Hvernig getur samkeppni nýst í baráttunni gegn verðbólgu og fyrir auknum kaupmætti?
Samkeppniseftirlitið býður til morgunfundar í Hörpu mánudaginn 13. júní
Mánudaginn 13. júní frá 08:15 til 09:45 | Í Hörpu og í streymi | SKRÁNING HÉR
Í tilefni af fundi aðalhagfræðinga samkeppnisyfirvalda í Evrópu í Hörpu heldur Samkeppniseftirlitið opinn morgunfund um samspil samkeppni, verðbólgu og kaupmáttar mánudaginn 13. júní.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flytur opnunarávarp á fundinum og Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flytur erindi. Mun hann fjalla um hvaða áhrif samkeppni og samkeppniseftirlit geta haft á verðbólgu og kaupmátt. Aukin verðbólga er áhyggjuefni víða um heim þessi misserin þar sem hún getur rýrt kaupmátt heimila.
Einnig má búast við fjörugum pallborðsumræðum en þar taka þátt frábærir gestir:
- Ana Sofia Rodrigues, aðalhagfræðingur portúgalska samkeppniseftirlitsins
- Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
- Martin Gaynor, hagfræðiprófessor við Carnegie Mellon-háskóla
- Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB
- Fundarstjórn: Valur Þráinsson, aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins
Aðgangur að fundinum er ókeypis. Hægt er að taka þátt með rafrænum hætti eða koma í Hörpu og vera með í umræðum um samkeppnismál yfir rjúkandi kaffibolla. Í báðum tilvikum þarf að SKRÁ SIG HÉR.
Fundurinn er haldinn í tengslum við árlegan fund aðalhagfræðinga samkeppniseftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu, en Samkeppniseftirlitið er gestgjafi að þessu sinni.
Dagskrá:
- 08:00 – Kaffi og morgunverður
- 08:15 – Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, býður gesti velkomna
- 08:20 – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flytur opnunarávarp
- 08:25 – Pierre Régibeau, aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flytur erindi
- 08:50 – Pallborðsumræður
- 09:40 – Sveinn Agnarsson, stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins, flytur lokaorð
Nánari upplýsingar um þátttakendur
Ana Sofia Rodrigues hefur starfað sem aðalhagfræðingur portúgalska samkeppniseftirlitsins (AdC) frá því í október 2015 eftir eitt ár hjá OECD þar sem hún vann sem sérfræðingur í samkeppnismálum. Þar áður gegndi hún ýmsum störfum hjá AdC. Ana Sofia lauk doktorsnámi í hagfræði frá Háskólanum í York árið 2008.
Ásgeir Jónsson var skipaður Seðlabankastjóri árið 2019. Þar áður starfaði hann sem forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Ásgeir lauk meistaraprófi í hagfræði frá Indiana-háskóla árið 1997 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 2001.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur átt sæti í ríkisstjórn Íslands frá 2016 en hún tók við ráðuneyti menningar- og viðskiptamála í nóvember 2021. Áður en Lilja var kjörinn á Alþingi gegndi hún ýmsum störfum fyrir bæði Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Lilja er með meistaragráðu í hagfræði frá Columbia-háskóla í New York.
Martin Gaynor er hagfræðiprófessor við Carnegie Mellon-háskóla í Bandaríkjunum. Hann er fyrrverandi yfirmaður hagfræðideildar Alríkisviðskiptastofnunar Bandaríkjanna (e. Federal Trade Commision). Martin hefur verið atkvæðamikill í rannsóknum á samkeppnisstefnu (e. competition policy) og samkeppni í heilbrigðisgeiranum. Hann lauk doktorsnámi í hagfræði frá Northwestern-háskóla 1983.
Páll Gunnar Pálsson hefur verið forstjóri Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2005. Páll Gunnar er lögfræðingur að mennt.
Pierre Régibeau er aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar framkvæmdastjórnar ESB. Í rannsóknum sínum hefur hann lagt áherslu á atvinnuvegahagfræði, réttarhagfræði og alþjóðaviðskipti. Pierre lauk doktorsprófi frá Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Þá hefur hann kennt við MIT-háskóla, Northwestern-háskóla og Háskólann í Barcelona. Í dag gegnir hann stöðu heiðursgestaprófessors við Essex-háskóla.
Sveinn Agnarsson er stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins en hann starfar sem prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Sveinn lauk grunnnámi í sagnfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í hagfræði frá Háskólanum í Gautaborg.
Valur Þráinsson hefur verið aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2019. Valur lauk grunnámi í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistaraprófi í hagfræði frá Háskólanum í Amsterdam og diplómagráðu í evrópskum samkeppnisrétti frá King‘s College í Lundúnum.
Bakgrunnsupplýsingar
Verðbólga hefur aukist jafnt og þétt víða um heim síðustu mánuði. Vísitala neyðsluverðs í OECD-ríkjunum hækkaði um 8,8% á milli ára í mars á þessu ári og um 7,8% í febrúar, samanborið við 2,4% hækkun í mars 2021. Hækkunin í mars var sú mesta frá október árið 1988. Í fimmtungi OECD-ríkja hefur verðbólga náð tveggja stafa tölu en hæst er hún í Tyrklandi þar sem verðbólgan er 61,1%. Þó er ekki útlit fyrir að verðbólgan hafi náð hámarki. Til að mynda telur The Bank of England að verðbólga muni ná 10% síðar á árinu samkvæmt uppfærðri spá bankans sem birtist í byrjun maí á þessu ári. Seðlabanki Íslands spáir því að verðbólga hér á landi verði 8,1% á þriðja ársfjórðungi 2022 og svipaða sögu er að segja víða um heim.
Þessi þróun hefur leitt til svokallaðrar kaupmáttarkrísu (e. Cost-of-Living crisis) í ýmsum löndum. Laun ná þá ekki að halda í við aukna verðbólgu sem leiðir til rýrnandi kaupmáttar heimilanna sem hefur slæmar afleiðingar fyrir almenning.
Oft á tíðum er lítið fjallað um hvernig samkeppni og samkeppniseftirlit getur nýst þegar verðbólga eykst eða kaupmáttur minnkar. Það er þó almennt viðurkennt að heilbrigð samkeppni á mörkuðum hefur jákvæð áhrif á lífskjör og hagsæld. Á hinn bóginn getur fákeppni og skortur á samkeppni haft þveröfug áhrif.
Ríkisstjórn Joe Biden, Bandaríkjaforseta, hefur lagt ríka áherslu á eflingu samkeppniseftirlits til að bregðast við aukinni verðbólgu. Eftirlitsstofnanir hafa fengið þau tilmæli að auka eftirlit með samkeppni, sérstaklega á mörkuðum þar sem samkeppni hefur verið lítil eða mikil samþjöppun átt sér stað.
Til viðbótar er vert að nefna að virk samkeppni á milli fyrrtækja getur bætt hag launafólks. Samkeppnisyfirvöld í Evrópu, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa öll gripið inn í á mörkuðum þar sem skaðlegir samrunar eða önnur samkeppnishamlandi háttsemi hefðu að öðrum kosti haft neikvæð áhrif á starfsfólk og kjör þeirra.
Það er því sannarlega þörf á opinni umræðu um það hvernig samkeppni og samkeppniseftirlit geta komið að gagni í baráttunni gegn hækkandi verðbólgu og fyrir auknum kaupmætti.