3.7.2024

Forgangsröðun verkefna

Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið þurft að grípa til tiltektar í stjórnsýslumálum og aðgerða til að laga starfsemi sína að fjárheimildum eftirlitsins sem hafa undanfarin ár ekki haldist í hendur við aukin umsvif í efnahagslífinu. Hluti af þeim aðgerðum hefur falist í lokun mála án endanlegrar niðurstöðu.

Í því felst að aðilar mála fá tilkynningu um lok þeirra þar sem þau eru felld niður án þess að rannsókn sé lokið að fullu og án afstöðu til mögulegrar íhlutunar. Með þessu og annarri forgangsröðun hefur Samkeppniseftirlitið fækkað verulega málum og fyrirhugað er að loka fleiri málum með þessum hætti á komandi mánuðum.

Í þessum aðgerðum felst ekki að eftirlitið taki ekki nýjar athuganir upp eða haldi ekki áfram meðferð mála sem ólokið er. Aðgerðirnar fela það hins vegar í sér að verið er að sníða stakk eftirlitsins að þeim fjárframlögum sem það nýtur, en eftirlitið hefur gert ráðuneyti samkeppnismála og Alþingi grein fyrir því að rekstrarsvigrúm stofnunarinnar sé ófullnægjandi.

Nánar um heimildir til þess að forgangsraða og ljúka málum án niðurstöðu

Í samkeppnislögum eru Samkeppniseftirlitinu fengnar heimildir til að stýra nýtingu þess mannafla og fjármuna sem það hefur yfir að ráða, sbr. 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga. Hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfest heimild eftirlitsins til þess að meta tilefni rannsókna og forgangsraða málum að öðru leyti.

Í 2. mgr. 9. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, eru í dæmaskyni talin upp atriði sem áhrif geta haft á mat á tilefni rannsóknar. Þau sjónarmið hafa þýðingu við mat á forgangsröðun mála.

Við lokun mála hefur Samkeppniseftirlitið, þegar við á, sett fram tilmæli og leiðbeiningar sem stuðla að því að dregið sé úr samkeppnishindrunum í viðkomandi starfsemi.

Taka ber fram að samrunamál hafa sérstöðu við forgangsröðun, vegna lögbundinna tímafresta. Athuganir á þeim geta þó einnig tafist, sbr. nýlega tilkynningu á heimasíðu eftirlitsins.

Aðilar sem fá ekki úrlausn erinda sinna geta látið reyna á þá niðurstöðu fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Ófullnægjandi rekstrarsvigrúm

Í umræðuskjali nr. 3/2023, er fjallað um fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Þar kemur m.a. fram að fjárframlög til eftirlitsins hafa lækkað um 20% á föstu verðlagi á milli áranna 2014 til 2024 á sama tíma og umsvif í efnahagslífinu hafi aukist um 35-40%.

Samkeppniseftirlitið hefur opinberlega gert grein fyrir því að verkefnaálag og ófullnægjandi fjárheimildir geri eftirlitinu erfitt um vik að sinna lögbundnum skyldum sínum, sbr. m.a. umsögn Samkeppniseftirlitsins til fjárlaganefndar, dags. 14. nóvember 2023. Umsögninni fylgdi m.a. mat Samkeppniseftirlitsins á mannaflaþörf. Einnig má vísa til nýlegrar umsagnar til fjárlaganefndar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029, dags. 17. maí sl.

Framangreind lokun mála er óhjákvæmileg og er liður í aðgerðum vegna þeirrar stöðu sem hér hefur verið lýst.