tvö önnur mál tengd Google til rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum í Evrópu.
Málið sem dæmt var í hjá almenna dómstólnum í Lúxemborg í dag snýr að því að Google hafi misnotað aðstöðu sína sem eigandi leitarvélar með yfirburðar markaðsstöðu til að koma á framfæri sínum eigin vefverslunarþjónustum á kostnað minni keppinauta.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brot Google hafi ekki verið jafn alvarleg og kom fram í niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar en engu að síður var sektarfjárhæðin staðfest. Árið 2017 var sektarfjárhæðin, 2,4 milljarðar evra, sú hæsta í sögunni en ári síðar var Google sektað um 4,34 milljarða evra fyrir annað brot. Það mál snerist um samkeppnishamlandi notkun Google á Android-stýrikerfinu í því skyni að verja ráðandi stöðu á leitarvélamarkaðnum.
Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins, undir stjórn Danans Margrethe Vestager, eru með nokkrar rannsóknir í gangi á mögulegum brotum annarra svokallaðra „tæknirisa“ á borð við Amazon, Apple og Facebook. Þá er ný samkeppnislöggjöf, Digital Markets Act, í smíðum innan Evrópusambandsins sem er ætlað að ná betur utan um hinn ört stækkandi stafræna markað. Einnig er sambærileg vinna í gangi hjá yfirvöldum í Danmörku og víðar.