Gróf brot Byko á samkeppnislögum og EES-samningnum staðfest og sekt hækkuð
Hæstiréttur Íslands hefur í dag staðfest að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum og hækkað álagða sekt í 400 mkr. Sjá dóm
Aðdragandi málsins er sá að í maí 2015 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Var um að ræða verðsamráð á mikilvægum byggingavörum. Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 mkr. sekt á Norvik, móðurfélag Byko.
Norvik og Byko kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í október 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 mkr. í 65 mkr.
Samkeppniseftirlitið höfðaði því mál fyrir dómstólum þar sem eftirlitið byggði á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði túlkað EES-samninginn með röngum hætti. Einnig hefði nefndin ekki lagt rétt mat á alvarleika brota Byko og sekt nefndarinnar gæti ekki tryggt fullnægjandi varnaðaráhrif.
Með dómi 1. júní 2018 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á að brot Byko hefðu verið alvarleg og hækkaði sekt félagsins í 400 mkr. Einnig féllst dómurinn á það að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Byko og Norvik skutu málinu til Landsréttar. Þann 14. júní 2019 komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Byko hefði framið alvarleg brot á samkeppnislögum. Landsréttur taldi brotin hins vegar ekki jafn umfangsmikil og jafnframt að ekki hefði verið sýnt fram á brot á EES-samningum. Sökum þess var sektin lækkuð í 325 mkr.
Hæstiréttur heimilaði Samkeppniseftirlitinu að áfrýja dómi Landsréttar. Í dómi Hæstaréttar í dag er fallist á það með Samkeppniseftirlitinu að samráðsbrot Byko hafi verið alvarlegra en Landsréttur lagði til grundvallar. Einnig var fallist á að Byko hefði brotið gegn EES-samningum að sektin skyldi hækkuð. Í dómi Hæstaréttar segir:
„Samkvæmt því sem rakið hefur verið fólust brot [Byko] gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins í reglubundnum og tíðum samskiptum gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. þar sem meðal annars var aflað upplýsinga um verð, þeim miðlað áfram til stjórnenda fyrirtækjanna og fjallað um þær á fundum framkvæmdastjórnar gagnáfrýjandans Byko ehf. Þá skiptust stjórnir gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á upplýsingum í febrúar 2010 um afkomu og rekstur þess síðarnefnda og hugmyndum um breytingar á verðstefnu þess á haustmánuðum 2010. Auk þess var um ólögmætt samráð gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. að ræða í tilraun þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til þess að taka þátt í verðsamráðinu. Loks liggur fyrir endurrit símtals sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. átti við starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011 þar sem hvatt var til víðtæks verðsamráðs. Í þessu símtali kemur fram einbeittur vilji til alvarlegs samráðs og fólst í því gróft brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Öll brot gagnáfrýjandans Byko ehf. voru alvarleg og fólu í sér skipulagt og kerfisbundið samráð milli fyrirtækja sem voru nánast einráð á þeim markaði sem brotin tóku til. Markaður málsins er mikilvægur fyrir almenning og beindust brotin því að mikilsverðum hagsmunum neytenda. Eins og rakið hefur verið telst hið samfellda samráð hafa staðið allt rannsóknartímabil málsins.“
Sem fyrr segir taldi Hæstiréttur að hæfilegt sekt vegna framangreinds væri 400 mkr.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins: „Dómur Hæstaréttar Íslands í dag hefur mikla þýðingu fyrir framþróun samkeppnisréttar á Íslandi. Með honum er meðal annars undirstrikað mikilvægi þess að fyrirtæki á fákeppnismörkuðum okkar litla hagkerfis gæti ítrasta sjálfstæðis í starfsemi sinni og forðist hvers konar samráð, samskipti og upplýsingamiðlun milli keppinauta sem dregið getur úr samkeppni, almenningi til til tjóns. Þetta mál er einnig mikilvæg áminning til fyrirtækja sem nú eiga í rekstrarerfiðleikum, um að lausna á slíkum vanda er ekki að leita í hækkun verðs til viðskiptavina, í skjóli samkeppnishindrana.“ |
Bakgrunnsupplýsingar:
Brot þessa máls tengjast ekki núverandi rekstraraðilum Húsasmiðjunnar. Rannsókn á þætti Húsasmiðjunnar í málinu lauk í júlí 2014. Með sátt, dags. 9. júlí 2014, viðurkenndi fyrrum rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf., að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólögmætu samráði við Byko.
Í samræmi við lögbundið hlutverk sitt kærði Samkeppniseftirlitið til lögreglu stjórnendur og starfsmenn Byko og gömlu Húsasmiðjunnar fyrir þátt sinn í samráðinu. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 voru átta starfsmenn fyrirtækjanna sakfelldir.
Eftirlitsstofnun EFTA taldi þetta mál fyrir „vekja mikilvægar spurningar varðandi túlkun EES-réttar." Beitti hún í fyrsta sinn hér á landi heimild til þess að leggja fram athugasemdir í málum fyrir dómstólum EFTA-ríkjanna. Lagði Eftirlitsstofnun EFTA fram athugasemdir á öllum dómstigum og auk þess sem að stofnunin reifaði sjónarmið sín munnlega fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppniseftirlitinu falið að meta hvort þeir almannahagsmunir, sem felast í virkri samkeppni, kalli á að úrskurðir áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu bornir undir dómstóla. Jafnframt er Samkeppniseftirlitinu falið að beita samkeppnisreglum EES-samningsins. Í samræmi við þessar skyldur höfðaði Samkeppniseftirlitið mál fyrir dómstólum til endurskoðunar á úrskurði áfrýjunarnefndar.