30.5.2024

Hvatar samkeppni í myndgreiningum - Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands og kvörtun Intuens Segulómunar ehf.

  • Myndgreining

Með áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2024 sem birt er í dag beinir eftirlitið þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) að gripið verði til aðgerða til að stuðla að bættri samkeppni í myndgreiningum utan sjúkrahúsa. Álit þetta er birt vegna kvörtunar Intuens Segulómunar ehf. (Intuens) til Samkeppniseftirlitsins um að fyrirtækinu hafi verið synjað um samning um greiðsluþátttöku hjá SÍ sem hindrar innkomu þess á markað fyrir myndgreiningar.

Nánar tiltekið fela tilmælin í sér að heilbrigðisyfirvöld beiti sér fyrir því að auka samkeppni með því að greiða innkomu nýrra aðila inn á markaðinn, en með virkari samkeppni er stuðlað að því að notendur fái betri þjónustu á sem hagstæðustu verði, til hagsbóta fyrir almenning og ríkissjóð, sem stendur undir verulegum hluta kostnaðarins í gegnum greiðsluþátttöku SÍ.

Einnig að þegar í stað verði tryggt að Intuens njóti jafnræðis gagnvart starfandi fyrirtækjum á markaðnum um samning um greiðsluþátttöku. Samkeppniseftirlitið telur að stjórnvöld hafi ekki sýnt fram á málefnalegar ástæður fyrir því að hafna samningi við Intuens um greiðsluþátttöku á sama tíma og eldri samningar hafa verið framlengdir gagnvart starfandi fyrirtækjum.

Þá er því beint til heilbrigðisyfirvalda að útboð á almennri myndgreiningarþjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsa eða að ákvörðun um innkaup á slíkri þjónustu hafi þau skýru markmið að efla samkeppni á markaðnum, en í því felst m.a. að ný fyrirtæki sem uppfylla málefnaleg skilyrði og bjóða samkeppnishæft verð og þjónustu eigi sem greiðasta leið inn á markaðinn.

Samkeppniseftirlitið telur það hafa mikla þýðingu að markaður fyrir myndgreiningar hefur verið í örum vexti á undanförnum árum án þess þó að keppinautum hafi fjölgað. Þar starfa nú þrjú fyrirtæki og þar af tvö með verulega háa markaðshlutdeild. Á sama tíma hafa heilbrigðisyfirvöld bent á að þjónusta núverandi fyrirtækja sé kostnaðarsöm og sum hver skilað eigendum sínum miklum arði. Við slíkar aðstæður ætti það að vera keppikefli yfirvalda að greiða götu nýrra keppinauta til að koma inn á markaðinn og efla samkeppni til að ná fram hagstæðara verði og betri þjónustu.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkeppniseftirlitið fjallaði um markað fyrir myndgreiningar í ákvörðun nr. 35/2020 þar sem til skoðunar var samruni Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf. Samruninn var ógiltur enda hefði hlutdeild sameinaðs fyrirtækis orðið um 90-95% og aðeins einn annar keppinautur starfandi. Niðurstaðan fól í sér að samrunaaðilar væru mikilvægir og nánir keppinautar með mjög sterka stöðu og að samruninn myndi eyða samkeppnislegu aðhaldi sem aðilar byggju við frá hvorum öðrum. Átti það við hvort sem um væri að ræða samkeppni í gæðum, þjónustu, að laða til sín hæft starfsfólki og síðast en ekki síst samkeppni í að veita íslensku heilbrigðiskerfi hvað besta þjónustu fyrir hagkvæmt verð. Samruninn var því ógiltur.

Ákvörðunin var staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2020 og síðar með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4662/2021 . Dómur héraðsdóms var svo staðfestur nýlega í Landsrétti eða þann 3. maí 2024 með dómi í máli nr. 165/2023 með vísan til forsendna að mestu leyti.