18.6.2019

Advania dregur til baka samrunatilkynningu vegna kaupa félagsins á Wise í kjölfar frummats Samkeppniseftirlitsins um skaðleg áhrif samrunans á samkeppni

Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft til rannsóknar fyrirhuguð kaup Advania hf. á Wise lausnum ehf. Advania er fyrirtæki sem starfar á breiðu sviði upplýsingatækni og er jafnframt eitt stærsta fyrirtækið á sviði fjárhags-, viðskipta- og bókhaldskerfa á Íslandi. Wise er upplýsingatæknifyrirtæki sem starfar einkum á sviði þróunar, sölu og þjónustu við fjárhagskerfið Microsoft Dynamics NAV.

Frummat Samkeppniseftirlitsins benti m.a. til þess að eftir samrunann hefði hið sameinaða fyrirtæki verið með um og yfir helmingshlutdeild á markaði fyrir þróun, sölu og þjónustu við fjárhagskerfi á Íslandi og að samrunaaðilar væru nánir keppinautar. Vegna þess tilkynnti Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum í byrjun þessa mánaðar það frummat sitt að grípa þyrfti til íhlutunar vegna skaðlegra áhrifa samrunans á samkeppni. Nú í dag hafa samrunaaðilar tekið formlega ákvörðun um að draga tilkynningu sína vegna samrunans til baka. Með því er rannsókn eftirlitsins á viðskiptunum lokið.

Samkeppniseftirlitinu barst fullbúin samrunatilkynning um kaup Advania á Wise þann 13. febrúar 2019. Við meðferð málsins aflaði Samkeppniseftirlitið sjónarmiða frá markaðsaðilum og nánari upplýsinga frá samrunaaðilum, framkvæmdi athugun á meðal markaðsaðila og könnun á meðal viðskiptavina samrunaaðila. Bentu niðurstöður rannsóknarinnar til þess að starfsemi fyrirtækjanna skaraðist einkum á sviði þróunar, sölu og þjónustu svokallaðra fjárhagskerfa sem í daglegu tali eru oftast nefnd bókhaldskerfi. Bentu niðurstöðurnar jafnframt sterklega til þess að landfræðilegur markaður málsins væri Ísland, m.a. vegna eðlis þjónustunnar og krafna viðskiptavina. Þá bentu samtímagögn sem aflað var frá samrunaaðilum til sömu niðurstöðu.

Samkeppniseftirlitið aflaði upplýsinga um markaðshlutdeild fyrirtækja sem selja fjárhagskerfi á Íslandi. Þær tölur gáfu til kynna að sameinað fyrirtæki hefði haft umtalsverða yfirburði umfram keppinauta sína eða um og yfir helmingshlutdeild eftir því við hvaða markaðsskilgreiningu væri miðað. Þá hefði samþjöppun á mörkuðum málsins einnig aukist umtalsvert vegna samrunans og umfram þau viðmiðunarmörk sem litið er til við samrunaeftirlit. Var það jafnframt frummat Samkeppniseftirlitsins að samrunaaðilar hafi verið nánir keppinautar hvors annars hingað til. Þannig veita þeir sambærilega þjónustu, t.a.m. selja þeir báðir fjárhagskerfið Microsoft Dynamics NAV, og tilfærsluhlutföll viðskiptavina á milli þeirra eru há. Þannig lítur stór hluti viðskiptavina samrunaaðila á hitt fyrirtækið sem sinn næsta kost við val á fjárhagskerfi. Samtímagögn sem aflað var frá samrunaaðilum studdu jafnframt þetta frummat. Loks var það frummat Samkeppniseftirlitsins að Wise hafi verið mikilvægur keppinautur á sviði sölu fjárhagskerfa og að við samrunann hefði það samkeppnislega aðhald sem fyrirtækið hefur veitt Advania og öðrum keppinautum horfið.

Líkt og áður segir kynnti Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum þetta frummat í upphafi mánaðarins, n.t.t. með andmælaskjali, dags. 4. júní 2019. Undir lok rannsóknar málsins óskuðu samrunaaðilar eftir viðræðum um skilyrði sem unnt væri að setja samrunanum til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif hans á samkeppni. Var um að ræða hegðunarskilyrði sem að frummati Samkeppniseftirlitsins nægðu ekki til þess að koma í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans.