Búvörulög – Undanþágur fyrir kjötafurðastöðvar hafa ekki lagagildi
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag er komist að þeirri niðurstöðu að nýlegar undanþágur frá samkeppnislögum, sem heimila kjötafurðastöðvum samráð og samruna sín á milli, stríði gegn stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands og hafi því ekki lagagildi. Undanþágur búvörulaga komi því ekki í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið taki til meðferðar kvörtun þar sem þess er krafist að eftirlitið stöðvi samráð og sameiningar á vettvangi kjötafurðastöðva.
Samkeppniseftirlitið mun á næstu dögum gera grein fyrir aðgerðum þess vegna dómsins.
Dómurinn er aðgengilegur hér.
Bakgrunnsupplýsingar:
Í mars síðastliðnum voru samþykktar sem lög frá Alþingi (nr. 30/2024) breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, þar sem kjötafurðastöðvum var heimilað að eiga með sér samráð og sameinast þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Á grundvelli þessara undanþáguheimilda hefur KS m.a. yfirtekið Kjarnafæði Norðlenska og í fjölmiðlum hefur nýlega verið greint frá mögulegum kaupum félagsins á B. Jensen, sem rekur sláturhús og kjötvinnslu.
Þann 8. júlí sl., beindi Innnes ehf. þeirri kröfu til Samkeppniseftirlitsins að eftirlitið gripi til íhlutunar gagnvart kjötafurðastöðvum sem hefðu í hyggju að sameinast eða hafa með sér samráð á grundvelli undanþáguheimildanna. Byggði Innnes á því að Samkeppniseftirlitið væri óbundið af nýsettum undanþáguheimildum þar sem þær gangi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Meðal annars var á því byggt að lög nr. 30/2024 hefðu ekki fengið fullnægjandi meðferð fyrir þinginu, en skv. 44. gr. stjórnarskrárinnar skulu lagafrumvörp fá þrjár umræður á Alþingi.
Samkeppniseftirlitið taldi óhjákvæmilegt að hafna kröfu Innness, á þeim forsendum að það væri ekki á valdssviði þess að leggja mat á stjórnskipulegt gildi laga. Því teldi eftirlitið sig bundið af umræddum undanþáguheimildum búvörulaga. Hafnaði eftirlitið því að taka erindi Innness til meðferðar, sbr. bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 26. júlí 2024.
Innness stefndi Samkeppniseftirlitinu fyrir héraðsdóm, þar sem þess var krafist að ákvörðun eftirlitsins yrði felld úr gildi.
Tilkynningin var uppfærð 19. nóvember 2024