3.2.2021

Forgangsröðun mála hjá Samkeppniseftirlitinu

Á undanförnum vikum hefur tilkynningum um samruna fyrirtækja fjölgað hratt og í dag eru til meðferðar samrunamál sem samsvara rúmlega helmingi allra þeirra samrunamála sem lokið var með rannsókn á árinu 2020. Að auki er í mörgum tilvikum um að ræða samruna fyrirtækja á mörkuðum sem skipta miklu máli fyrir almenning og efnahagslífið. Þannig hafa verið eða munu verða til rannsóknar samrunar sem varða ferðaþjónustu, matvörumarkað, lyfjamarkað, eldsneytismarkað o.fl.

Rannsóknir samrunamála njóta forgangs þar sem þau eru háð lögbundnum tímafrestum. Annir við meðferð þeirra geta því haft veruleg áhrif á meðferð annarra mála hjá eftirlitinu.

Auk samrunamála mun Samkeppniseftirlitið á næstunni þurfa að leggja áherslu á afgreiðslu mála sem varða viðbrögð við efnahagsvá tengdri COVID-19 og aðrar brýnustu rannsóknir samkvæmt forgangsröðun eftirlitsins.

Ábendingar fremur en erindi

Þrátt fyrir framangreindar annir er afar mikilvægt að fyrirtæki og aðilar á markaði haldi áfram að láta Samkeppniseftirlitið vita af vísbendingum um brot á samkeppnislögum og öðrum samkeppnishindrunum. Er slíkum aðilum ráðlagt að senda eftirlitinu ábendingu fremur en fullbúið erindi. Á grundvelli ábendingarinnar geta viðkomandi síðan leitað frekari upplýsinga um hvort líkur séu á að erindi vegna málsins verði tekið til meðferðar og þá hvenær.

Tilkynning um tafir og endurmat á forgangsröðun

Samkeppniseftirlitið mun endurmeta forgangsröðun mála og eftir atvikum tilefni yfirstandandi mála, sbr. áðurgreindar heimildir 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga. Aðilum mála, sem nú eru í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu, verður gerð grein fyrir töfum vegna framangreinds, eftir því sem tilefni er til. Að öllu óbreyttu gerir Samkeppniseftirlitið ráð fyrir að framangreint taki til fyrri hluta þessa árs þó nokkur óvissa sé uppi varðandi framgang heilsuvárinnar af völdum COVID-19.