Hæstiréttur staðfestir brot Símans í máli Enska boltans og dæmir Símann til greiðslu sektar að fjárhæð 400.000.000 króna
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli vegna Enska boltans um að Síminn hafi brotið gegn sátt sem fyrirtækið gerði við stofnunina. Var Símanum gert að greiða 400 milljón króna sekt í ríkissjóð vegna þessa.
Umræddri sátt frá 15. apríl 2015 (svonefndri sjónvarpssátt) var ætlað að koma í veg fyrir að Síminn gæti nýtt hið breiða þjónustuframboð sitt til þess að takmarka samkeppni almenningi til tjóns.
Um brotin
Brot Símans fólst í því að bæta sjónvarpsstöðinni Símanum Sport með Enska boltanum við svonefndan Heimilispakka um leið og fyrirtækið hækkaði verð fyrir áskrift að pakkanum. Á þessum tíma voru áskrifendur Heimilispakkans á fjórða tug þúsund og lýsti forstjóri Símans þessari samtvinnun á þjónustu fyrirtækisins þannig að með henni fengi það „40 þúsund áskrifendur strax frá fyrsta degi“. Áskrifendur Heimilispakkans gátu ekki afþakkað sjónvarpsstöðina nema segja upp áskrift að pakkanum, en þurftu þá að greiða mun hærra verð fyrir þá fjarskiptaþjónustu sem þeir höfðu áður fengið með honum. Taldi Samkeppniseftirlitið í ákvörðun nr. 25/2020 að í þessu hefði falist alvarlegt brot Símans og var sú niðurstaða staðfest í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2020 . Hefur Hæstiréttur nú staðfest þá niðurstöðu.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að áskrifendur Heimilispakkans hafi ekki átt þess kost að hafna aðgangi að sjónvarpsstöðinni sérstaklega og halda öðrum þjónustuþáttum, bæði fjarskiptaþjónustu og annarri sjónvarpsþjónustu pakkans, nema með því að segja upp áskriftinni. Hefðu kaup þeirra á stökum þjónustuþáttum Símans óhjákvæmilega haft umtalsverða hækkun á verði í för með sér.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Síminn eigi að þekkja til hlítar efni og markmið þeirra sátta sem hann hafi gert við Samkeppniseftirlitið. Hafnaði Hæstiréttur þeirri málsástæðu Símans að orðalag sjónvarpssáttarinnar væri óskýrt eða að uppi væri vafi um skýringu hennar. Í því sambandi var litið til þess að Síminn hafði óskað eftir því að skilyrði sáttarinnar yrðu felld niður, en í ljósi skilyrðanna og ítarlegs rökstuðnings í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fyrir því að hafna þeirri málaleitan hafi fyrirtækinu mátt vera fyllilega ljóst að umrædd viðskiptakjör stönguðust á við skilyrði sáttarinnar.
Hæstiréttur taldi aftur á móti að í málinu hefði ekki verið að fullu upplýst hvort háttsemi Símans fæli í sér brot gegn annarri sátt (svonefndri skipulagssátt) sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið 23. janúar 2015 (ákvörðun nr. 6/2015). Í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála var þeim þætti málsins vísað til frekari meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Upphafleg rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst í kjölfar kvörtunar Sýnar (Vodafone) á árinu 2019. Á árinu 2012 staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Síminn hefði brotið efnislega sömu fyrirmæli og staðreynt er í dómi Hæstaréttar í dag.
Um sektir
Með upphaflegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var Símanum gert að greiða 500 milljón króna sekt í ríkissjóð en áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina í 200 milljón krónur.
Bæði Síminn og Samkeppniseftirlitið höfðuðu mál vegna niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hvort tveggja héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu því að háttsemi Símans fæli í sér brot. Hæstiréttur hefur nú snúið við þeirri niðurstöðu og hækkað sekt Símans í 400 milljón krónur, sem er tvöföldun á fjárhæð þeirrar sektar sem áfrýjunarnefnd kvað á um í úrskurði sínum. Í forsendum dóms Hæstaréttar er vísað til mikilvægis þess að tryggja varnaðaráhrif.
Um málshöfðunarheimild Samkeppniseftirlitsins
Í samkeppnislögum er gert ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið verji almannahagsmuni meðal annars með því að framfylgja boðum og bönnum laganna og ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja. Með breytingu sem var gerð á samkeppnislögum á árinu 2011 var Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að höfða mál vegna úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Var það talið mikilvægt að stofnunin hefði möguleika til að gæta hagsmuna almennings í samkeppnismálum fyrir dómi.
Niðurstaða Hæstaréttar staðfestir mikilvægi málsóknarheimildarinnar en gagnrýnisraddir hafa verið háværar um að stofnunin eigi ekki að hafa slíka heimild.