29.10.2024

Héraðsdómur vísar frá kröfu Símans um niðurfellingu sáttar fyrirtækisins við Samkeppniseftirlitið

  • Sjonvarp-simans

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með úrskurði uppkveðnum 28. október 2024 vísað frá kröfu Símans hf. þar  sem fyrirtækið krafðist viðurkenningar á því að það væri óbundið af skilyrðum í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2015. Um var að ræða skilyrði samkvæmt sátt sem fyrirtækið hafði skuldbundið sig til að fara eftir vegna kaupa á sjónvarpsstöðinni Skjánum sem síðar varð Sjónvarp Símans. Efnislega snerist krafa Símans um að fyrirtækið þyrfti ekki í veigamiklum atriðum að fara að skilyrðum sáttarinnar.

Tildrög málsins eru þau að Síminn óskaði eftir að Samkeppniseftirlitið endurskoðaði og felldi niður skilyrði þeirrar sáttar sem fyrirtækið hafði gert við eftirlitið, sbr. ákvörðun nr. 20/2015. Beiðni Símans hefur verið til skoðunar hjá eftirlitinu en tafist m.a. vegna þess að önnur brýnni mál sem varða fjarskipta- og sjónvarpsmarkaði hafa sætt forgangi. Eru þetta m.a. samrunamál og mál þar sem háttsemi Símans gagnvart minni keppinautum hefur verið til skoðunar.

Þessu vildi Síminn ekki una og höfðaði mál á hendur Samkeppniseftirlitinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með það að markmiði að fyrrgreind sátt yrði felld niður. Í úrskurði héraðsdóms er lögð áhersla á að Samkeppniseftirlitið hafi ríkar heimildir til forgangsröðunar mála og hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála jafnvel litið svo á að mati eftirlitsins þar að lútandi verði almennt ekki hnekkt. Þá beri Samkeppniseftirlitinu ekki skylda til að taka umrædda ákvörðun til endurskoðunar. Málið sé þegar til rannsóknar hjá eftirlitinu en ekki liggi fyrir hvort beiðni Símans verði hafnað eða hún samþykkt. Hafi Samkeppniseftirlitið gert nokkuð rækilega grein fyrir ástæðum þess að ekki hafi enn verið unnt að ljúka rannsókn á því.

Þá kemur fram í úrskurðinum að það leiði af þrískiptingu ríkisvalds að það sé almennt ekki á færi dómstóla að taka ákvarðanir um málefni sem stjórnvöldum séu falin með lögum eða gefa stjórnvöldum fyrirmæli um efnislegt innihald ákvaðana. Sú ráðstöfun sem Síminn hafi farið fram á að dómurinn taki ákvörðun um heyri ekki undir dómstóla. Með vísan til þessa var málinu vísað frá dómi.