4.3.2021

Hæstiréttur Íslands staðfestir 480 milljón króna sekt á Mjólkursamsöluna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum

Með dómi Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp í dag, er staðfestur dómur Landsréttar um alvarleg brot Mjólkursamsölunnar (MS) á samkeppnislögum. Standa óhaggaðar 480 m.kr. sektir sem Samkeppniseftirlitið lagði á MS vegna alvarlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og brota á upplýsingaskyldu félagsins. 

Misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Í dóminum er staðfest að sú verðmismunun sem Mjólka ehf. og síðar Mjólkurbúið Kú ehf. sættu af hálfu MS hafi verið veruleg, en þessi fyrirtæki hafi þurft að greiða allt að 17% hærra verð fyrir hrámjólk en Kaupfélag Skagfirðinga svf. (KS) og dótturfélag þess. Taldi Hæstiréttur þessa mismunun hafa veitt KS og dótturfélagi þess óeðlilegt forskot í samkeppni. Í ljósi yfirburða áfrýjanda og „veikrar samkeppni“ á hinum skilgreinda markaði hafi MS með þessu vegið mjög að samkeppnisstöðu þeirra keppinauta fyrirtækisins sem voru háð því um aðgang að mjólk.
Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að MS sé með mikla þekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og í reynd með yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í því ljósi hafi háttsemi MS verið „sérlega alvarleg“. Taldi Hæstiréttur að fyrrgreind verðmismunun yrði ekki réttlætt með vísan til ákvæða búvörulaga. MS hafi því brotið „með alvarlegum hætti“ gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að brot MS gegn 11. gr. samkeppnislaga hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi og verið augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppni. Þá hafi það lotið að mikilvægri neysluvöru og á þann hátt snert almenning í landinu. Með vísan til þess var staðfest sú niðurstaða Landsréttar að MS beri að greiða 440 m. kr. sekt vegna brotsins.

Gögnum leynt

Með dómi Hæstaréttar er jafnframt staðfest að MS hafi „af ásetningi“ leynt fyrir Samkeppniseftirlitinu gagni sem félaginu hafi mátt vera ljóst að hefði grundvallarþýðingu fyrir rannsókn málsins, en stöðu sinnar vegna hafi félagið borið „sérlega ríkar skyldur til að upplýsa um grundvöll viðskiptakjaranna“. Hafi MS með þessu flækt rannsókn Samkeppniseftirlitsins og orðið til þess að fyrri ákvörðun eftirlitsins ónýttist. Með vísan til þessa var staðfest 40 milljón króna sekt vegna brotsins.

_____________
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Dómur Hæstaréttar hefur mikla þýðingu fyrir starfsumhverfi í framleiðslu mjólkurafurða hér á landi og styrkir stöðu bænda og neytenda. Þannig staðfestir dómurinn dómurinn mikilvægi samkeppni á mjólkurmarkaði og að MS er með öllu óheimilt að grípa til aðgerða sem miða að því að smáir keppinautar nái ekki fótfestu eða hrökklist út af markaðnum.
Reynslan sýndi að samkeppnislegt aðhald frá m.a. Mjólku var til hagsbóta fyrir bæði bændur og neytendur og dómur Hæstarréttar dregur skýrt fram að það felur í alvarlegt brot að raska slíkri samkeppni.

Háttsemi MS má rekja til túlkunar fyrirtækisins á því svigrúmi sem mjólkurafurðastöðvum var veitt með breytingum á búvörulögum árið 2004, þegar þeim var heimilað að sameinast og hafa með sér samstarf umfram almennar heimildir samkeppnislaga og umfram það sem gildir um sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndum okkar.“

Bakgrunnsupplýsingar:

Í júlí 2016 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Mjólkursamsalan (MS) hefði með alvarlegum hætti brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Nánar tiltekið hefði MS misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, þ.e. hrámjólk, á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og dótturfélag þess) fengu sama hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Niðurstaða eftirlitsins var að þetta hefði veitt MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Með þessu móti hefði geta slíkra aðila til að keppa við MS og tengd félög verið skert með alvarlegum hætti, en á endanum væri það til þess fallið að skaða hagsmuni neytenda og bænda.

MS skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð 18. nóvember 2016. Meirihluti nefndarinnar komst m.a. að þeirri niðurstöðu að undanþáguákvæði búvörulaga hefðu vikið banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu til hliðar. Af þessu leiddi að sekt MS vegna brota á 11. gr. samkeppnislaga var felld úr gildi. Á hinn bóginn staðfesti nefndin að MS hefði framið alvarlegt brot á upplýsingaskyldu samkeppnislaga og að fyrirtækinu bæri að greiða 40.000.000 kr. sekt vegna þess.
Eftir skoðun á forsendum meirihluta áfrýjunarnefndar taldi Samkeppniseftirlitið að því bæri að bera framangreindan úrskurð undir dómstóla og stefndi MS fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til þess að þola ógildingu á framangreindri niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar um samspil búvörulaga og samkeppnislaga. Miðaði sú málshöfðun að því að fá úr því skorið hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu tæki að fullu til MS. Jafnframt yrði fengin fullnaðarúrlausn um hvort að fyrirtækið skyldi sæta fullri ábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem fjallað var um í málinu og Samkeppniseftirlitið hefði metið sem alvarleg brot gegn minni keppinautum.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði fallist á kröfu Samkeppniseftirlitsins um að MS yrði gert að greiða sekt vegna þess að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu mjólkurvara, þ.e. hrámjólk, á hærra verði en MS sjálft og tengdir aðilar (Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og dótturfélag þess) þurftu að greiða. Héraðsdómur felldi því úr gildi þá niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar samkeppnismála að búvörulög hafi heimilað háttsemi fyrirtækisins.
MS skaut dómi Héraðsdóms til Landsréttar, sem staðfesti dóminn. Hæstiréttur Íslands hefur í dag staðfest dóm Landsréttar, samkvæmt framangreindu.