Í tilefni af tilkynningu Byggðaráðs Rangárþings ytra um mögulega lokun Festi á verslun sinni á Hellu
Byggðaráð Rangárþings ytra hefur birt yfirlýsingu varðandi rekstur dagvöruverslunar á Hellu. Er hún sett fram í tilefni af umfjöllun um mögulega lokun á verslun Festi á Hellu og framkvæmd Festi á sátt sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið. Nánar er fjallað um sáttina, forsendur söluskilyrða vegna verslunar á Hellu og rannsókn á mögulegum brotum Festi hér.
Í yfirlýsingu byggðaráðsins kemur m.a. fram: „Annað hvort fær Festi hf leyfi til þess að reka hér áfram sína ágætu verslun og þá gjarnan þannig að bætt verði í og opnuð hér Krónubúð, eða þá að Festi hf snýr sér að því að selja Kjarvalsverslun sína hér á Hellu til aðila sem teljast samkeppnisaðilar og hafa til þess nægjanlegt afl.“
Í tilefni af yfirlýsingu byggðaráðsins vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:
Möguleg áform Festi um að loka verslun sinni á Hellu eru ekki í samræmi við þá sátt og þau skilyrði sem félagið lagði til þegar samruni N1 og Festi var heimilaður og samþykkt voru af Samkeppniseftirlitinu. Markmið skilyrðana voru þvert á móti að koma í veg fyrir að samruninn hefði þau áhrif að valkostum neytenda myndi fækka, þjónusta versna eða verð hækka.
Engin af þeim tillögum sem Festi lagði til, og Samkeppniseftirlitið samþykkti, hafði því það að markmiði að gera stöðu neytenda verri eftir samrunann, heldur þvert á móti að verja hagsmuni þeirra.
Komi til lokunar á verslunarinnar á Hellu, án þess að Festi hafi uppfyllt skuldbindingar sínar að þessu leyti, má vænta þess að Samkeppniseftirlitið taki til skoðunar hvort lokunin feli í sér brot sáttinni.
Í tilefni af yfirlýsingunni mun Samkeppniseftirlitið óska eftir fundi með Byggðaráði Rangárþings til að ræða stöðu málsins með það að markmiði að markmið sáttarinnar nái fram að ganga og hagsmuna íbúa á svæðinu verði gætt.