Íslandspóstur gengst við því að hafa farið gegn fyrirmælum í sátt
Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 10/2020 , sem birt er í dag, er gerð grein fyrir sátt sem eftirlitið hefur gert við Íslandspóst ohf. vegna brota fyrirtækisins á skilyrðum sem á félaginu hvíla á grundvelli ákvörðunar nr. 8/2017, Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði.
Með umræddri sátt gengst Íslandspóstur við því að hafa farið gegn fyrirmælum í sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið frá árinu 2017 og er gert að greiða fimm milljónir króna í stjórnvaldssektir vegna þessa.
Brot Íslandspósts tengjast fyrrum dótturfélagi þess, ePósti ehf., og fólust annars vegar í því að Íslandspóstur hafi ekki óskað eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en rekstur dótturfélagsins ePósts ehf. var færður inn í Íslandspóst og sameining félaganna komst til framkvæmda og hins vegar því að hafa látið hjá líða að endurskoða kjör á áður veittri lánsfjármögnun til ePósts, þrátt fyrir að ljóst hafi verið að kjörin voru undir markaðskjörum sem sambærileg fyrirtæki njóta.
Afar þýðingarmikið er að fyrirtæki fari að þeim skilyrðum sem þau undirgangast með sátt við Samkeppniseftirlitið. Á hinn bóginn telur Samkeppniseftirlitið að unnt sé að fallast að einhverju leyti á þau sjónarmið sem Íslandspóstur hefur sett fram sér til málsbóta í málinu og voru þau að hluta til höfð til hliðsjónar við ákvörðun sektar.
Bakgrunnsupplýsingar:
Í upphafi árs 2017 gekkst Íslandspóstur undir sátt við Samkeppniseftirlitið sem birt er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, Aðgerðir til að styrkja samkeppnisaðstæður á póstmarkaði. Um er að ræða tvíhliða sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts þar sem leitast er við að leysa til frambúðar úr þeim samkeppnisvandamálum sem kristallast höfðu í margvíslegum ábendingum og kvörtunum yfir starfsemi félagsins sem borist höfðu Samkeppniseftirlitinu. Flestar kvartanirnar tengdust beint eða óbeint grunsemdum keppinauta um að hagnaður úr einkaréttarstarfsemi Íslandspósts hafi verið nýttur til að víxlniðurgreiða samkeppnisstarfsemi Íslandspósts.
Í sáttinni er m.a. kveðið á um hvaða starfsemi Íslandspósts skuli rekin í aðskildu dótturfélagi. Var það m.a. gert í því skyni að afmarka samkeppnisstarfsemi Íslandspósts sem mest frá einkaréttarvörðu starfseminni. Þá er með nánar tilteknum hætti kveðið á um rekstrar- og stjórnunarlegt sjálfstæði dótturfélaga og jafnframt innleidd ítarleg skilyrði varðandi viðskipti Íslandspósts við dótturfélög, einkum í því skyni að tryggja jafnræði keppinauta dótturfélaga Íslandspósts í viðskiptum við Íslandspóst. Jafnframt er heimildum Íslandspósts til fjármögnunar á starfsemi dótturfélaga settar verulegar skorður til þess að samkeppni raskist ekki á þeim mörkuðum sem dótturfélög Íslandspósts starfa. Þá er kveðið á um það að samþykki Samkeppniseftirlitsins verði að liggja fyrir áður en rekstur dótturfélags er færður inn í móðurfélagið, Íslandspóst, og dótturfélag lagt niður. Á grundvelli sáttarinnar var jafnframt sett á fót sérstök eftirlitsnefndar sem fylgir sáttinni eftir, tekur við kvörtunum og tekur ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar.