Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setur samruna á markaði fyrir hurðir skilyrði, sem hafa áhrif hér á landi
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur í dag samþykkt fyrirhugaðan samruna Assa Abloy og Agta Record með skilyrðum. Félögin tvö framleiða m.a. sjálfvirkar hurðir, t.a.m. snúningshurðir/hringhurðir og rennihurðir, og varahluti fyrir slíkar hurðir.
Rannsókn Framkvæmdastjórnar ESB leiddi í ljós að umræddur samruni gæti falið í talsverða röskun á samkeppni á markaði fyrir sjálfvirkar hurðir og tengdum mörkuðum. Væri samruninn til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á samkeppni sem myndi á endanum leiða til hærra verðs fyrir heildsala og endanlega neytendur.
Til þess að bregðast við framangreindu lögðu samrunaaðilar að eigin frumkvæði fram tillögur að margvíslegum skilyrðum til þess að leysa samkeppnisleg vandamál sem ella hefðu leitt af samrunanum. Fela skilyrðin meðal annars í sér sölu á tilteknum eignum, leyfum og réttindum, á mismunandi landsvæðum, þar á meðal á Íslandi.
Fréttatilkynning Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í dag, er aðgengileg hér.
Beiting samkeppnisreglna á Evrópska efnahagssvæðinu er sambærileg beitingu samkeppnisreglna hér á landi, enda felur EES-samningurinn í sér að efnisreglur hér á landi eru í öllum meginatriðum hinar sömu hér á landi og EES/ESB-löndum. Í þessu tiltekna tilviki var beiting valdheimilda í höndum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en í samráði við Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið. Í mörgum öðrum tilvikum er Samkeppniseftirlitinu falið að framkvæma reglur EES-samningsins, s.s. í málum er varða ólögmætt samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, en það er gert í samvinnu við Eftirlitsstofnun EFTA og e.a. í samráði við framkvæmdastjórn ESB.