14.10.2024

Eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir fyrirvaralausa athugun

  • Mynd-siminn

Samkeppniseftirlitið getur staðfest að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf í dag fyrirvaralausa athugun sem tengist afmörkuðum smásölumarkaði á Íslandi. Eru aðgerðirnar liður í rannsókn eftirlitsstofnunarinnar á því hvort að brotið hafi verið gegn samkeppnisreglum EES-samningsins. Samkeppniseftirlitið aðstoðar við aðgerðirnar.

Fréttatilkynning Eftirlitsstofnunar EFTA, frá því fyrr í dag er aðgengileg hér.

Á þessu stigi veitir Samkeppniseftirlitið ekki frekari upplýsingar og er öllum fyrirspurnum vísað til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkvæmt 21. gr. samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskum dómstólum falið það hlutverk að beita banni 53. og 54. gr. EES-samningsins við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í samræmi við þetta hafa íslensk samkeppnisyfirvöld ítrekað rannsakað brot og e.a. gripið til íhlutunar vegna brota á samkeppnisreglum EES-samningsins, samhliða íhlutun vegna brota á íslenskum samkeppnislögum. Við rannsókn og ákvarðanir í slíkum málum hefur Samkeppniseftirlitið samráð og samstarf við ESA, samkvæmt reglum sem um þetta gilda á evrópska efnahagssvæðinu.

Til viðbótar framangreindu hefur ESA sjálfstæða heimild til að framfylgja samkeppnisreglum EES-samningsins hér á landi. Samkvæmt 22. gr. samkeppnislaga er ESA m.a. heimilt að framkvæma fyrirvaralausar athuganir hér á landi í samræmi við nánari reglur sem um það gilda. Ber íslenskum stjórnvöldum að veita ESA aðstoð við slíkar rannsóknir.

ESA hefur beitt þessari heimild í allmörgum málum er varða háttsemi norskra fyrirtækja, sbr. t.d. dóm EFTA-dómstólsins í máli E-12/20, Telenor ASA og Telenor Norge AS gegn Eftirlitsstofnun EFTA.

Með aðgerðunum í dag er ESA í fyrsta sinn að framkvæma fyrirvaralausa athugun á fyrirtæki hér á landi.