2.12.2024

Alvarlegt samráðsmál og samrunar í forgrunni

  • Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins 2023 er nú komin á vefinn
  • Fjölbreytt verkefni eftirlitsins eru rakin í skýrslunni
  • Samkeppniseftirlitið þarf meiri stuðning til að sinna hlutverki sínu og ná árangri

Ársskýrsla Samkeppniseftirlitsins fyrir 2023 liggur nú fyrir. Í skýrslunni er starf eftirlitsins á árinu reifað á ítarlegan hátt og er m.a. farið yfir tölulegar upplýsingar, rannsóknir og verkefni á árinu, málsvarahlutverk eftirlitsins auk þess eru birtar áherslur næstu ára, yfirlit yfir stjórnvaldssektir og margt fleira fróðlegt. Í skýrslunni má sömuleiðis finna áhugaverða fróðleiksmola um hlutverk og ávinning eftirlits og hvað virkt samkeppniseftirlit gerir í raun og veru í þágu neytenda.

“Árið 2023 markaðist af lokahnykknum í einni umfangsmestu rannsókn sem Samkeppniseftirlitið hefur framkvæmt, þ.e. samkeppnislagabroti Samskipa vegna ólöglegs samráðs við Eimskip. Stjórnvöld og fyrirtæki verða að leggjast á eitt að skapa aðstæður fyrir virka samkeppni á þessum mikilvæga markaði”, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Í skýrslunni er leitast við að koma fram með upplýsingar á einfaldan og gagnsæjan hátt en í henni má finna fjölda hlekkja og þannig hægt að kafa dýpra í vissa þætti. Meðal þess sem sést er að heildarfjöldi samrunamála á árinu voru 42 samanborið við 30 árinu áður, á sama tíma og hærra hlutfalli mála lauk á fyrsta stigi rannsóknar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri - s. 585 0700