18.12.2019

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnar kröfum Eimskips

Þann 1. júlí 2019 krafðist Eimskip þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um það annars vegar að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði fyrirtækisins við Samskip væri ólögmæt og að henni skyldi hætt og hins vegar að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn fyrirtækisins við húsleitir hjá því 10. desember 2013 og 4. júní 2014 og að afritum gagnanna yrði eytt.

Þann 10. október 2019 vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur frá kröfu Eimskips um að úrskurðað yrði að rannsókn Samkeppniseftirlitsins væri ólögmæt og að henni skyldi hætt. Eimskip kærði þá niðurstöðu til Landsréttar. Með úrskurði 25. október 2019 staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Eftir stóð þá krafa Eimskips um að aflétt yrði haldi sem hafði verið lagt á gögn fyrirtækisins og að afritum slíkra gagna yrði eytt.

Með úrskurði sínum í dag hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur þeirri kröfu Eimskips sem eftir stóð, þ.e. að aflétt yrði haldi sem var lagt á gögn fyrirtækisins og að afritum gagnanna yrði eytt.

Vegna fyrirspurna um stöðu rannsóknarinnar skal eftirfarandi tekið fram:

  • Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að því hvort Eimskip og Samskip (Samskip Holding BV, Samskip hf., Landflutningar ehf. og Jónar Transport hf.) hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Í tengslum við rannsóknina gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá fyrirtækjunum 10. september 2013 og aftur hjá Eimskipi 4. júní 2014. Hófst þessi rannsókn í kjölfar ábendinga frá bæði viðskiptavinum og keppinautum Eimskips og Samskipa.
  • Samkeppniseftirlitið hefur haft möguleg brot fyrirtækjanna til samfelldrar rannsóknar og er hún vel á veg komin. Meðal annars hefur Samkeppniseftirlitið gefið fyrirtækjunum kost á að tjá sig um frummat eftirlitsins og þau gögn sem það byggir á, en eftirlitið gætir andmælaréttar fyrirtækja í málum af þessu tagi með því að gefa út svokallað andmælaskjal.
  • Eimskipi og Samskipum hefur verið gefið tækifæri til að nýta andmælarétt sinn í tveimur áföngum. Fyrra andmælaskjalið var birt fyrirtækjunum þann 6. júní 2018 og þeim boðið að koma að athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri. Hvorugt fyrirtækjanna nýtti sér þann rétt sinn. Síðara andmælaskjalið var birt félögunum í lok síðustu viku. Hafa fyrirtækjunum nú verið gefnir endanlegir frestir til að koma athugasemdum og sjónarmiðum sínum á framfæri.

Mál þetta sætir forgangi hjá Samkeppniseftirlitinu. Er umfang rannsóknarinnar, þar á meðal undirliggjandi gagnamagn, án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi.