21.3.2022

Kaup ríkisins á öllu hlutafé í Auðkenni samþykkt með skilyrðum

  • Untitled-design-76-

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup ríkisins á öllum hlutum Auðkenni ehf. á grundvelli skilyrða í sátt sem samrunaaðilar gerðu við Samkeppniseftirlitið. Með sáttinni skuldbinda samrunaaðilar sig til þess að fara að skilyrðum sem miða að því að vinna gegn hugsanlegum skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni.

Auðkenni er fyrirtæki sem veitir rafræna auðkenningar- og traustþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið hefur fram til þessa verið í eigu helstu notenda þjónustunnar. Þeir stærstu eru viðskiptabankarnir þrír ásamt Símanum hf. Auðkenni hefur þannig starfað á grundvelli undanþágu frá samráðsbanni samkeppnislaga frá árinu 2006 til ársins 2020 þegar breytingar urðu á framkvæmd samkeppnislaga og sjálfsmat fyrirtækja vegna samstarfs var tekið upp. Með breytingu á eignarhaldi Auðkennis verður fyrirtækið ekki lengur í eigu keppinauta sem starfa á sama markaði.

Með sátt samrunaaðila við Samkeppniseftirlitið skuldubundu þeir sig til að grípa til aðgerða og fylgja eftirfarandi skilyrðum til þess að sporna við samkeppnishindrunum sem annars gætu leitt af samrunanum:

  • Sett eru skilyrði vegna áforma samrunaaðila um stofnun svokallaðs ráðgjafaráðs. Í ráðinu sitja fyrrum eigendur og stórnotendur þjónustu Auðkennis. Slíkur vettvangur er til þess fallinn að stuðla að mismunun á meðal viðskiptavina og skapa hættu á skaðlegum upplýsingaskiptum eða öðru samráði á milli keppinauta. Samrunaaðilar hafa skuldbundið sig til að fylgja skilyrðum sem vinna gegn þessu, auk þess sem að þeir eru áfram ábyrgir fyrir því að tryggja að allt samstarf á vettvangi félaganna uppfylli kröfur samkeppnislaga.

  • Þegar um er að ræða markaði í mótun þar sem stjórnvöld hafa leiðandi hlutverk er mikilvægt að tryggja að aðkoma ríkisins takmarki ekki frekari þróun og frumkvæði annarra sem vilja hasla sér völl á viðkomandi sviði. Meðal annars af þeim sökum er gert að skilyrði að stjórnvöld endurmeti reglulega stöðu sína og hlutverk á markaðnum í ljósi mögulegra breytinga. Í þessu sambandi er horft til þess að ríkissjóður öðlast með samrunanum yfirráð yfir Auðkenni sem hefur undanfarin ár haft yfirburðarstöðu í rafrænni auðkenningar- og traustþjónustu á Íslandi. Auk þess liggur fyrir að íslenska ríkið er jafnframt eigandi og rekstraraðili Íslandsrótar sem gefur út svokölluð rótarskilríki sem eru forsenda auðkenningarþjónustu á Internetinu. Þá hefur ríkið og stofnanir þess verið á meðal stærstu viðskiptavina Auðkennis.

Við meðferð málsins birti Samkeppniseftirlitið tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem markaðsaðilum var gefin kostur á að koma á framfæri athugasemdum við samrunann. Einnig var óskað sjónarmiða hjá fyrirtækjum sem starfa á traustþjónustumarkaði og þeim gefin kostur á að koma á framfæri athugasemdum.

Í ákvörðun eftirlitsins nr. 5/2022 frá 18. febrúar er að finna ítarlegri umfjöllun um meðferð málsins, þau skilyrði sem sett eru samrunanum og mat á samkeppnislegum áhrifum hans.