23.1.2019

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sektar Mastercard um 571 milljón evra fyrir brot gegn samkeppnisreglum.

Með ákvörðun sinni í gær komst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þeirri niðurstöðu að kreditkortafyrirtækið Mastercard hafi brotið gegn samkeppnisreglum ESB- og EES-réttar. Var Mastercard í kjölfarið sektað um tæplega 571 milljón evra – tæplega 78,5 milljarða íslenskra króna. Rannsókn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hófst árið 2013 og lauk nú í byrjun árs 2019. Samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafði Mastercard með skilmálum sínum, m.a. hindrað samkeppni, með ólögmætum hætti, með því að koma í veg fyrir að fyrirtæki gætu leitað eftir lægri þjónustugjöldum í öðrum aðildarríkjum (sjá skýringamynd hér að neðan).

 Við ákvörðun sektar var tekið tillit til þess að fyrirsvarsmenn Mastercard reyndust samstarfsfúsir á seinni stigum málsins, með því að staðfesta málsatvik og gangast við brotum á samkeppnisreglum ESB- og EES-réttar.

Heimild – heimasíða framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins 

Ákvörðunin, án trúnaðarupplýsinga, verður birt á heimasíðu framkvæmdarstjórnarinnar innan skamms. Frekari upplýsingar má finna í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.