12.12.2023

Fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins hafa ekki haldið í við þróun verkefnaumfangs

Greining birt í umræðuskjali 3/2023

  • Fjarframlog

Fjárframlög til samkeppnismála hér á landi hafa verið til umræðu undanfarna mánuði og þá sérstaklega í tengslum við fjárlög 2024. Í tilefni þess hefur Samkeppniseftirlitið unnið greiningu á þróun fjárframlaga til stofnunarinnar og sett hana í samhengi við þróun launakostnaðar, vísitölu neysluverðs, vergrar landsframleiðslu og fjölda fyrirtækja á Íslandi frá 2014-2024. 

Þá er einnig fjallað um fjölda unninna ársverka hjá stofnuninni og þróun þeirra yfir tíma eftir meginverkefnum, í samanburði við verkefnaumfang sem helgast fyrst og fremst af þróun atvinnulífs á Íslandi.

Greiningin hefur nú verið birt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins sem umræðuskjal nr. 3/2023.

Helstu niðurstöður greiningarinnar eru eftirfarandi:

  • Fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins hafa lækkað, á föstu verðlagi, um 20% frá árinu 2014 til 2024 á meðan umsvif í efnahagslífinu hafa aukist um 35-40%.
  • Fjárframlög til eftirlitsins árið 2024 væru um 1 milljarður króna ef þau hefðu fylgt breytingum á umsvifum í efnahagslífinu frá árinu 2014 (í stað 582 milljóna króna framlags samkvæmt fjárlagafrumvarpi). Ef miðað væri við að þau hefðu haldist óbreytt á föstu verðlagi frá árinu 2014 væru þau um 723 milljónir króna.
  • Vægi samrunamála hefur aukist verulega síðastliðin ár, bæði vegna umfangsmikilla samruna og aukinnar áherslu á hagfræðilega greiningu. Vegna lögbundinna tímafresta þarf ávallt að forgangsraða rannsóknum á samrunum fram yfir önnur verkefni. Aukið álag vegna rannsókna samrunamála samsvarar aukningu um 3-4 ársverk og virðist breytingin vera varanleg.
  • Á árunum 2019-2022 hafa rannsóknir á ólögmætu samráði og samkeppnishamlandi samrunum tekið mestan tíma eftirlitsins eða sem samsvarar 14 ársverkum að meðaltali.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppniseftirlitið veitti fjárlaganefnd Alþingis umsögn um frumvarp til fjárlaga með bréfi dagsettu 14. nóvember 2023. Umsögninni fylgdi minnisblað, Fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins – Þarfagreining og þróun, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir ráðstöfun mannafla síðastliðin ár og lagt mat á þann mannafla sem eftirlitið þurfi að hafa til þess að geta sinnt lögmætu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

Í umsögninni og minnisblaðinu er einnig fjallað um þróun fjárheimilda Samkeppniseftirlitsins á árunum 2014 til 2024.

Þann 8. desember 2023 sendi Samkeppniseftirlitið síðan viðbótarumsögn vegna fjárlagafrumvarpsins, þar sem þess var farið á leit við nefndina að fjárframlög til eftirlitsins yrðu tekin til frekari umfjöllunar þegar frumvarpið kæmi að nýju til nefndarinnar eftir 2. umræðu.